Breyting á aðgangsskilyrðum háskóla – aukið jafnræði milli lokaprófa bók- og starfsnáms
Í ljósi breytinga á tilhögun og skipulagi náms í framhaldsskólum á liðnum árum og áratugum er nauðsynlegt að jafna stöðu nemenda sem náð hafa tiltekinni hæfni og lokið námi með öðru lokaprófi en stúdentsprófi. Lagt er til í ljósi breytinga á inntaki náms á ólíkum viðurkenndum námsbrautum í framhaldsskóla, og samhliða þróun og umræðu um jafna stöðu starfsnámsnema, að horft verði til ólíkra lokaprófa og þau metin í samræmi við þá hæfni og þekkingu sem þau veita nemendum.
„Með þessari breytingu skapast einnig hvati fyrir háskóla til að skilgreina aðgangsviðmið í samræmi við kröfur til mismunandi náms, en með því fæst aukið gagnsæi sem nýtist nemendum, skólum og atvinnulífinu. Ekki er með neinu móti verið að draga úr sjálfstæði háskóla og ábyrgð háskóla á starfsemi sinni heldur ryðja úr vegi hindrunum sem verið hafa milli skólastiga og auka jafnræði milli bók- og starfsnáms,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
Lagabreytingunum er þannig ætlað að ýta undir að nemendur fái notið hæfni, þekkingar og færni sem þeir hafa öðlast með ólíkum lokaprófum frá mismunandi framhaldsskólum, þegar þeir sækjast eftir frekara námi á háskólastigi.
Um námslok á þriðja hæfniþrepi:
„Námslok á þriðja hæfniþrepi einkennast af enn meiri kröfum um þekkingu, leikni og hæfni tengdar sérhæfingu og fagmennsku. Þar fer fram sérhæfður undirbúningur undir háskólanám, lögvarin störf, sérhæft starfsnám og listnám. Eftir námslok á þriðja þrepi eiga nemandur að geta unnið sjálfstætt, borið ábyrgð á skipulagi og úrlausn verkefna og metið eigin störf.“
Opið er fyrir umsagnir um frumvarpsdrögin til 27. nóvember nk. Smelltu hér til að kynna þér málið í samráðsgátt.