Málstofa um rafræna stjórnsýslu fyrir stjórnendur hjá ríki og sveitarfélögum
Forgangsmál er að gera hinum almenna borgara auðveldara með að eiga samskipti við hið opinbera, hvort sem er stofnanir á vegum ríkisins eða sveitafélaga til að bæta þjónustu og auka lýðræðislega þátttöku á hinum ýmsu sviðum, sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra m.a. við setningu málstofu um rafræna stjórnsýslu í dag. Að málstofunni stóðu innanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag forstöðumanna ríkisstofnana.
Fram kom í máli ráðherra að upplýsingatæknin væri meðal öflugustu vopna til að ná hagræðingu í opinberri stjórnsýslu og brýnt væri að stjórnendur gerðu sér grein fyrir mikilvægi hennar og gætu beitt henni af skynsemi. Ráðherra sagðist leggja áherslu á netöryggismál og sneri það ekki síst að eflingu löggæslunnar og endurskoðun á réttarfari og sagði hún þessa umræðu ofarlega á baugi hjá norrænum starfsbræðrum.
Sérfræðingar á ýmsum sviðum rafrænnar stjórnsýslu fjölluðu um efni málstofunnar svo sem um stefnu ríkis og sveitarfélaga um upplýsingasamfélagið, um öryggismál, búnað og þjónustu, samráð á netinu við stefnumörkun og mótun lagafrumvarpa og nokkrir sögðu frá reynslu sinni af opinberri stjórnsýslu í sveitarfélögum og hjá ríkinu. Málstofan er undanfari námskeiða sem haldin verða á þessu og næsta ári í kjölfar könnunar sem gerð var í lok árs 2013 þar sem fram kom mikill áhugi forstöðumanna og forsvarsmanna sveitarfélaga fyrir málstofu sem þessari.
Markmið málstofunnar voru að auðvelda stjórnendum að forgangsraða verkefnum í upplýsingatækni, stuðla að aukinni samvinnu stofnana og sveitarfélaga um rafræna stjórnsýslu, auðvelda stjórnendum að greina hvað hægt er að gera strax til að ná betri árangri í rafrænni stjórnsýslu og styðja stjórnendur í að ná meiri árangri í framþróun í rafrænni stjórnsýslu og upplýsingatækni.