Breska heilbrigðisþjónustan NHS tekur upp PEPPOL
Breska heilbrigðisþjónustan (NHS) hefur tilkynnt að hún muni nota samevrópska viðskiptanetið PEPPOL í rafrænum innkaupum. NHS er ekki smátt í sniðum, heildarveltan er um 110 milljarðar punda fjárhagsárið 2014/2015.
Á næsta fjárhagsári hyggst NHS spara um 1,5 milljarða punda með upptöku PEPPOL. Hingað til hefur vantað skýra stefnu, en nú hefur fengist heimild til að nota PEPPOL og GS1 staðla til rafrænna innkaupa.
PEPPOL (Pan-European Public Procurement Online) var frumverkefni (pilot) sem stóð yfir í fjögur ár, stutt af ESB og 18 ríkisstjórnum. Að frumverkefninu loknu voru stofnuð hagnaðarlaus alþjóðasamtök, OpenPeppol, sem tekur við skuldbindingum og rekstri PEPPOL.
Tilskipun ESB um opinber innkaup tók gildi í apríl 2014. Sjá frétt ICEPRO frá 31. mars 2014. Þar er gert ráð fyrir samningsyfirvald eins og NHS geri birgjum sínum kleift að senda þeim reikninga rafrænt, með samevrópskum staðli. NHS kaus PEPPOL til að uppfylla þær kröfur, sem gerðar eru til rafrænna innkaupa.
Sjá nánar frétt PEPPOL frá 7. maí 2014.