Forsætisráðherra og utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í Washington
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sækja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem hefst í Washington D.C. á morgun og stendur fram á fimmtudag. Þar verður þess minnst að 75 ár eru liðin frá stofnun bandalagsins.
Sem fyrr verða málefni Úkraínu í brennidepli og lögð áhersla á að árétta samstöðu meðal bandalagsríkja um áframhaldandi og öflugan stuðning við varnarbaráttu landsins. Volodómír Selenskí Úkraínuforseta hefur verið boðið á fundinn.
Þá verður farið yfir framkvæmd ákvarðana síðustu leiðtogafunda um aðlögun og styrkingu á fælingar- og varnarstöðu bandalagsins, og áhersla lögð á framlög bandalagsríkja til varnarmála. Einnig taka leiðtogar samstarfsríkja bandalagsins í Asíu og Kyrrahafi (Ástralía, Japan, Nýja-Sjáland og Suður-Kórea) þátt í einni fundarlotu ásamt Evrópusambandinu.
Leiðtogafundurinn í Washington verður sá fyrsti sem Svíþjóð tekur þátt í sem fullgilt bandalagsríki. Fundurinn er jafnframt síðasti leiðtogafundur Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins en eins og kunnugt er tekur Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, við keflinu 1. október næstkomandi.