Hoppa yfir valmynd
27. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 346/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 346/2021

Miðvikudaginn 27. október 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 6. júlí 2021, kærði -A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. maí 2021 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri með rafrænni umsókn 16. apríl 2021. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. maí 2021, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teldist ekki nægjanlega ítarleg í ljósi vanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfing kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk starfsendurhæfing vart vera í gangi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. júlí 2021. Með bréfi, dags. 8. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. júlí 2021, óskaði Tryggingastofnun eftir því að málinu yrði vísað frá. Með bréfi, dags. 12. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til frávísunarkröfunnar. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði kærandi eftir því að úrskurðarnefndin úrskurðaði í málinu. Með bréfi, dags. 16. júlí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun. Með bréfi, dags. 5. ágúst 2021, barst greinargerð frá stofnuninni og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. ágúst 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 11. ágúst 2021, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að þann 12. maí 2021 hafi borist inn á „Mínar síður“ á vef Tryggingastofnunar ríkisins synjun á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri. Umsóknin hafði þá staðið föst í kerfinu í meira en mánuð og það hafi ekki breyst ekki fyrr en kærandi hafi óskað skýringa á því. Þá hafi verið ákveðið að hafna umsókn kæranda.

Tryggingastofnun hafi byggt synjunina á því að endurhæfingaráætlunin væri „ekki nógu ítarleg í ljósi vanda umsækjanda og óljóst hvernig endurhæfingin komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað enda virðist virk starfsendurhæfing vart vera í gangi“.

Í bréfi sem sent hafi verið Tryggingastofnun í ábyrgðarpósti 21. maí 2021 hafi kærandi óskað eftir ítarlegum rökstuðningi til að hafa betri forsendur til að kæra synjunina til úrskurðarnefndar velferðarmála. Við framlagningu kæru hafði rökstuðningur ekki enn borist.

Á síðasta ári hafi kærandi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í fimm mánuði byggðan á sambærilegri endurhæfingaráætlun, sem hafi þó ekki verið eins „ítarleg“ og sú sem hún hafi nú lagt fram.

Eftir að því greiðslutímabili hafi lokið hafi kærandi sent inn nýja umsókn. Nokkrum mánuðum eftir að kærandi hafi sent þá umsókn hafi henni verið lokað án afgreiðslu á þeim grundvelli að hún hefði ekki skilað inn öllum gögnum sem óskað hafi verið eftir. Kæranda hafi þó aldrei verið gert viðvart um að gögn hafi vantað. Þetta hafi verið áfall og vegna veikinda kæranda hafi henni ekki tekist að senda inn nýja umsókn fyrr en á árinu 2021.

Kærandi hafi engan áhuga á að vera föst í veikindum það sem eftir sé og þrái ekkert heitar en að geta verið fullur þátttakandi í samfélaginu, bæði í starfi og félagslega. Frá árinu 2020 hafi hún verið upp á fjárstuðning aðstandenda sinna komin og það hafi verið sárt að þurfa að þiggja slíka aðstoð og það hjálpi ekki til við að ná bata.

Frá barnsaldri hafi kærandi verið haldin kvíða sem hafi hamlað henni mjög mikið. Þegar kærandi hafi verið X ára hafi hún misst [...] og við það áfall hafi kvíðinn aukist til mikilla muna. Þegar kærandi hafi verið X ára hafi hún verið orðin mjög illa haldin af kvíða og honum hafi fylgt mikil og langvarandi hugrof sem hafi farið versnandi næstu ár. Kæranda hafi þó tekist með miklum erfiðleikum að ljúka stúdentsprófi X árs gömul. Á þessum tíma hafi kærandi gengið til ýmissa sálfræðinga og reynt EMDR-meðferð, án þess að fá nokkra bót meina sinna og ástand hennar hafi versnað stöðugt.

Kærandi hafi beðið í meira en tvö ár eftir að komast að hjá geðlækni og hafi verið orðin X ára þegar það hafi loksins tekist. Þá hafi hún verið orðin algjörlega óvinnufær. Kærandi hafi mætt reglulega til geðlæknisins í tvö ár. Hann hefur stutt kæranda í að byggja sig upp og stýri endurhæfingarferli hennar.

Það hafi tekið kæranda tvö ár undir handleiðslu geðlæknisins að komast á þann stað að geta verið í endurhæfingu. Fyrsti liðurinn í því hafi verið að skrá sig í nám í [...] í janúar X. Á hverri önn skrái kærandi sig í þrjá til fimm áfanga en frá upphafi hafi verið ljóst að hún geti ekki með góðu móti lokið nema tveimur áföngum á hverri önn. Í þeim efnum njóti kærandi fulls skilnings og stuðnings námsráðgjafa í D þar sem hún sé við nám. Kærandi stefni þó á að auka úthaldið í námi og vonist til að geta á næstunni lokið þremur til fjórum áföngum á önn.

Næsta skref í endurhæfingu kæranda hafi verið að byrja að taka þátt í starfi B. Þar hafi hún byrjað að mæta í janúar 2020. Nokkrum vikum síðar hafi skollið á heimsfaraldur. Þá hafi öllu verið skellt í lás og þau send heim til að taka þátt í fjarfundum. Kærandi hafi reynt eftir fremsta megni að taka þátt í þeim en það hafi ekki gengið vel, enda hafi orðið mikið bakslag í bata hennar við þetta. Frá því í byrjun árs 2021 hafi kærandi þó mætt eftir fremsta megni á fjarfundi þar og geti nú aftur farið að mæta á staðinn eftir að samkomutakmörkunum hafi verið aflétt.

Þriðji vendipunkturinn í endurhæfingu kæranda hafi verið þegar hún hafi náð nægum bata til að byrja hópmeðferð undir handleiðslu geðlæknis síns. Þar mæti kærandi nú vikulega í einn og hálfan tíma í senn. Það sé því ekki hægt að segja annað en að þótt bati kæranda sé hægur sé hann stöðugur og að hún stefni í rétta átt.

Geðlæknirinn, sem kærandi gangi til, haldi utan um endurhæfingaráætlun hennar og miði hana við ástand hennar og getu út frá sérfræðiþekkingu sinni. Með umsókninni sem sé synjað hafi kærandi skilað læknisvottorði þar sem veikindi hennar séu skýrð. Kærandi hafi skilað inn staðfestingu á skólavist og námsframvindu og hafi staðið við það sem endurhæfingaráætlunin geri ráð fyrir í námi. Kærandi hafi skilað inn staðfestingu á mætingu í B frá áramótum 2020 og 2021 en hún hafi verið virk í B í um það bil eitt ár. Heimsfaraldurinn sem nú geisi hafi ekki gert endurhæfingarvinnu auðveldari þegar öllu sé ítrekað skellt í lás.

Auk þessara gagna hafi kærandi skilað inn staðfestingu á að hún væri á biðlista hjá þunglyndis- og kvíðateymi Landspítala. Eins og gefi að skilja njóti kærandi ekki endurhæfingar þar á meðan hún bíði eftir að komast að en hún sé sannarlega á áætlun. Ekki sé útlit fyrir að kærandi komist að þar fyrr en í fyrsta lagi haustið 2021 miðað við þær upplýsingar sem hún hafi aflað hjá ritara deildarinnar.

Frá því að kærandi hafi sent inn umsóknina, sem nú hafi verið synjað, hafi hún auk þess hafið vikulega hópmeðferð hjá geðlækni sínum, eins og fram hafi komið, og hann geti staðfest að það verði farið fram á slíkt.

Kærandi sé miður sín yfir því að umsókninni skuli vera hafnað. Hún sé í virkri endurhæfingu þótt öðru sé haldið fram í synjunarbréfinu. Það ætti öllum að vera ljóst að það sé erfitt, jafnvel nær ómögulegt, að hafa enga framfærslu og vita ekki hvernig eigi að borga fyrir næstu máltíð öðruvísi en að vera upp á náðir aðstandenda sinna komin en geta ekki séð sér farborða vegna veikinda. Þannig hafi staðan verið hjá kæranda frá því að lífeyristímabil hennar hafi runnið út á síðasta ári og umsókn hennar frá því í október 2020 hafi verið felld niður.

Í afstöðu kæranda frá 12. júlí 2021 til frávísunarkröfu Tryggingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi beðið um þrenns konar gögn til þess að hægt sé að afgreiða umsókn kæranda eftir að hún hafi verið tekin upp aftur. Það eina sem hafi breyst frá því að umsókninni hafi verið synjað sé að kærandi hafi hafið vikulega hópmeðferð hjá geðlækni sínum,  C. Það sé sjálfsagt mál og eðlilegt að biðja hann um að senda staðfestingu á því. Kærandi hafi ekki verið byrjuð í þessari hópmeðferð á þeim tíma sem umsókn hennar hafi setið föst í kerfinu hjá Tryggingastofnun, eins og fram hafi komið í kæru hennar, og kærandi vilji gjarnan fá rökstuðning Tryggingastofnunar fyrir synjun á umsókn sinni, eins og hún hafi beðið um. Þann rökstuðning hafi kærandi ekki fengið. Auk þess bendi kærandi á að Tryggingastofnun hafi veitt henni endurhæfingarlífeyri á árinu 2020 eftir að hún hafi sent inn sambærilega endurhæfingaráætlun og hún hafi gert í síðustu umsókn. Þar sem kærandi hafi ekki fengið rökstuðning frá Tryggingastofnun viti hún ekki hvaða forsendur hafi breyst sem geri það að verkum að stofnunin synji umsókn kæranda og skilji því ekki hvers vegna hún þurfi að senda inn frekari gögn þegar eðlilegra hefði verið að framlengja lífeyristímabilið sem hún hafi fengið úthlutað á árinu 2020. Í stað rökstuðnings hafi kærandi fengið tilkynningu um að stofnunin byðist til að taka mál hennar upp aftur ef hún sendi umtalsvert meiri gögn. Kærandi óski því eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála felli ekki niður kæru hennar heldur úrskurði hvort henni beri að fá endurhæfingarlífeyri eða ekki, byggt á umsókn hennar, að viðbættri staðfestingu frá geðlækni hennar um að hún hafi byrjað hópmeðferð undir hans handleiðslu.

Í athugasemdum kæranda frá 11. ágúst 2021 segir að kærandi geti í fyrsta lagi hvergi séð að Tryggingastofnun setji það skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris að félagasamtök standi að endurhæfingu. Það komi ekki fram á upplýsingasíðu Tryggingastofnunar um endurhæfingarlífeyri.

Þá þyki kæranda skjóta skökku við að Tryggingastofnun leggi svo mikla áherslu á að endurhæfingin sé á vegum B, það hafi hún aldrei verið. Geðlæknir kæranda haldi utan um endurhæfingu hennar eins og fram hafi komið. Hann hafi frá upphafi lagt áherslu á að mæting í B sé einn af liðunum í endurhæfingu kæranda en ekki nauðsynlega sá liður sem beri hitann og þungann af henni. Í öllum umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri hafi komið fram að geðlæknir hennar haldi utan um endurhæfingaráætlun hennar.

Í staðfestingu frá B sé einungis skráð mæting frá áramótum 2020 og 2021 til 1. apríl 2021.  Kærandi viti ekki hvers vegna B hafi ekki sent staðfestingu á mætingu frá því að hún hafi skráð sig í félagið. Tryggingastofnun taki ekki tillit til þess að í mars 2020 hafi skollið á heimsfaraldur kórónuveiru á Íslandi með stífum samkomutakmörkunum. Þá hafi húsnæði B verið lokað og teknir upp fjarfundir sem kvíði og hugrof hafi hamlað kæranda mjög að mæta á.

Í öðru lagi hafi geðlæknir kæranda einnig lagt á það áherslu að annar liður í endurhæfingu hennar sé að hún leggi stund á nám. Hann hefur einnig metið það svo að geta kæranda til þess sé mjög takmörkuð og telji að hún geti ekki lokið nema tveimur til þremur áföngum á hverri önn í iðnnámi sem hún legg stund á. Hún hafi hingað til staðið undir þeim kröfum.

Tryggingastofnun virðist ekki meta það nokkurs að hún sé í námi sem miði að því að hún geti orðið virkur þátttakandi í atvinnulífinu og skattgreiðandi. Ekki virðist skipta neinu máli að hún hafi hingað til staðist þau markmið sem hún hafi sett sér í þeim efnum í samráði við geðlækni sinn og í samræmi við þá endurhæfingaráætlun sem hann hafi stillt upp fyrir hana.

Í þriðja lagi hafi kærandi, eins og komi fram í greinargerðinni, verið í reglubundnum viðtölum frá árinu 2019 hjá geðlækni sem haldi utan um endurhæfingaráætlun hennar. Þegar kærandi hafi byrjað að mæta í viðtöl hjá honum hafi ástand hennar verið mjög bágborið. Hún hafi ekki getað mætt ein í tíma til hans og hafi yfirleitt ekki komið upp orði vegna kvíða í tímunum. Þá hafi kærandi nánast verið í samfelldu hugrofi og með geðrofseinkenni. Með hjálp geðlæknisins hafi kæranda tekist að komast á þann stað að geta byrjað að mæta hjá B, þótt bakslag kæmi í það þegar faraldurinn hafi byrjað. Með hjálp hans og vandlega útfærðri lyfjagjöf sem hafi tekið langan tíma að stilla af, sé hún nú farin að eiga daga án þess að fara í hugrof og hafi auk þess getað hafið hópmeðferð hjá geðlækninum, í vikulegum tímum undir hans stjórn. Hún hafi byrjað að sækja hóptímana eftir að hún hafi sótt síðast um endurhæfingarlífeyri eins og fram komi í kæru hennar til úrskurðarnefndarinnar sem Tryggingastofnun hafi tekið afstöðu til og því ætti það ekki að koma á óvart. Það hafi tekið kæranda tæp tvö ár að komast á þennan stað með aðstoð geðlæknisins og því þyki henni undarlegt að sjá þau rök Tryggingastofnunar að viðtöl við geðlækni dugi ekki til endurhæfingar. Án viðtala í tæp tvö ár hefði hún ekki náð þeim mikla árangri sem hún hafi nú áorkað þótt hún eigi vissulega enn langt í land að fullum bata.

Í fjórða lagi virðist það hafa áhrif á niðurstöðu Tryggingastofnunar að kærandi sé ekki byrjuð að mæta hjá þunglyndis- og kvíðateymi Landspítala þótt það komi skýrt fram, meðal annars í staðfestingu frá teyminu, að hún sé enn á biðlista þar. Það finnist kæranda ámælisvert.

Í fimmta lagi sé talið að Tryggingastofnun þurfi að hafa skýrara verklag á eftirlitshlutverki sínu með endurhæfingu. Erfitt sé að finna og nálgast upplýsingar um hvaða gögnum eigi að skila og hvert framhaldið sé þegar úthlutuðu lífeyristímabili lýkur. Það hljóti að teljast óviðunandi stjórnsýsluhættir að manneskja geti dottið út úr endurhæfingarkerfinu hjá stofnuninni þegar úthlutuðu lífeyristímabili ljúki þótt sá mánaðafjöldi sem réttur sé á lífeyrisgreiðslum sé ekki fullnýttur eins og hafi gerst hjá kæranda 31. ágúst 2020. Spurt sé hvort ekki hefði verið eðlilegt að Tryggingastofnun kallaði eftir upplýsingum um framvindu endurhæfingar ef stofnunin sé framkvæmdar- og eftirlitsaðili.

Í sjötta lagi finnist kæranda einkennilegt að Tryggingastofnun virðist vera þeirrar skoðunar að félagasamtök sem leggi áherslu á jafningjastuðning skuli vera æskilegri til að halda utan um endurhæfingu alvarlega veikrar manneskju en sérfræðingur í geðlækningum sem hafi fylgt henni eftir í tvö ár og þekki veikindi hennar betur en nokkur annar. [...]. Vonandi sé manni í þeirri stöðu treystandi til að halda utan um endurhæfingaráætlun sjúklinga sinna.

Í sjöunda lagi sé Tryggingastofnun fullkunnugt um hvers vegna kærandi hafi ekki skilað umbeðnum gögnum til þess að hægt væri að endurskoða synjunina. Ástæðan sé sú að kærandi hafi óskað eftir að úrskurðarnefndin skeri úr um hvort það hefði verið rétt af Tryggingastofnun að synja umsókn hennar. Kærandi hafi boðist til að senda úrskurðarnefndinni viðbótargögn um hóptímana ef þess væri óskað. Ekki hafi komið nein ósk þar um. Kærandi vilji árétta það sem áður hafi komið fram í samskiptum kæranda við Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála að það hljóti öllum að vera ljóst að óvinnufær manneskja sem ekki geti aflað sér tekna eigi erfitt með að sinna endurhæfingu ef hún hafi enga framfærslu. Kæranda finnist einkennilegt að Tryggingastofnun vilji leggja stein í götu hennar með því að synja henni um endurhæfingarlífeyri þegar hún hafi sýnt fram á töluverðan bata á síðastliðnum tveimur árum þótt enn sé langt í land.

Að lokum vilji kærandi benda á að greinargerðin og önnur gögn, sem kærandi hafi fengið frá Tryggingastofnun í þessu máli, séu óundirrituð og aðeins send í nafni stofnunarinnar. Umboðsmaður Alþingis hafi bent á að sú afstaða Tryggingastofnunar að birta almennt ekki nöfn starfsmanna sem standa að baki ákvörðunum stofnunarinnar sé ekki í samræmi við kröfur sem gera verði til forms og framsetningar stjórnvaldsákvarðana, sbr. álit hans í máli nr. 10652/2020. Tryggingastofnun hafi því ekki hlítt áliti umboðsmanns Alþingis í þessu efni þar sem greinargerðin sem hér séu gerðar athugasemdir við sé óundirrituð.

Umboðsmaður hafi í áliti sínu bent á að „það hefði grundvallarþýðingu út frá réttaröryggissjónarmiðum að tilgreina nöfn þeirra starfsmanna sem standa að ákvörðun. Þannig gæfist málsaðila til dæmis færi á að ganga úr skugga um að viðkomandi starfsmenn hefðu verið bærir til að taka slíka ákvörðun, auk þess sem það hefði grundvallarþýðingu til að hann gæti metið hvort aðstæður væru með þeim hætti að efast mætti um hæfi starfsmanns. Ákvæði persónuverndarlaga stæðu því ekki í vegi fyrir því að birta nöfn starfsmanna, eins og stofnunin hefði byggt á.“

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í frávísunarkröfu Tryggingastofnunar segir að við skoðun gagna málsins hafi komið í ljós að kærandi hafi sent inn beiðni um rökstuðning þann 20. maí 2021 sem ekki hafi verið búið að svara. Í þeirri beiðni komi fram upplýsingar sem hafi gefið ástæðu til þess að taka málið upp á nýjan leik.

Kæranda hafi verið sent bréf þar sem óskað sé eftir frekari gögnum og upplýsingum svo að hægt sé að taka málið til efnislegrar meðferðar.

Þar sem málið sé til meðferðar hjá Tryggingastofnun óski stofnunin eftir því að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála að svo stöddu. Telji nefndin ástæðu til þess að taka málið fyrir engu að síður, áskilji stofnunin sér rétt til þess að koma að efnislegri greinargerð.

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé synjun á greiðslu endurhæfingarlífeyris, sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 12. maí 2021.

Tryggingastofnun hafi óskað eftir frávísun málsins þar sem ákveðið hafi verið að rannsaka málið nánar og óska eftir nánari upplýsingum frá kæranda. Engin gögn hafi borist frá kæranda og nú hafi úrskurðarnefndin óskað eftir efnislegri greinargerð vegna málsins.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

Sett hafi verið reglugerð um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og hún sé nr. 661/2020.

Kæranda hafi verið synjað um endurhæfingarlífeyri með ákvörðun, dags. 12. maí 2021, þar sem við skoðun máls hafi ekki þótt rök fyrir að meta endurhæfingartímabil. Fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun hafi ekki talist nógu ítarleg í ljósi vanda kæranda og óljóst þætti hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk starfsendurhæfing vart vera í gangi.

Kærandi hafi áður fengið samþykkt endurhæfingartímabil frá 1. apríl 2020 til 31. ágúst 2020. Staðfesting hafi þá legið fyrir um að kærandi væri þátttakandi í endurhæfingu á vegum B.

Þá hafi endurhæfingaráætlun borist þann 23. október 2020 ásamt umsókn, dags. 17. nóvember 2020. Bréf hafi verið sent til kæranda þann 18. nóvember 2020 og beðið um eftirfarandi:  Staðfestingu og útlistun frá B á endurhæfingu á þeirra vegum og upplýsingar um framvindu og upplýsingar frá skóla um fjölda eininga sem kærandi væri skráður í á haustönn 2020.

Kærandi hafi ekki skilað inn öllum gögnum og hafi umsókn verið vísað frá með bréfi, dags. 15. janúar 2021, þar sem 30 daga frestur sem kærandi hafði til að skila inn gögnum hafi verið liðinn.

Ný umsókn hafi síðan borist þann 16. apríl 2021 ásamt gögnum og hafi umsókn verið tekin fyrir að nýju, og eins og áður segi hafi kæranda verið synjað um endurhæfingarlífeyri með ákvörðun, dags. 12. maí 2021.

Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri þann 12. maí 2021 hafi legið fyrir eftirfarandi gögn:

Umsóknir um endurhæfingarlífeyri, dags. 16. apríl 2021 og 7. maí 2021, endurhæfingaráætlun frá C geðlækni, dags. 17. apríl 2021, læknisvottorð frá  C geðlækni, dags 24. febrúar 2020, staðfesting frá D, dags. 8. apríl 2021, staðfesting frá B, dags. 15. apríl 2021, og staðfesting frá Inntökuteymi göngudeildar geðsviðs, dags. 3. desember 2020.

Með endurhæfingaráætlun frá C geðlækni, dags. 17. apríl 2021, hafi verið sótt um endurhæfingartímabil frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2021. Gert hafi verið ráð fyrir eftirfarandi endurhæfingarþáttum: Reglubundnum vikulegum viðtölum hjá geðlækni, 45 mínútur í senn, og halda áfram hlutanámi í [...] við D, tvö fög á önn. Þá komi fram að kærandi hafði þegar hafið mætingar og endurhæfingu í Bog hafi verið vísað til kvíða- og þunglyndisteymis geðdeildar á E.

Í læknisvottorði frá C geðlækni, dags. 24. febrúar 2020, komi fram að um sé að ræða X ára gamla konu með alvarlega hamlandi geðröskun sem hafi fyrst verið vísað til geðlæknis árið 2014 og hafi komið aftur í reglulega þjónustu í ársbyrjun 2019. Í vottorði komi jafnframt fram að vandi kæranda sé samrýmanlegur vanda á einhverfurófi og að hún hafi einnig á tímabilum haft geðrofseinkenni og heyrnarofskynjanir.

Kæranda hafi verið sent bréf þann 19. apríl 2021 þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu frá kvíða- og þunglyndisteymi geðdeildar Landspítalans á því hvenær meðferð hæfist þar og upplýsingar um tímalengd þjónustu hjá geðdeild. Móttekin hafi verið staðfesting, dags. 3. desember 2020, frá göngudeild geðsviðs Landspítala þann 7. maí 2021 þar sem fram komi að tilvísun hafi verið tekin fyrir og samþykkt þann 3. desember 2020 til inntöku í þunglyndis- og kvíðateymi geðsviðs.  Biðtími þjónustu væri um það bil 6-8 mánuðir.

Þá hafi borist staðfesting frá B, dags. 15. apríl 2021, sem hafi staðfest að kærandi hafi gengið í félagið í upphafi árs 2020 og hafi mætt fjórum sinnum í dagskrá B frá áramótum 2020/2021, nánar tiltekið fjórum sinnum í  mars 2021.

Tryggingastofnun sé framkvæmdaraðili en í því hlutverki felist meðal annars eftirlit með endurhæfingu og yfirumsjón með að endurhæfingaráætlun sé fylgt og að áætlunin sé til þess fallin að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 skal endurhæfingaráætlun ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 661/2020 komi einnig  fram að Tryggingastofnun skuli leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð sé grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þar með talin viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.

Í endurhæfingaráætlun frá geðlækni þar sem sótt hafi verið um endurhæfingartímabil frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2021, hafi verið gert ráð fyrir að kærandi yrði í reglubundnum viðtölum hjá geðlækni og í hlutanámi. Auk þess hafi þess verið getið í áætlun að kærandi væri nú þegar í endurhæfingu á vegum Bog að það væri búið að vísa kæranda til kvíða- og þunglyndisteymis Landspítalans.

Samkvæmt staðfestingu frá B hafi kærandi mætt fjórum sinnum í dagskrá B í mars 2021. Því sé ljóst að kærandi hafi ekki verið í samfelldri starfsendurhæfingu á vegum B og óljóst hvort gert væri ráð fyrir áframhaldandi þátttöku þar og hversu oft. Auk þess hafi legið fyrir staðfesting frá geðsviði Landspítalans þar sem fram komi að kærandi væri á bið eftir þjónustu á Landspítala.

Það sé mat Tryggingastofnunar að reglubundin viðtöl við geðlækni og hlutanám eitt og sér sé  ekki nægilegt til að auka frekari starfshæfni kæranda þegar til lengri tíma sé litið og réttlæti því ekki rétt til endurhæfingarlífeyris.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 661/2020 komi fram að ef sótt sé um framlengingu á greiðslum endurhæfingarlífeyris, sbr. 4. mgr. 4. gr., skuli leggja fram greinargerð um framvindu endurhæfingar á áður samþykktu greiðslutímabili. Tryggingastofnun geti einnig óskað eftir staðfestingu þess að endurhæfing hafi farið fram og öðrum upplýsingum, sem stofnunin telji nauðsynlegar, frá þeim fagaðilum sem hafi komið að endurhæfingu greiðsluþegans.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og þeim gögnum sem óskað hafi verið eftir, hafi hluti endurhæfingarúrræða  ýmist ekki verið í gangi eða óljóst hvort kærandi væri markvisst að sinna þeirri endurhæfingu sem lagt hafi verið upp með á umbeðnu endurhæfingartímabili, sbr. staðfesting frá B og frá geðsviði Landspítalans.

Það sé mat Tryggingastofnunar að ekki sé ljóst hvernig sú endurhæfing, sem lögð hafi verið upp með í endurhæfingaráætlun, muni koma til með að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað og hafi því skilyrði 7. gr. áðurnefndra laga nr. 99/2007 ekki verið talin uppfyllt. Umsókn hafi því verið synjað.

Vakin sé athygli á að við nánari skoðun hafi komið í ljós að kærandi hafi sent inn beiðni um rökstuðning þann 20. maí 2021 sem ekki hafi verið búið að svara og kærandi hafi verið beðin afsökunar á því. Í þeirri beiðni hafi komið fram upplýsingar sem hafi gefið ástæðu til að skoða umsókn kæranda að nýju.

Kæranda hafi því verið sent bréf, dags. 8. júlí 2021, og óskað hafi verið eftir eftirfarandi gögnum í samræmi við framangreinda 8. gr. reglugerðar nr. 661/2020: Staðfestingu frá geðlækni á því hvenær hópmeðferð á vegum geðlæknis hafi byrjað og yfirliti yfir mætingar í hópmeðferð, auk tímalengd meðferðar svo og yfirliti frá geðlækni yfir mætingar í viðtöl til geðlæknis og hversu oft viðtöl séu fyrirhuguð næstu mánuði og útlistun frá B á innihaldi endurhæfingar á þeirra vegum og tímalengd endurhæfingar.

Þar sem engin gögn hafi borist hafi ekki verið hægt að taka umsóknina til endurskoðunar. Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni, dags. 12. maí 2021, um synjun á greiðslu endurhæfingarlífeyris miðað við fyrirliggjandi gögn.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. maí 2021, um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Í 2. mgr. ákvæðisins segir að heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð hefur verið sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingar­áætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingar­innar.“

Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar segir um tímalengd greiðslna:

„Greiðslur skulu ekki ákvarðaðar lengur en til eins árs í senn og aldrei lengur en fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun segir til um. Ef einhverjir þættir í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun þykja óljósir skal greiðslutímabil að jafnaði ákvarðað til styttri tíma.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Fyrir liggur í málinu læknisvottorð C, dags. 24. febrúar 2020, og þar koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„Ótilgreint óvefrænt geðrof

Varanlegar persónubreytingar eftir geðveikindi

Félagsfælni

Almenn kvíðaröskun

Hvarf og dauði fjölskyldumeðlims

Other specified problems related to primary support group“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„Lýsir því til langs tíma að hún upplifi að hún nánast skipti um hugarástand, á hverjum degi. Upplifir þetta bókstaflega sem mismunandi hugarástand sem hefur bæði líkamleg og sálræn áhrif. Upplifir stundum hugræna lömun, eins og henni verði allar bjargir bannaðar, læsist föst og getur þá ekki talað. Það kemur fyrir að umhverfið og fjölskyldumeðlimir verði henni svo framandi að hún þekkir ekki [...] sinn. Þetta ástand getur varað í heilan dag. Engu líkara en að hún taki hamskiptum og til að mynda nefnir hún að það hendi að það sé engu líkara en að hún verði eins og lítið barn. Sömuleiðis á hún það til að verða svo ofurseld viðfangsefni sínu að því megi líkja við ofureinbeitingu. Líður stundum "eins og hún sé ekki til í alvörunni", svo mikill getur framandleiki hennar fyrir sjálfri sér orðið. Stundum er eins og einhver annar sé við stjórnvölinn. Á umsögnum kennara er haft á orði að hún hafi hætt að tjá sig [...]. Frá þessum tíma oft upplifun eins og hún stæði utan við aðstæðurnar og fór að einangra sig meira. Þegar eldri systir hennar veiktist X ára gömul ákvað A að láta sem minnst fyrir sér fara til þess að íþyngja fjölskyldunni ekki frekar. Þetta markar tímamót í lífi hennar og fór algjörlega úr böndunum, hún fékk kjörþögli og gat með engum hætti skapað sér rými, aðstæður eða látið rödd sína heyrast í félagslegu samhengi. Upplifði á ákveðnum tíma að hún gat ekki bakkað út úr þessu aftur. Upplifir að grunnsjálf hennar sé ekki til, finnst erfitt að fóta sig í aðstæðum því henni finnst hún ekki eiga neitt sjálf, engan grunn til að byggja á og veit því ekki hvaða útspilum eða hvaða tjáningu hún eigi að beita fyrir sig og verður því hrædd eins og lítið barn. Í félagslegu samhengi þarf hún að hugsa sig um hver hún er, hvað hún eigi að segja og getur misst orðaforðann. Þessi lýsing hennar er líklegast á geðrofsgrunni (örvinglan = perplexitet). Það er sífelld barátta fyrir hana að halda andlitinu í félagslegum aðstæðum. Henni finnst hún aldrei almennilega geta verið hún sjálf en þó er hún, hún sjálf þegar hún upplifir sig sem barn. Þessar lýsingar draga fram óstöðuga sjálfsupplifun hennar. Hún finnur framandleika fyrir sjálfri sér í aðstæðum, svo mikinn að það veldur því að öll sjálfvirkni hverfur, framgangan verður vélræn og meðvitað stýrð. Móðir hennar telur að einkennin hafi versnað verulega við X ára aldur eftir að hún hafi um langan tíma reynt að láta aðra ekki komast að því að henni liði illa. Móðirin minnist þess einnig að hún hafi frá því á barnsaldri forðast náin tengsl og snertingu.

