Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 503/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 503/2019

Miðvikudaginn 19. febrúar 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 28. nóvember 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. júlí 2019, um synjun á umsókn hennar um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. júlí 2019, var kæranda tilkynnt um synjun á umsókn hennar um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. nóvember 2019. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. desember 2019, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Gögn bárust frá kæranda 19. desember 2019.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að synjun Fæðingarorlofssjóðs verði tekin til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn. Kærandi telji að synjun Fæðingarorlofssjóðs sé röng, óásættanleg og þvert á álit lækna frá 10. apríl til 27. maí [2019]. Samkvæmt framlögðum læknisvottorðum hafi læknir talið kæranda vera með líkamleg einkenni sem hefðu aukist mikið við álag, svo sem að vinna við þá vinnu sem hún hafi unnið. Kærandi hafi fengið í það minnsta þrjú læknisvottorð en þeim hafi öllum verið hafnað af Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt framlögðum læknisvottorðum hefði kærandi átt rétt á að hefja orlof sitt í það minnsta mánuði fyrir settan dag og allt að tveimur mánuðum fyrr, líkt og hún hafi farið fram á, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000. Læknisvottorðin hafi verið gefin út af íslenskum læknum en ef þau hefðu verið rangt gefin út í byrjun ætti viðkomandi læknir að vera ábyrgur, að mati kæranda. Sjúklingur eigi að treysta á fagmennsku og þekkingu síns læknis. Kærandi sé skattgreiðandi á Íslandi og eigi að njóta sömu réttinda og aðrir sem hér búi.

Kærandi tekur fram að það sé firra að hún hafi ekki verið með líkamleg einkenni. Samkvæmt ljósmóður og öðrum sérfræðingum sem hafi séð gögnin, sé enginn vafi á að um áhættumeðgöngu hafi verið að ræða. Það lýsi sér meðal annars í því að hún hafi farið af stað tveimur vikum fyrir settan dag og kærandi telji það eingöngu vera vegna andlegs og líkamlegs álags. Fóstrið hafi verið sitjandi við fæðingu og þá hafi það verið augljóst við fæðingu að fylgjan hafi ekki verið eins og hún átti að vera, henni hafi blætt innan frá og því hafi fóstrið ekki nærst almennilega. Þetta sýni bersýnilega að kærandi hafi verið í mjög slæmu líkamlegu ástandi, hana hafi verkjað við álag og því verið með öllu óvinnufær, líkt og hún hafi talið læknisvottorðin segja til um. Þetta hafi haft þau áhrif að barn hennar hafi vegið aðeins 2.400 grömm við fæðingu og hún hafi þurft að fara í keisaraskurð á síðustu stundu. Kærandi telji með öllu óviðunandi að Fæðingarorlofssjóður gangi þvert á álit sérfræðilækna og synji henni um það sem hún eigi rétt á. Kærandi óski því eftir að úrskurðarnefndin taki mál hennar til endurskoðunar og veiti henni lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði líkt og hún telji sig eiga rétt á. Þá óski kærandi eftir því að útrunninn kærufrestur verði virtur að vettugi, enda hafi hún beðið lengi, annars vegar eftir fæðingarvottorði og hins vegar svörum frá Fæðingarorlofssjóði sem hafi borist seint og illa.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs frá 1. júlí 2019 um synjun á umsókn kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda móður á meðgöngu.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt fyrir um í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. júlí 2019, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 28. nóvember 2019. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi beðið lengi, annars vegar eftir fæðingarvottorði og hins vegar svörum frá Fæðingarorlofssjóði sem hafi borist seint og illa.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eru þær ástæður sem kærandi hefur lagt fram vegna kærufrestsins ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta