Hoppa yfir valmynd
10. september 2015 Dómsmálaráðuneytið

Aukin fjárveiting vegna ráðgjafar fyrir foreldra í forsjár- og umgengnisdeilum

Á næsta ári er ráðgert samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að verja alls 60 milljónum króna í verkefnið sáttameðferð hjá sýslumannsembættum  sem er vegna innleiðingar á barnalögum sem samþykkt voru árið 2012. Lagabreytingin fólst í aukinni þjónustu og ráðgjöf fyrir foreldra sem eiga í forsjár- og umgengnisdeilum um börn sín en þessi verkefni hafa verið falin sýslumönnum.

Þegar breyting á barnalögum var samþykkt árið 2012 var gert ráð fyrir að hún gengi í gildi á miðju ári 2013 og fjárveiting þess árs, 30 milljónir, var miðuð við kostnað vegna þessarar þjónustu í sex mánuði. Lagabreytingin tók hins vegar gildi í byrjun árs 2013 og því vantaði 30 milljónir króna uppá nægilega fjárveitingu. Fjárveitingin fram til þessa hefur því ekki verið nægileg en því hefur verið mætt með því að fara hægar í sakirnar.

Reynslan hefur sýnt að þessi ráðgjöf sýslumannsembætta og sérfræðinga hefur skilað góðum árangri fyrir fjölskyldur og forsjáraðila. Með þessu fyrirkomulagi er þess frekar að vænta að ágreiningsmál á þessu sviði leysist með sáttameðferð fremur en að þau fari til dómstóla. Ráðgert er því að auka við fjárveitinguna nú með tillögu í fjárlagafrumvarpinu um alls 60 milljóna króna framlagi til verkefnisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta