Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Landspítali þjónustar börn og ungmenni í fíknivanda

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skrifar:

Fram til þessa hefur Landspítali ekki sinnt meðferð við fíknivanda barna og ungmenna heldur hefur þjónustan verið veitt af SÁÁ. Um er að ræða mikilvæga þjónustu við viðkvæman hóp sem þarfnast sérhæfðrar nálgunar. Í úttekt Embættis landlæknis árið 2016 á gæðum og öryggi þjónustu í meðferð kvenna og barna hjá SÁÁ eru gerðar athugasemdir við framkvæmd þjónustunnar. Einkum við það að börn í meðferð væru í samskiptum við fullorðna áfengis- og vímuefnasjúklinga sem þar væru í meðferð. Þá voru gerðar athugasemdir við að á sjúkrahúsinu Vogi væru ekki starfandi sérfræðingar í meðferð og umönnun barna. SÁÁ brást við ábendingum embættisins og gerði ýmsar endurbætur myndu hætta að veita ólögráða einstaklingum meðferð á Vogi.

Í framhaldi var farið yfir málið á vettvangi heilbrigðisráðuneytisins. Það var mat ráðuneytisins að bregðast þyrfti við með skjótum hætti til að mæta bráðavanda barna og ungmenna í neyslu. Í nóvember sl. fól ég svo Landspítalanum að veita börnum og ungmennum með neyslu- og fíknivanda, afeitrunarmeðferð, bráðameðferð og aðra þá sjúkrahúsþjónustu sem þessu tengist. Að þeirri meðferð lokinni er Landspítala einnig falið að vísa börnum og ungmennum með neyslu- og fíknivanda í viðeigandi meðferðarúrræði, s.s. á barna- og unglingageðdeild, Stuðla eða aðra meðferð eins og við á í hverju tilviki fyrir sig. 

Landspítalinn hefur brugðist við og er tilbúinn að taka að sér þetta mikilvæga verkefni. Gera þarf breytingar á húsnæði og manna stöður og er áætlað að undirbúningur geti tekið um 6 mánuði. Sá tími verður nýttur til að stilla saman strengi, bæði við SÁÁ og aðra sem hafa þjónustað börn og ungmenni að lokinni innlögn. Mikilvægt er að þjónusta við þennan viðkvæma hóp sé samfelld og byggist á víðtækri sérþekkingu þar sem hugað er að geðheilbrigði, áfallasögu og félagslegum aðstæðum þeirra barna og ungmenna sem glíma við fíknivanda. Slíka þjónustu getur Landspítali veitt.

Grein heilbrigðisráðherra birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2019.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta