Hoppa yfir valmynd
2. maí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 36/2024

Fimmtudaginn 2. maí 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 18. janúar 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. nóvember 2023, vegna ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á árunum 2022 og 2023. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. febrúar 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir tímabilið júlí 2022 til nóvember 2022. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 601.460 kr., að meðtöldu 15% álagi. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 1. júní 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir tímabilið desember 2022 til mars 2023. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 816.307 kr., að meðtöldu 15% álagi. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. ágúst 2023, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir aprílmánuð 2023. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 103.112 kr., að meðtöldu 15% álagi. Þá var kæranda með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. nóvember 2023, tilkynnt að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri fyrir tímabilið júlí 2023 til september 2023. Honum bæri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 399.561 kr., að meðtöldu 15% álagi. Í kjölfar viðbótargagna og skýringa frá kæranda voru ákvarðanir frá 14. febrúar 2023 og 1. júní 2023 enduruppteknar og kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 22. nóvember 2023, að fyrri ákvarðanir stæðu óbreyttar þrátt fyrir viðbótargögnin.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. janúar 2024. Með bréfi, dags. 30. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 14. febrúar 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2024. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda 22. febrúar 2024 og voru þær kynntar Fæðingarorlofssjóði með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2024. Athugasemdir bárust 28. febrúar 2024.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála er greint frá því að kærandi hafi fengið greitt fæðingarorlof í fimm daga, eða eina viku, í hverjum mánuði frá júlí 2022 til september 2023. Kærandi hafi sem sagt unnið í þrjár vikur og fengið fæðingarorlof í eina viku. Fæðingarorlofssjóður taki ekki mark á launaseðlum né yfirlitum yfir tímaskráningar sem sé undirritað af forstjóra C. Fyrirtækið sé ekki með stimpilklukku og því séu tímaskráningar í Excel skjali. Á launaseðli komi einungis fram ein eining þar sem kærandi sé á föstum mánaðarlaunum en ekki tímavinnu. Sundurliðun vinnudaga komi fram á yfirlitsskjali. Kærandi hafi unnið langt umfram sína daglegu átta tíma vinnuskyldu í hverjum mánuði til þess að geta tekið sér þessa viku í fæðingarorlof. Að mati kæranda geti Fæðingarlofssjóður ekki ákvarðað að fella niður greiðslur á þeirri forsendu að launaseðlar uppfylli ekki þær kröfur sem þeir eigi að gera. Á meðfylgjandi launaseðli frá Vinnumálastofnun sjáist að hann sé ekki frábrugðinn launaseðlum frá C, enda uppfylli þeir launaseðlar alla almenna staðla fyrir launaútreikinga/seðla í viðurkenndum bókhaldskerfum. Nú hafi Fæðingarorlofssjóður farið fram á endurgreiðslu á öllu fæðingarorlofi og sent beiðni um nauðungarsölu á fasteign kæranda því til lúkningar. Kærandi fari fram á að greiðslur til hans standi og fari fram á afturköllun niðurfellingar hjá Fæðingarorlofssjóði.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs er vísað til þess að sjóðurinn geri ráð fyrir því í öllum útreikningum að kærandi hafi fengið of mikið greitt frá launagreiðanda. Kærandi hafi þó einungis fengið greidd laun þá daga sem hann hafi verið að vinna í öllum þeim mánuðum sem hann hafi verið í fæðingarorlofi, þ.e. tvær vikur í hverjum mánuði frá júlí 2022 til og með desember 2023. Kærandi hafi átt inni ógreidda yfirvinnutíma frá árunum 2021, 2022 og 2023 sem fyrirtækið hafi verið að greiða út. Kærandi sé með samning þess efnis að yfirvinnu sé breytt í dagvinnu sem sé tekið út í fríi. Starfsmönnum fyrirtækisins hafi fækkað um tvo og kærandi hafi verið einn að sinna verkefnum fyrirtækisins og því hafi hann aldrei komist í að taka út þessa frídaga. Kærandi hafi einnig verið að vinna heilmikla eftirvinnu þann tíma sem hann hafi verið að taka fæðingarorlofið til að geta komist í frí þessar tvær vikur. Kærandi fái ekki séð hvers vegna þetta hafi áhrif á útreikninga Fæðingarorlofssjóðs. Greiðslur frá launagreiðanda fyrir þann tíma sem hann hafi ekki verið í fæðingarorlofi eigi ekki að hafa áhrif á útreikninga Fæðingarorlofssjóðs.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir júlí, ágúst og september 2023 þar sem hann hafi fengið of háar greiðslur frá sínum vinnuveitanda á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2022.

Með bréfum Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. janúar 2023, 17. apríl 2023, 17. júlí 2023 og 16. október 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu frá júlí 2022 til október 2023. Með bréfunum hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Í málinu hafi kæranda verið sendar greiðsluáskoranir, dags. 14. febrúar, 1. júní, 30. ágúst og 20. nóvember 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð, ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og 2. mgr. 41. gr. laganna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 144/2020 sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að þrátt fyrir 1. mgr. 13. gr. sé starfsmanni með samkomulagi við vinnuveitanda heimilt að haga fæðingarorlofi á þann veg að það skiptist niður á fleiri en eitt tímabil og/eða það verði tekið samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. Þó megi aldrei taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Vinnuveitandi skuli leitast við að koma til móts við óskir starfsmanns um tilhögun fæðingarorlofs samkvæmt ákvæði þessu.  

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá kemur fram í 1. mgr. 25. gr. að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr.  

Með umsókn kæranda, dags. 24. mars 2022, hafi hann sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem hafi fæðst X 2022. Tilkynningar um tilhögun fæðingarorlofs, auk breytinga, hafi borist frá kæranda og hann hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við þær, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 17. maí 2022.  

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. laga nr. 144/2020 hafi viðmiðunarlaun hans verið 943.625 kr. á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að upphafi töku fæðingarorlofs hefðu þau hækkað í 962.896 kr. sem hafi verið miðað við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, honum til hagsbóta, við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr.

Með bréfi, dags. 11. janúar 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að Fæðingarorlofssjóður væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu í júlí til nóvember 2022. Óskað hafi verið eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Þar sem engin gögn, skýringar eða andmæli hefðu borist að fresti liðnum hafi með bréfi, dags. 14. febrúar 2023, verið gerð krafa um endurgreiðslu að fjárhæð 523.034 kr., ásamt 15% álagi upp á 78.455 kr. eða samtals 601.460 kr. Í sama bréfi hafi kæranda verið tilkynnt um þriggja mánaða kærufrest sem hafi runnið út þann 14. maí 2023. Þann 28. september og 25. október 2023 hafi borist tímaskýrslur og launaseðlar fyrir júlí til nóvember 2022 ásamt skýringum kæranda. Í kjölfarið hafi kæranda verið sent bréf, dags. 22. nóvember 2023, um að innsend gögn breyttu ekki niðurstöðu máls og greiðsluáskoranir stæðu því óbreyttar. Sundurliðun kröfunnar hafi verið eftirfarandi:

Tímabilið 25. til 31. júlí 2022 hafi kærandi fengið greiddar 120.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 192.175 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 72.579 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir júlí 2022 hafi kærandi þegið 975.875 kr. í laun. Hann hafi því fengið 122.596 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 25. til 31. júlí 2022 sé því 74.719 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1.-7. ágúst 2022 hafi kærandi fengið greiddar 138.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 221.466 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 83.466 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir ágúst 2022 hafi kærandi þegið 975.875 kr. í laun. Hann hafi því fengið 140.985 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 1. til 7. ágúst 2022 sé því 85.927 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 17. til 30. september 2022 hafi kærandi fengið greiddar 282.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 452.561 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 170.561 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir september 2022 hafi kærandi þegið 975.875 kr. í laun. Hann hafi því fengið 288.100 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 17. til 30. september 2022 sé því 175.590 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 7. október 2022 hafi kærandi fengið greiddar 138.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 221.466 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 83.466 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir október 2022 hafi kærandi þegið 975.875 kr. í laun. Hann hafi því fengið 140.985 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 1. til 7. október 2022 sé því 85.927 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 24. til 30. nóvember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 162.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 259.982 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 97.982 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir nóvember 2022 hafi kærandi þegið 1.073.875 kr. í laun. Hann hafi því fengið 191.964 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 24. til 30. nóvember 2022 sé því 100.871 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Með bréfi, dags. 17. apríl 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að Fæðingarorlofssjóður væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu í desember 2022 til mars 2023. Óskað hafi verið eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Þar sem engin gögn, skýringar eða andmæli hefðu borist að fresti liðnum hafi með bréfi, dags. 1. júní 2023, verið gerð krafa um endurgreiðslu að fjárhæð 709.832 kr., ásamt 15% álagi, 106.475 kr., eða samtals 816.307 kr. Í sama bréfi hafi kæranda verið tilkynnt um þriggja mánaða kærufrest sem hafi runnið út þann 1. september 2023. Þann 28. september og 25. október 2023 hafi borist tímaskýrsla og launaseðill vegna desember 2022 ásamt skýringum kæranda. Í kjölfarið hafi kæranda verið sent bréf, dags. 22. nóvember 2023, um að innsend gögn breyttu ekki niðurstöðu máls og að greiðsluáskoranir stæðu því óbreyttar. Sundurliðun kröfunnar hafi verið eftirfarandi:

Tímabilin 1. til 7. desember og 23. til 31. desember 2022 hafi kærandi fengið greiddar 300.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 481.448 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 181.448 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir desember 2022 hafi kærandi þegið 1.100.869 kr. í laun. Hann hafi því fengið 368.987 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilin 1. til 7. og 23. til 31. desember 2022 sé því 186.798 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilin 1. til 7. janúar og 25. til 31. janúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 264.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 423.674 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 159.674 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir janúar 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 297.209 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilin 1. til 7. og 25. til 31. janúar 2023 sé því 164.382 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 7. febrúar 2023 hafi kærandi fengið greiddar 138.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 221.466 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 83.466 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir febrúar 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 155.359 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 1. til 7. febrúar 2023 sé því 85.927 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilin 6. til 20. mars og 25. til 31. mars 2023 hafi kærandi fengið greiddar 438.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 702.914 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 264.914 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir mars 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 493.097 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilin 6. til 20. mars og 25. til 31. mars 2023 sé því 272.725 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Með bréfi, dags. 17. júlí 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að Fæðingarorlofssjóður væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu í apríl, maí og júní 2023. Óskað hafi verið eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Þar sem engin gögn, skýringar eða andmæli hefðu borist að fresti liðnum hafi með bréfi, dags. 30. ágúst 2023, verið gerð krafa um endurgreiðslu að fjárhæð 89.663 kr., ásamt 15% álagi, 13.449 kr., eða samtals 103.112 kr. Í sama bréfi hafi kæranda verið tilkynnt um þriggja mánaða kærufrest sem hafi runnið út þann 30. nóvember 2023. Sundurliðun kröfunnar hafi verið eftirfarandi:

Tímabilið 1. til 7. apríl 2023 hafi kærandi fengið greiddar 144.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 231.095 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 87.095 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir apríl 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 162.114 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 1. til 7. apríl 2023 sé því 89.663 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Með bréfi, dags. 16. október 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að Fæðingarorlofssjóður væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu í júlí til september 2023. Óskað hafi verið eftir launaseðlum, tímaskýrslum, skýringum vinnuveitanda og skýringum og andmælum kæranda ásamt öðru því sem skýrt gæti málið. Þar sem engin gögn, skýringar eða andmæli hefðu borist að fresti liðnum hafi með bréfi, dags. 20. nóvember 2023, verið gerð krafa um endurgreiðslu að fjárhæð 347.444 kr., ásamt 15% álagi, 52.117 kr., eða samtals 399.561 kr. Sundurliðun kröfunnar hafi verið eftirfarandi:

Tímabilið 25. til 31. júlí 2023 hafi kærandi fengið greiddar 138.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 221.466 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 83.466 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir júlí 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 155.359 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 25. til 31. júlí 2023 sé því 85.927 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 1. til 7. ágúst 2023 hafi kærandi fengið greiddar 144.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 231.095 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 87.095 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir ágúst 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 162.114 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 1. til 7. ágúst 2023 sé því 89.663 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Tímabilið 17. til 30. september 2023 hafi kærandi fengið greiddar 276.000 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismun á 442.932 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, eða 166.932 kr., án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir september 2023 hafi kærandi þegið 1.038.372 kr. í laun. Hann hafi því fengið 310.719 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir tímabilið 17. til 30. september 2023 sé því 171.854 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í ákvæði 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna heimild til að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris og að taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Þannig heimili ákvæðin ekki að miðað sé einvörðungu við launakjör foreldris eins og þau séu við upphaf fæðingarorlofs né að tekið sé tillit til launabreytinga eftir fyrsta dag fæðingarorlofs.  

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að foreldri sé heimilt að taka fæðingarorlof samhliða skertu starfshlutfalli og að ekki sé heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Foreldri geti því ekki nýtt fæðingarorlof yfir staka daga heldur þurfi hvert tímabil fæðingarorlofs að ná yfir að minnsta kosti hálfan mánuð í senn. Í tilfelli kæranda hafi hann sótt um fæðingarorlof hluta úr mánuði tímabilið maí 2022 til apríl 2024. Kærandi hafi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við tilkynningu þar um. Greiðslur frá vinnuveitanda hafi verið hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr., í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs kæranda í þeim almanaksmánuðum sem greitt hafi verið fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr. laga nr. 144/2020, og skuli því koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt skýrum fyrirmælum í 25. gr. laganna og athugasemdum við þá grein. Gögn málsins styðji ekki að kærandi hafi lagt niður störf og fallið af launum þann tíma sem hann hafi verið skráður  í fæðingarorlof.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 1.669.973 kr., að viðbættu 15% álagi, 250.496 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 1.920.469 kr., sbr. bréf til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 14. febrúar, 1. júní, 30. ágúst og 20. nóvember 2023.

Í athugasemdum Fæðingarorlofssjóðs er vísað til þess að ekkert nýtt komi fram í athugasemdum kæranda sem skipti máli við úrlausn málsins, auk þess sé ekki hægt að sjá að gögn málsins styðji það sem haldið sé fram í athugasemdunum. Þannig megi til dæmis sjá á launaseðlum að kærandi sé með sömu föstu mánaðarlaunin og ökutækjastyrk óháð töku fæðingarorlofs. Launin séu ekki afmörkuð við ákveðna daga mánaðarins heldur mánuðina í heild. Þá sé á launaseðlum hvergi minnst á að kærandi eigi uppsafnaða yfirvinnu né að verið sé að greiða yfirvinnu, hvorki fyrir eldri tímabil né liðinn mánuð. Á þeim megi þó sjá ýmsa liði sem fái sérstakar skráningar þegar við eigi, svo sem launaleiðréttingar og dagpeninga. Að öðru leyti vísist til greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. febrúar 2024.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. nóvember 2023, þar sem greiðsluáskoranir sjóðsins frá 14. febrúar 2023 og 1. júní 2023 vegna ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna fyrir tímabilið júlí 2022 til mars 2023 voru staðfestar eftir að þær höfðu verið enduruppteknar hjá sjóðnum. Í málinu liggja einnig fyrir ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. ágúst 2023 og 20. nóvember 2023 er varða ofgreiddar fæðingarorlofsgreiðslur fyrir annars vegar aprílmánuð 2023 og hins vegar tímabilið júlí 2023 til september 2023.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. janúar 2024 og því ljóst að kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 vegna ákvörðunar frá 30. ágúst 2023 var liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í ljósi þess að ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs frá 20. og 22. nóvember 2023 eru efnislega sambærilegar og ákvörðun frá 30. ágúst 2023 telur nefndin veigamiklar ástæður mæla með því að sú ákvörðun verði tekin til efnislegrar meðferðar samhliða þeim. 

Í V. kafla laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. 25. gr. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3.-5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 144/2020 að gert sé ráð fyrir því að foreldri geti fengið þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóði sé ekki ætlað að bæta greiddan frá vinnuveitanda samhliða fæðingarorlofi. Samkvæmt 4. málsl. 1. mgr. 25. gr. skulu eingöngu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Um þetta segir í athugasemdum við ákvæðið að átt sé við tímabil sem hefjist frá og með fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris innan tiltekins almanaksmánaðar og ljúki frá og með þeim degi sem foreldrið nýti ekki lengur rétt sinn til fæðingarorlofs innan tiltekins almanaksmánaðar. Hið sama gildi hvort sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs að fullu eða samhliða minnkuðu starfshlutfalli á fyrrnefndu tímabili.

Í 7. og 8. málsl. 1. mgr. 25. gr. laganna kemur fram að þó sé heimilt að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1.-3. mgr. 23. gr. Foreldri skuli sýna fram á með skriflegum gögnum á hvaða grundvelli umræddar launabreytingar samkvæmt 7. málsl. séu byggðar og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi, sbr. 9. málsl. ákvæðisins.

Um framangreint er ítarlega fjallað í athugasemdum með ákvæði 25. gr. í frumvarpi til laga nr. 144/2020 en þar segir meðal annars svo:

„Ljóst er að greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eiga eingöngu að bæta þann tekjumissi sem foreldrar verða fyrir er þeir leggja niður störf í fæðingarorlofi. Fái foreldri bættan tekjumissinn, sem Fæðingarorlofssjóði er ætlað að bæta, frá vinnuveitanda þykir eðlilegt að þær greiðslur komi til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Er því eins og áður segir miðað við að greiðslur sem eru hærri en sem nemur mismun á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris á mánuði á viðmiðunartímabili komi til frádráttar fæðingarorlofsgreiðslum. Er þar með tekið tillit til þess að vinnuveitandi geti bætt starfsmanni sínum upp þann tekjumissi sem Fæðingarorlofssjóður bætir ekki. Er því við það miðað í frumvarpinu að foreldrar geti hagað störfum sínum líkt og þeir kjósa utan þess tíma er þeir eru skráðir í fæðingarorlof án þess að það hafi áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á því tímabili sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs. Þannig á það ekki að koma að sök, í tengslum við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabil þar sem foreldri nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs, þótt foreldri hafi unnið fleiri yfirvinnutíma en á viðmiðunartímabili eða tekið að sér aukavaktir rétt fyrir töku fæðingarorlofs enda oftast eðlilegar ástæður sem liggja þar að baki, svo sem vinna við stór verkefni eða breytt vaktafyrirkomulag. Í því sambandi skiptir það jafnframt ekki máli þótt vinnan hafi farið fram innan sama almanaksmánaðar og fæðingarorlof hófst svo lengi sem vinnan fór fram áður en orlofið hófst.“

Þá segir í 10. málsl. 1. mgr. 25. gr. að ef foreldri hafi fengið óvenjuháar greiðslur frá vinnuveitanda fyrir eða eftir fæðingarorlof eða meðan á fæðingarorlofi standi miðað við tekjur á viðmiðunartímabili samkvæmt 1.–3. mgr. 23. gr. þannig að ætla megi að þær hafi að hluta eða öllu leyti verið ætlaðar fyrir sama tímabil og það tímabil sem foreldri nýti rétt sinn til fæðingarorlofs skuli Vinnumálastofnun óska eftir að viðkomandi foreldri sýni fram á með skriflegum gögnum fyrir hvaða tímabil umræddar greiðslur hafi verið ætlaðar. Hið sama gildi um óvenjuháar greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris á tímabili þar sem foreldri hafi minnkað starfshlutfall sitt samhliða nýtingu réttar til fæðingarorlofs, sbr. 11. málsl. ákvæðisins. Að endingu segir í 12. málsl. 1. mgr. 25. gr. að Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir staðfestingu frá vinnuveitanda á þeim gögnum sem foreldri leggi fram í þessu sambandi.

Líkt og að framan greinir gera lög nr. 144/2020 ráð fyrir því að einstaklingar geti skipt fæðingarorlofi sínu niður í nokkur tímabil og þá stundað vinnu á öðrum tímabilum en fæðingarorlof er tekið. Eins að hægt sé að nýta rétt til fæðingarorlofs samhliða minnkuðu starfshlutfalli, sbr. 2. mgr. 13 .gr. Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns síns sem fæddist X 2022 og skipti fæðingarorlofi sínu á fleiri en eitt tímabil. Fyrst tvær vikur við fæðingu barnsins og svo ýmist tvær eða þrjár vikur á tímabilinu 25. júlí 2022 til 7. apríl 2024, sbr. tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs sem fylgdi með umsókn kæranda.

Fyrir liggur að kærandi starfaði hjá C samhliða töku fæðingarorlofs. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort launagreiðslur kæranda á tímabilinu júlí 2022 til september 2023 eigi að skerða greiðslur til hans frá Fæðingarorlofssjóði. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hann hafi unnið langt umfram sína daglegu vinnuskyldu þær vikur sem hann hafi ekki verið í fæðingarorlofi. Kærandi lagði fram launaseðla fyrir framangreint tímabil og yfirlit yfir tímaskráningar fyrir tímabilið 8. júní 2022 til 22. desember 2022. Fæðingarorlofssjóður hefur vísað til þess að gögn málsins styðji ekki að kærandi hafi lagt niður störf og fallið af launum þann tíma sem hann hafi verið skráður í fæðingarorlof. Launaseðlar séu ekki afmarkaðir við ákveðna daga í hverjum mánuði heldur mánuðina í heild.

Af gögnum málsins og afstöðu Fæðingarorlofssjóðs verður ekki séð að sjóðurinn hafi lagt sérstakt mat á yfirlit sem kærandi lagði fram um vinnutíma hans á árinu 2022 sem er undirritað og staðfest af vinnuveitanda hans. Að mati úrskurðarnefndar gat Fæðingarorlofssjóður ekki byggt endurkröfu ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna á launaseðlum einum og sér, þrátt fyrir að þar séu tilgreind mánaðarlaun en ekki sérstök tímabil, í ljósi framangreinds yfirlits yfir vinnutíma. Bar Fæðingarorlofssjóði í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 10. málsl. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020 að óska eftir skýringum frá kæranda eða vinnuveitanda hans og eftir atvikum frekari gögnum væri þörf á því. Þá liggur ekki fyrir í málinu yfirlit yfir vinnutíma á árinu 2023 og því ljóst að ekki hefur verið lagt mat á hvort kærandi hafi lagt niður störf á því tímabili sem hann fékk greitt fæðingarorlof á því ári.

Með vísan til þess eru ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. ágúst 2023, 20. og 22. nóvember 2023, felldar úr gildi og lagt fyrir sjóðinn að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.    

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 22. nóvember 2023, um að staðfesta greiðsluáskoranir sjóðsins frá 14. febrúar 2023 og 1. júní 2023 vegna ofgreiddra fæðingarorlofsgreiðslna til A, á tímabilinu júlí 2022 til mars 2023, er felld úr gildi. Ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs, dags. 30. ágúst 2023 og 20. nóvember 2023 eru einnig felldar úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sjóðsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta