Hoppa yfir valmynd
21. mars 2002 Forsætisráðuneytið

A-144/2002 Úrskurður frá 21. mars 2002

ÚRSKURÐUR



Hinn 21. mars 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-144/2002:

Kæruefni

Með bréfi, dagsettu 31. janúar sl., kærði [A], f.h. Fréttablaðsins, synjun félagsmálastjóra Kópavogsbæjar, dagsetta 30. janúar sl., um að veita honum aðgang að nánar tilteknum gögnum um daggæslu [B] og [C] fyrir börn að [...], þar í bæ.

Með bréfi, dagsettu 4. mars sl., var Kópavogsbæ veittur frestur til að lýsa viðhorfi sínu til kærunnar og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 11. mars sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd yrðu í trúnaði látin í té ljósrit af öllum gögnum málsins innan sama tíma. Að ósk framkvæmdastjóra félags-málasviðs Kópavogsbæjar var frestur þessi framlengdur til kl. 16.00 hinn 15. mars sl. Umsögn [...] hrl., f.h. Kópavogsbæjar, dagsett 14. mars sl., barst innan tilskilins frests, ásamt umbeðnum gögnum.

Málsatvik

Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með tölvubréfi til félagsmálastjóra Kópa-vogs-bæjar, dagsettu 30. janúar sl., fór kærandi fram á að fá aðgang að eftirtöldum gögnum:

"1. Leyfi frá árinu 1998 til handa [B] og [C] vegna reksturs daggæslu að heimili þeirra í Kópavogi.
2. Allar bréfaskriftir milli bæjaryfirvalda annars vegar og [B] og [C] hins vegar vegna rekstrar daggæslunnar.
3. Allar bréfaskriftir milli þriðja aðila (t.d. foreldra barna) og félagsmálasviðsins vegna daggæslu þeirra [B] og [C]."

Félagsmálastjóri Kópavogsbæjar synjaði beiðni kæranda með tölvubréfi, dagsettu sama dag. Af svari hans má ráða að sú afgreiðsla hafi verið reist á því að umbeðin gögn varði mál, sem sé til meðferðar að hætti opinberra mála, sbr. niðurlag 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Af því tilefni beindi úrskurðarnefnd því til ríkis-saksóknara með bréfi, dagsettu 5. febrúar sl., að nefndinni yrði gerð grein fyrir því hvort umbeðin gögn tengist rannsókn eða saksókn á hans vegum. Ef ákæra hafi verið gefin út í málinu, var þess jafnframt farið á leit að nefndinni yrði látið í té ljósrit af henni, sem trúnaðarmál.

Ríkissaksóknari svaraði beiðni úrskurðarnefndar með bréfi, dagsettu 11. febrúar sl. Þar segir m.a. orðrétt: "Ekki verður annað séð en að umbeðin gögn tengist sakarefni opinbers máls sem höfðað hefur verið á hendur framangreindum aðilum. Að mati ákæru-valdsins kunna þau því að falla undir 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996."

Með bréfi ríkissaksóknara fylgdi ákæra á hendur [B] og [C], útgefin 25. janúar sl. Samkvæmt ákærunni er höfðað mál gegn ákærðu fyrir manndráp af gáleysi og brot á reglum um atvinnuháttu. Síðara ákæruatriðinu er þar lýst með svofelldum hætti: "Báðum ákærðu er gefið að sök að hafa við leyfis-skyldan rekstur Daggæslu [B] og [C], [...], Kópavogi, mánuð-ina janúar 2001 til og með apríl 2001, tekið mun fleiri börn til gæslu en þeim var heimilt samkvæmt 12. gr. reglugerðar nr. 198/1992 um daggæslu barna í heimahúsum, daggæsluleyfum félagsmálaráðs Kópavogsbæjar dags. 1. maí 2000 og 15. janúar 2001 og sérstöku leyfi félagsmálayfirvalda í Kópavogi . . ." Dómur í umræddu sakamáli var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness hinn 1. mars sl. Hefur úrskurðarnefnd aflað sér endurrits af dóminum.

Á grundvelli þeirra gagna, sem að framan er lýst, var ekki unnt að útiloka að beiðni kæranda tæki til fleiri gagna en fyrir lágu fyrir við undirbúning og rekstur saka-málsins. Af þeim sökum taldi úrskurðarnefnd að málið yrði ekki nægilega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema fyrir hana yrðu lögð öll þau gögn sem beiðni kæranda tekur til. Með vísun til þess og 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, beindi nefndin því til Kópavogsbæjar með bréfi, dagsettu 4. mars sl., að láta henni í té ljósrit þeirra sem trúnaðarmál. Jafnframt var stofnuninni gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til kærunnar og koma að frekari rökstuðningi, svo sem áður getur.

Í umsögn umboðsmanns Kópavogsbæjar til úrskurðarnefndar, dagsettri 14. mars sl., er bent á að í framangreindri ákæru hafi ákærðu m.a. verið gefið að sök að hafa við leyfis-skyldan rekstur daggæslu tekið mun fleiri börn í gæslu en þeim hafi verið heimilt samkvæmt reglugerð um daggæslu í heimahúsum og sérstöku leyfi félagsmálayfirvalda. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness 1. mars sl. hafi bæði ákærðu verið sakfelld fyrir brot gegn 187. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við meðferð málsins í héraði hafi tiltekinn daggæslufulltrúi borið vitni, m.a. um ætlaðan fjölda barna í daggæslu hjá ákærðu og um athugasemdir sem fram höfðu komið þar að lútandi. Aðrir starfsmenn félagsmálasviðs Kópavogsbæjar hafi einnig gefið skýrslu hjá lögreglu. Af þessum ástæðum hafi verið talið að mál það, sem umbeðin gögn lúta að, hafi sætt opinberri rannsókn í skilningi 2. gr. upplýsingalaga og gögnin því ekki fallið undir gildissvið laganna. Frestur til að áfrýja málinu sé ekki liðinn og komið hafi fram að dómi héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar. Meðferð málsins sé því ekki lokið og sæti það enn saksókn í skilningi laganna.

Að auki hefur umboðsmaður Kópavogsbæjar bent á að meðal gagnanna séu kvartanir til barnaverndarnefndar og athuganir á grundvelli þeirra. Ætla verði að þau varði að þessu leyti mikilvæga einkahagsmuni þeirra, sem hlut eiga að máli, sbr. 5. gr. upp-lýsing-laga. Ennfremur er bent á að 60. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitar-félaga, sbr. 13. gr. laga nr. 34/1997, geri starfsmönnum félagsþjónustunnar skylt að varðveita málsgögn, sem varða persónulega hagi einstaklinga, með tryggilegum hætti þannig að óviðkomandi fái ekki aðgang að þeim. Hafi þeir kynnst einkamálefnum skjólstæðinga í starfi sé þeim óheimilt að ræða þau mál við óviðkomandi aðila nema að fengnu samþykki skjólstæðings eða forráðamanna hans.

Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.

Í niðurlagi 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin gildi ekki um "rannsókn eða saksókn í opinberu máli." Það þýðir að ekki er unnt að krefjast aðgangs að gögnum varðandi slíka rannsókn eða saksókn á grundvelli laganna. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort mál er enn til rannsóknar hjá lögreglu eða henni er lokið. Sama á við um meðferð opinbers máls hjá ríkissaksóknara eða öðrum handhöfum ákæru-valds, að rannsókn lokinni. Ekki skiptir máli hvort mál er þar enn til meðferðar, það hefur verið fellt niður, þ. á m. með niðurfellingu saksóknar, eða ákæra í því hefur verið gefin út. Um leið og opinbert mál hefur verið þingfest fyrir héraðsdómi, er ekki unnt að krefjast aðgangs að gögnum þess máls á grundvelli upplýsingalaga, vegna þess að dóm-stólar og starfsemi þeirra fellur utan gildissviðs laganna, sbr. gagnályktun frá 1. mgr. 1. gr. þeirra.

Ekki er tekið fram í upplýsingalögum eða lögskýringargögnum með þeim hvers konar gögn það eru sem varða rannsókn eða saksókn í opinberu máli í skilningi hins tilvitnaða laga-ákvæðis. Eins og tekið er fram í úrskurðum úrskurðarnefndar 10. ágúst 2001 í málum nr. A-123/2001, A-124/2001 og A-125/2001, er ljóst að til þeirra teljast skjöl og önnur gögn sem eru eða munu að öllum líkindum koma til skoðunar við rann-sókn lögreglu á ætluðum refsiverðum brotum. Sama gildir um meðferð handhafa ákæruvalds á opin-beru máli, að rannsókn lokinni. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu áskilur nefndin sér rétt til þess að meta það, í ljósi atvika hverju sinni, hvort aðgangur skuli veittur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga, þótt þau kunni að tengjast eða hafa tengst rannsókn eða saksókn í opinberu máli, sbr. úrskurð hennar í máli nr. A-127/2001 sem upp var kveðinn 6. september 2001.

Í ákæru á hendur þeim [B] og [C] í fyrrgreindu sakamáli er vísað til daggæsluleyfa félagsmálaráðs Kópavogsbæjar frá 1. maí 2000 og 15. janúar 2001, svo og til sérstaks leyfis félagsmálayfirvalda í Kópavogi. Í héraðs-dómi, þar sem ákærðu voru bæði sakfelld, er vitnað til fyrrgreindra leyfa, svo og til daggæslu-leyfa félagsmálayfirvalda til þeirra [B] og [C] frá fyrri tíma. Af þeim sökum og með skírskotun til þess, sem að framan greinir, er það álit úrskurðar-nefndar að aðgangur að gögnum, sem varða leyfi til þeirra tveggja til dag-gæslu barna, falli ekki undir upplýsingalög, sbr. niðurlag 1. mgr. 2. gr. þeirra og gagn-ályktun frá 1. mgr. 1. gr. laganna og. Sama á við um eftirgreind bréf sem fylgdu umsögn umboðsmanns Kópavogsbæjar:
1. Beiðni félagsmálastjóra Kópavogsbæjar um opinbera rannsókn á þeim sakargiftum sem hér um ræðir og fram kemur í bréfi hans til lögreglunnar í Kópavogi, dagsettu 10. október 2001.
2. Beiðni yfirmanns fjölskyldudeildar Félags--þjónustu bæjarins, dagsettri 25. maí 2001, um lögreglurannsókn vegna handleggsbrots átta mánaða barns, sem mun á þeim tíma, þegar það slys varð, hafa verið í dagvist hjá þeim [B] og [C].

Á hinn bóginn lítur úrskurðarnefnd svo á að gögn, sem varða sviptingu á leyfi þeirra [B] og [C] til daggæslu barna, tengist ekki rannsókn eða saksókn í ofangreindu sakamáli með þeim hætti að aðgangur að þeim falli utan gildissviðs upp-lýsingalaga.

2.

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: "Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. - 6. gr." Í 5. gr. laganna er að finna svohljóðandi ákvæði: "Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða við-skiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila."

Meðal þeirra gagna, sem beiðni kæranda tekur til, er bréf daggæslufulltrúa í Kópa-vogi, dagsett 7. mars 2001, þess efnis að þau [B] og [C] hafi tilkynnt sem dagforeldrar um að barn í þeirra umsjá hafi sætt vanrækslu af hálfu móður þess. Sömuleiðis athugasemdir af hálfu daggæslufulltrúa, dagsettar 26. mars 2001, vegna kvörtunar þessarar sömu móður um aðbúnað barna í daggæslu þeirra [B] og [C]. Með vísun til 5. gr. upplýsingalaga, 15. gr. barna-verndarlaga nr. 58/1992, sbr. 1. mgr. 12. gr. og 2. mgr. 13. gr. laganna, og 60. gr. laga nr. 40/1991 er það niðurstaða úrskurðarnefndar að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að þessum gögnum, fyrst og fremst vegna hagsmuna barnsins og móðurinnar sem í hlut eiga. Í ljósi málavaxta verður ekki talið að brotið sé gegn hagsmunum þeirra [B] og [C] þótt upplýst sé í úrskurði þessum að þau hafi tilkynnt um að umrætt barn hafi sætt vanrækslu af hálfu móðurinnar.

Úrskurðarnefnd hefur kynnt sér efni þeirra bréfa sem starfsmenn félagsmálasviðs Kópavogsbæjar sendu þeim [B] og [C] á tímabilinu 1. júní til 15. október 2001 og varða m.a. sviptingu leyfis þeirra til daggæslu barna. Jafnframt efni bréfs yfirmanns fjölskyldudeildar Félagsþjónustu Kópavogsbæjar til Barnarverndar-stofu, dagsetts 25. maí 2001, í tilefni af slysi því sem áður er gerð grein fyrir. Með skírskotun til upplýsingaréttar almennings, sem fyrir er mælt í 1. mgr. 3. gr. upp-lýsingalaga, er það álit nefndarinnar að ekki séu efni til þess að synja kæranda um aðgang að þessum gögnum á grundvelli 5. gr. laganna. Með tilliti til barnsins, sem slasaðist, og aðstandenda þess ber þó að má nafn þess og kennitölu úr bréfinu frá 25. maí 2001, sbr. 7. gr. upplýsingalaga.




Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun félagsmálastjóra Kópavogsbæjar um að synja kæranda, [A], f.h. Fréttablaðsins, um aðgang að bréfi daggæslufulltrúa bæjarins, dag-settu 7. mars 2001, og athugasemdum hans, dagsettum 26. mars 2001.

Veita ber kæranda aðgang að bréfum sem starfsmenn félagsmálasviðs Kópavogsbæjar sendu þeim [B] og [C] á tímabilinu 1. júní til 15. október 2001. Sömuleiðis að bréfi yfirmanns fjölskyldudeildar Félagsþjónustu bæjar-ins til Barnarverndar-stofu, dagsettu 25. maí 2001, að frátöldu nafni og kennitölu barns-ins sem þar er vísað til.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefnd.




Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta