Hoppa yfir valmynd
27. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Síðustu fundarlotu Íslands í mannréttindaráðinu lokið

Mannréttindaráð SÞ í Genf - myndUN Photo/Violaine Martin

42. fundarlotu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf lauk í dag en þetta var fjórða lotan sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki ráðsins og jafnframt sú síðasta. Setu Íslands í mannréttindaráðinu lýkur í árslok en fram að því mun Ísland taka þátt í öðrum störfum ráðsins, m.a. allsherjarúttekt mannréttindamála í einstökum ríkjum sem fram fer í nóvember. 

Mannréttindaráðið afgreiddi 38 ályktanir í dag og í gær. Þar ber einna hæst ályktanir um mannréttindaástandið í Jemen og í Sýrlandi sem og um réttindi Róhingja og annarra minnihlutahópa í Myanmar. Mannréttindaástandið í Venesúela var í brennidepli í þessari fundarlotu og samþykkti ráðið tvær ályktanir þar að lútandi. Samkvæmt ályktun sem Ísland lagði fram, í samstarfi við Finnland, Suður-Afríku og Namibíu, var samþykkt að ráðið taki réttinn til almannatrygginga í breyttum heimi til umfjöllunar á næsta ári. 

Sérstaka athygli vakti svo sameiginlegt ávarp um það bil þrjátíu ríkja um mannréttindaástandið í Sádi-Arabíu sem fastafulltrúi Ástralíu flutti sl. mánudag. Það var í annað skipti á árinu sem Sádi-Arabía kom til umfjöllunar í sameiginlegri yfirlýsingu fjölda ríkja á árinu, en fyrri yfirlýsinguna flutti Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, í mars svo heimsathygli vakti.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ritaði grein í Fréttablaðið í gær, fimmtudag, og gerði þar upp árangur af starfi Íslands í mannréttindaráðinu undanfarna átján mánuði en kjör Íslands í ráðið 13. júlí 2018 bar að með skömmum fyrirvara, eins og alkunna er.

„Ísland og fulltrúar þess hafa með störfum sínum í ráðinu sýnt rækilega fram á að smáríki geta látið til sín taka í þágu mannréttinda hafi þau algild mannréttindi í forgrunni og sýni frumkvæði,“ sagði Guðlaugur Þór í grein sinni í Fréttablaðinu í gær. „Við höfum komið víða við og látið til okkar taka en þó ætíð út frá skýrt afmarkaðri áætlun um að standa við þau fyrirheit sem við gáfum í upphafi. Við eigum eftir að gera betur upp setuna í mannréttindaráðinu en vilji minn stendur til þess að á næstu mánuðum fari fram upplýst umræða um framgöngu okkar og árangur, um mannréttindaráðið sem stofnun, og auðvitað um mannréttindi almennt. Með því getum við skerpt enn stefnu okkar í þessum efnum og byggt á henni til framtíðar.“

Fulltrúar Íslands fluttu alls ellefu ávörp í umræðum í mannréttindaráðinu í þessari 42. fundarlotu. Þar fyrir utan átti Ísland aðild að fimm norrænum ræðum, fjórum ræðum sem fluttar voru í nafni NB8-ríkjahópsins (Norðurlanda og Eystrasaltsríkja) auk fyrrnefndrar yfirlýsingar sem Ástralía flutti um málefni Sádi-Arabíu. Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands, stýrði einnig sjö fundum ráðsins í þessari lotu en hann er einn varaforseta ráðsins.

Allar ræður Íslands verða aðgengilegar á vef Stjórnarráðsins. Mannréttindaráðið birtir yfirlit um niðurstöðu atkvæðagreiðslna á vefsíðu sinni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta