Stefnt að endurbótum á Akureyrarflugvelli
Í umræðum á Alþingi í dag um Akureyrarflugvöll og hugsanlegar umbætur á flugvellinum sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra nauðsynlegt að bæta aðstöðu á vellinum meðal annars með því að lengja hann og bæta og endurnýja tæknabúnað vegna aðflugs. Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, hóf umræðu um Akureyrarflugvöll í kjölfar frétta um að Iceland Express hyggist hætta millilandaflugi frá Akureyri vegna slæmrar aðstöðu þar.
Fram kom í máli samgönguráðherra að ýmsar aðgerðir séu þegar hafnar vegna endurbóta á aðflugsbúnaði Akureyrarflugvallar og ýmsar aðgerðir væru fyrirhugaðar sem snerta bæði tækjabúnað vegna aðflugsins og mögulega lengingu flugbrautarinnar. Það verkefni sem þegar er hafið er þétting aðflugsljósa flugvallarins vegna aðflugs úr suðri. Jafnframt er verið að undirbúa að setja upp stefnuvita á Oddeyri og má gera ráð fyrir að þessum verkefnum verði lokið fyrri hluta næsta árs þegar lokið er bæði uppsetningu og prófunum á búnaði. Kostnaður er talinn verða nærri 50 milljónir króna.
Þá upplýsti ráðherra að nú stæði yfir svokallað áhættumat vegna flugvallarins en það snýst um að meta hvernig haga megi enn frekari endurbótum og viðbótum á tækjabúnaði sem gætu orðið til þess að lækka megi lágmarkshæð vegna aðflugs í slæmu skyggni. Gert er ráð fyrir að áhættumatið liggi fyrir snemma í desember. Lágmarksskýjahæð er nú 1.200 fet og er hugsanlegt með ákveðnum aðgerðum að fá hana lækkaða í um 800 fet. Til að svo megi verða þarf bæði þennan aukna búnað og flugmenn þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og kröfur um hæfni vegna flugs við slíkar aðstæður.
Annað verkefni snertir endurnýjun á aðflugsratsjá sem brátt verður aðkallandi. Ný ratsjá myndi enn bæta aðflugsmöguleika úr suðri en gera má ráð fyrir að slíkur búnaður kosti kringum 250 milljónir króna.
Lenging flugbrautar hefur einnig verið til umræðu. Uppfylla þarf nýjar kröfur um öryggissvæði við báða enda flugbrautarinnar, lengja það úr 60 metrum í 150 og að því verkefni meðtöldu myndi lenging flugbrautar kosta kringum 500 milljónir. Lenging flugbrautar gerir mögulegt að lenda við verri veðurskilyrði eða bremsuskilyrði en er í dag og hún myndi einnig að vissu marki bæta möguleika í flugtaki.
Tvö síðarnefndu atriðin eru ekki á samgönguáætlun en munu koma til álita þegar áætlunin verður til endurskoðunar á Alþingi nú í vetur.
Fram kom einnig í máli samgönguráðherra að forráðamenn Iceland Express hefðu ekki haft samband við samgönguráðuneytið um að félagið væri að hætta millilandaflugi um Akureyrarflugvöll vegna aðstæðna þar.