Veit oft ekki hvernig hún á að haga sér, er svo ráðvillt. Gat dvalið í 2 klst. inn á salerni í F í viðleitni sinni til að finna út úr því að tengjast sjálfri sér, finna hvaða sjálfi hún gæti tengst til þess að geta komist af stað aftur og farið út í vinnuaðstæðurnar í F. Stundum getur hugurinn verið tómur þegar hún er svona ráðvillt og hún þarf að reyna að "finna hann". Hugsar með sér að aðrir telji að hún sé að plata, að þykjast. Verður svo meðvituð um vangetu sína til að nota tungumálið að hún talar vitlaust, "stundum alveg bandvitlaust" svo að hún skilst ekki, kann ekki að haga sér innan um aðra. Er stundum í kataton ástandi þegar hún vaknar á morgnana, eins og klippt sé á allar taugabrautir og það getur tekið hana langan tíma að komast af stað. Upplifir nánast alltaf einhver umbrot um það hvort hún sé raunveruleg eða hvort hún sé óraunveruleg. Sjálfvirkni hlutanna hverfur. Þarf að hugsa sig um við allar athafnir. Þarf að passa upp á það að meðvitundin haldist svo að hún týnist ekki, "A getur verið farin".

Hefur ekki fyrr en nýlega upplýst undirritaðan um viðvarandi heyrnarofskynjanir um tíma sem þó hefur borið minna á síðustu mánuðina með viðeigandi lyfjamferð. Heyrði umtalandi raddir sem kommentera á hana og hegðun hennar og segja t.d. "þú getur þetta ekki". Til að undirstrika það flækjustig sem hún lifir í eru raddirnar sem hún heyrir stundum sammála um ummæli sín og stundum ekki. Hún reynir að veita röddunum mótspyrnu. Finnst stundum eins og þessar raddir eða aðrar persónur yfirtaki vilja hennar og hún getur ekki spyrnt við og finnst þá eins og hún sjá víki sjálf út af sviðinu og sé sjálf þá ekki með fulla meðvitund heldur sé annars staðar. Finnur sjálfskennd þessara annarra sem koma inn á sviðið. Er áfram sami líkami en er ekki alltaf áfram sama manneskjan eða sama sjálfið eða sú sem hugsar hugsanirnar. Kveðst sífellt vera hrædd eins og hún viti ekki hvað gerist næst og þegar hún veit ekki hvað hún á að gera er hún hrædd um að "barnið komi fram". Veit oft og tíðum ekki hvort hún sé til. Hefur oft leitt hugann að sjálfsvígi og hefur í eitt sinn tekið ofskammt af lyfjum og endaði á bráðamóttöku.“

Þá segir svo um almenna heilsufars- og sjúkrasögu að öðru leyti:

„Um er að ræða X ára gamla konu með alvarlega hamlandi geðröskun sem nú sækir um örorku í fyrsta sinn. Var fyrst vísað til undirritaðs geðlæknis árið 2014 og kom aftur í reglulega þjónustu í ársbyrjun 2019. [...] Gekk ágætlega námslega, var þó mjög hömluð félagslega alla skólagöngu vegna kvíða og ofsafeimni sem enn þann dag í dag einkennir alla framgöngu hennar og hefur hamlandi áhrif á öll samskipti. Í umsögnum kennara á grunnskólaaldri er vakin athygli á því að hún hafi hörfað mikið eða dregið sig í hlé, "látið sig hverfa". Það tók hana, þrátt fyrir góða námsgetu, X ár að ljúka stúdentsprófi frá G. Lýsir því að sorgin eftir [...] hafi haft mikil áhrif á hana á þessum tíma. Brotakennd vinnusaga, um tíma við [...] yfir sumartíma. Var í tengslum við stuðningsferli vísað til [...]. Eftir alllangan tíma í F hóf hún nám í [...] við D um sl. áramót en þetta hefur reynst henni of erfitt, hún þolir illa allt álag og öll áreiti og er á undanförnum vikum svo gott sem hætt náminu því hún hefur ekki heilsu til að stunda það, var undir það síðasta í einungis einu fagi. Starfsmenn F voru farnir að nefna við hana á vormánuðum 2019 að líta í kringum sig m.t.t. þess hvað taki næst við í endurhæfingu hennar þó ekki hafi komið upp neinar ákveðnar hugmyndir um hvað gæti tekið við því úrræðin eru fá og stuðningsþörf hennar mikil. Hún er nú alfarið hætt að mæta í F en er að reyna að fóta sig í náminu í [...] við D en það reynist henni erfitt. Sótti nýlega um örorku þar sem undirritaður taldi vandann ótvírætt á því stigi að hæfing eða endurhæfing væri ekki tímabær en fékk synjun og TR mælti með endurhæfingarlífeyri sem hér með er sótt um til að gera henni kleift að sækja þá meðferð sem hún þarf á að halda.“

Um læknisskoðun á kæranda segir:

„Hefur alltaf mætt í viðtöl til undirritaðs í fylgd móður sinnar þrátt fyrir að vera búin að ná fullorðinsaldri, svo mikill er kvíðinn. Þarf stuðning. Ávallt vel til höfð og snyrtileg, en áberandi hlédræg og lágróma eins og áður er lýst. Hvíslar stundum svo lágum rómi að varla heyrist og hefur undirritaður og móðir hennar þurft að hjálpast að til að greina orðaskil. Eins og lýst er í sjúkrasögu talar hún af framandleika um sjálfa sig og lýsir í seinni tíð heyrnarofskynjunum og einnig upplifunum af því að einhver hafi yfirtekið hennar vilja. Á mjög erfitt með alla framgöngu, það getur undirritaður staðfest og samrýmist mjög hennar eigin lýsingum um framgöngu hennar í öðrum aðstæðum. Geðslag er lækkað og hún upplifir að alltaf sé á brattann að sækja.“

Þá segir svo í samantekt vottorðsins:

„Ljóst má vera að um er að ræða vanda á talsvert háu alvarleikastigi, vanda sem er samrýmanlegur vanda á einhverfurófi og hún hefur jafnframt á tímabilum haft geðrofseinkenni, heyrnarofskynjanir. Það eru frávik í líðan og hegðan frá því á barnsaldri. Það eru alvarleg frávik í aðlögunarfærni frá því upp úr fermingaraldri, með mikilli versnun á framhaldsskólaaldri, vanda sem er samrýmanlegur einhverfurófsvanda eins og áður segir. Hefur óstöðuga sjálfsupplifun sem veldur henni sjálfri mikilli óraunveruleikatilfinningu og framandleika gagnvart eigin sjálfi. Tjáningargeta hennar hefur verið svo takmörkuð að það hefur reynst erfitt að fá skýra mynd þrátt fyrir mörg viðtöl en myndin er að skýrast undir það síðasta og það eru að koma fram skýrari mynd af vanda samrýmanlegum geðrofssjúkdómi. Færni hennar til að taka þátt í endurhæfingu er lítil og því er sótt um læknisfræðilega endurhæfingu. F var í sjálfu sér gott úrræði sem verndaður vinnustaður um tíma en er eins og gefur að skilja ekki meðferðareining og því ekki viðeigandi úrræði fyrir hana með þann heilsubrest sem hún er að takast á við. Færni hennar er mjög skert og það þarf að tryggja henni öruggar aðstæður og þar á meðal framfærslu því hún er óvinnufær. Hún mun sækja áfram reglubundna meðferð hjá undirrituðum og unnið er að því að finna viðeigandi stuðningsúrræði önnur.“

Fyrir liggur endurhæfingaráætlun C geðlæknis, dags. 4. apríl 2021, þar sem segir að skammtímamarkmið endurhæfingar sé að efla sjálfsstyrk kæranda svo að hún verði betur í stakk búin til aðlögunar að félagslegu umhverfi og námi. Langtímamarkmið sé að gera hana eins færa um að stunda vinnu og endurhæfingarhæfni hennar leyfi. Samkvæmt áætluninni er endurhæfing fyrirhuguð frá 1. janúar 2021 til 31. desember 2021. Í endurhæfingaráætlun segir:

„1.   Reglubundin vikuleg viðtöl hjá undirrituðum, 45 mínútur í senn.

2.    Heldur áfram í hlutanámi sínu i rafvirkjum við D, 2 fög á önn.

3.    Hefur nú þegar hafið mætingar og endurhæfingu hjá B.

4.    Hefur verið vísað til kvíða og þunglyndisteymis geðdeildar á E.“

Þá segir í áætluninni að stefnt sé að því að endurhæfing muni styrkja kæranda til vinnu á 2-3 árum. Ef henni takist samhliða endurhæfingu að ljúka námi í rafvirkjun muni skapast tækifæri við það.

Einnig liggja fyrir staðfesting frá D á að kærandi hafi verið skráð í þrjá áfanga á vorönn 2021 og bréf frá B, dags. 15. apríl 2021, þar sem fram kemur að kærandi hafi mætt fjórum sinnum í dagskrá B frá áramótum 2020-21 og fram að mánaðamótum mars-apríl. Þá liggur fyrir tilkynning frá Landspítala um að tilvísun til inntökuteymis göngudeildar geðsviðs hafi verið samþykkt 3. desember 2020 til inntöku í þunglyndis- og kvíðateymi geðsviðs. Biðtími eftir þjónustu séu um það bil sex til átta mánuðir.

Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teljist ekki nægjanlega ítarleg í ljósi vanda kæranda og óljóst hvernig endurhæfing komi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virðist virk starfsendurhæfing vart vera í gangi. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við alvarleg og hamlandi andleg veikindi sem orsaki skerta vinnugetu. Af gögnum málsins má ráða að þeir endurhæfingarþættir sem lagt var upp með, og voru byrjaðir á þeim tíma sem hin kærða ákvörðun var tekin, hafi verið regluleg viðtöl hjá geðlækni, hlutanám í rafvirkjun og endurhæfing hjá B. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gefa gögn málsins til kynna að endurhæfing kæranda samkvæmt endurhæfingaráætlun hafi verið nægjanlega ítarleg með hliðsjón af lýsingum á alvarlegum veikindum kæranda. Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að óljóst sé af staðfestingu frá B hvort gert sé ráð fyrir áframhaldandi þátttöku kæranda þar og hversu oft. Úrskurðarnefndin fellst á það en telur þó ekki heimilt að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri á þeim grundvelli. Tryggingastofnun skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir, sbr. 38. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að mati úrskurðarnefndar bar Tryggingastofnun því að rannsaka nánar áframhaldandi þátttöku kæranda hjá B áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Einnig er rétt að benda á að það er heimild til að ákveða greiðslutímabil til styttri tíma ef einhverjir þættir í endurhæfingaráætlun þykja óljósir, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020. 

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun hafi ekki verið heimilt að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri á grundvelli þeirri gagna sem lágu fyrir í málinu. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta