A-146/2002 Úrskurður frá 4. apríl 2002
ÚRSKURÐUR
Hinn 4. apríl 2002 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-146/2002:
Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 5. mars sl., kærði [A], til heimilis að [...] í [...], synjun Flugmálastjórnar, dagsetta 5. september 2001, um að veita honum upplýsingar um flugferil þyrlunnar [B] yfir [...] [dags.], eins og nánar greindi í beiðni hans til stofnunarinnar.
Með bréfi, dagsettu 7. mars sl., var kæran kynnt Flugmálastjórn og stofnuninni veittur frestur til að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni til kl. 16.00 hinn 18. mars sl. Jafnframt var þess óskað að úrskurðar-nefnd yrðu látin í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran laut að, innan sama frests. Umsögn Flugmálastjórnar, dagsett 18. mars sl., barst innan tilskilins frests.
Málsatvik
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi, dagsettu 1. ágúst 2001, fór kærandi fram á að fá "tilsent rétt staðfest afrit/myndrit af radarmynd þar sem á er flugferill þyrlunnar [B], þar sem þyrlan er yfir landi á [...] að loknu gæsluflugi yfir Faxaflóa, merkt með línu eða línum inn á landakort af svæðinu, þar til þyrlan nauðlendir á túni alvarlega skemmd og óflughæf eftir að eitt eða fleiri blöð þyrlunnar skullu í stélfleti hennar, vegna ókyrrðar í lofti á flugferli þeim sem þyrlan flaug yfir land á þessu svæði." Flugmálastjórn synjaði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 5. september 2001, með vísun til 43. gr. laga nr. 107/1999 um fjarskipti og 5. gr. reglugerðar nr. 83/1986 um leynd og vernd fjarskipta. Með bréfi, dagsettu 8. september 2001, skaut kærandi synjun Flugmálastjórnar til samgönguráðuneytisins og síðar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, eins og gerð er grein fyrir í kaflanum um kæruefni hér að framan.
Í kærunni til samgönguráðuneytisins, sem fylgdi kærunni til úrskurðarnefndar, segir kærandi m.a. orðrétt: "Í erindi mínu til Flugmálastjórnar krafðist ég þess . . . að það stjórnsýslustig tæki fram skriffæri og teiknaði inn á landabréf af [...] flugferil þyrlunnar [B], sem aðdraganda að flugóhappi svo ég gæti virt fyrir mér flug-öryggis-þátt málsins. Það var þetta sama stjórnsýslustig sem átti að skoða skeyti, starfræksluskjöl, fjarskiptasamtöl, hljóðritun þeirra og afritun þeirra. Það var þeirra hjá Flugmálastjórn að vinna alla þá vinnu sem þetta mál snýst um. Þar kæmi undir-ritaður ekki nærri neinum upplýsingum eins og gefið er í skyn. Þessi tilvitnun í reglu-gerð er því óviðkomandi aðalatriði þessa máls um að fá flugferil þyrlunnar [B] teiknaðan inn á landabréf frá Landmælingum Íslands um flug þyrlunnar yfir [B] [dags.]."
Í umsögn Flugmálastjórnar til úrskurðarnefndar er synjun stofnunarinnar á grundvelli þagnarskylduákvæða framangreindra laga og reglugerðar áréttuð, enda teljist þau vera sérákvæði um þagnarskyldu, sem gangi framar upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1996. Í umsögninni er ennfremur tekið fram að stofnunin sjái sér ekki fært að verða við beiðni nefndarinnar um að láta henni í té afrit af þeim gögnum, sem kæran lúti að, vegna forms þeirra og aðgengis að þeim. Segir síðan orðrétt um það atriði: "Format ratsjárgagna er á svonefndu bitaformi sem talnaröð talnanna 1 og 0. Gögnin eru varðveitt sem skrá og eru ólæsileg nema þau séu forunnin sérstaklega með hugbúnaði í eigu stofnunarinnar. Sérstakan hugbúnað þarf til að umvinna gögnin svo lesa megi þau í textaskrá eða myndrænt. Hvað varðar myndræna vinnslu skránna þá væru þau aðgengilegust á svonefndu gif formati sem mynd þar sem ratsjármynd er sýnd á tilteknu tímamarki. Til að átta sig á flugferli þyrfti því að vinna fjölmargar slíkar myndir í tímaröð með nokkurra sekúndna millibili. Með sama hætti þyrfti að umvinna textaskrár í læsilegan texta. Þessi gögn liggja ekki fyrir í svo aðgengilegu formi heldur á spólu sem einungis verður spiluð upp í tölvukerfi stofnunarinnar studd hugbúnaði sem getur lesið gögnin. Vinnsla gagnanna yfir á læsilegt form er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt verk."
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunni annars vegar og hinni kærðu ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða
1.
Eins og gerð er grein fyrir í kaflanum um kæruefni hér að framan, var mál þetta fyrst kært til úrskurðarnefndar með bréfi kæranda, dagsettu 5. mars sl., þótt Flugmálastjórn hefði synjað beiði hans með bréfi, dagsettu 5. september 2001. Samkvæmt því var sá 30 daga kærufrestur, sem tiltekinn er í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga, löngu liðinn þegar mál þetta var borið undir nefndina.
Í 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga segir að vísa skuli kæru frá, sem borist hefur að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr. Ekki verður séð að Flugmálastjórn hafi veitt kæranda leiðbeiningar um kæruheimild eða kæru-frest sem stofnuninni var þó skylt að gera skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórn-sýslulaga. Þá skaut kærandi synjun Flugmálastjórnar þegar í stað til samgöngu-ráðu-neytisins, án þess að séð verði að ráðuneytið hafi afgreitt kæruna eða framsent hana á réttan stað, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Að þessu virtu telur úrskurðarnefnd ekki rétt að vísa kærunni frá þótt hún hafi borist of seint, enda er sá frestur, sem greindur er í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, enn ekki liðinn.
2.
Samkvæmt 3. gr. upplýsingalaga er stjórnvöldum skylt, með þeim undantekningum sem fram koma í 4. - 6. gr. laganna, að veita almenningi aðgang að skjölum og öðrum gögnum í vörslum sínum. Stjórnvöldum ber hins vegar ekki skylda til þess samkvæmt lögunum að láta í té upplýsingar með öðrum hætti, t.d. með því að útbúa ný gögn, sem ekki eru fyrirliggjandi, þegar óskað er eftir aðgangi að upplýsingum.
Eins og kærandi tekur fram í kæru sinni til samgönguráðuneytisins, sem vitnað er til í kaflanum um málsatvik, beinist beiðni hans ekki að því að fá aðgang að tilteknum gögnum, sem fyrir hendi eru hjá Flugmálastjórn, heldur fer hann fram á að stofnunin útbúi og láti honum í té upplýsingar um flugferil þyrlunnar [B] í umrætt skipti sem unnar verði á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með skírskotun til þess, sem að framan greinir, er stofnuninni ekki skylt að verða við slíkri beiðni á grundvelli upp-lýsingalaga. Ber þar af leiðandi að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Flugmálastjórnar að synja kæranda, [A], um upplýsingar um flugferil þyrlunnar [B] yfir [...] [dags.] samkvæmt beiðni hans þess efnis, dagsettri 1. ágúst 2001.
Eiríkur Tómasson, formaður
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson
Elín Hirst
Valtýr Sigurðsson