Hoppa yfir valmynd
11. október 2024 Utanríkisráðuneytið

Traust varnarsamstarf áréttað á fundi með yfirherforingja Bandaríkjahers

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Charles Q. Brown, formanni bandaríska herráðsins. - myndSigurjón Ragnar

Áskoranir í öryggismálum, samstarf á norðurslóðum og tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna voru meðal málefna sem rædd voru á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með Charles Q. Brown, formanni bandaríska herráðsins. Um var að ræða fyrstu heimsókn formanns bandaríska herráðsins til Íslands í áraraðir.

„Við áttum gott samtal um þróun öryggismála og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag bæði á hernaðarsviðinu og vegna margvíslegra fjölþáttaógna,” segir Þórdís Kolbrún. „Fundurinn gaf gott færi á að ræða samstarf ríkjanna og þær áskoranir sem við er að eiga í öryggis- og varnarmálum í dag í ljósi innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu og vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum. Ísland og Bandaríkin hafa verið að efla með sér samstarf á síðustu árum með áherslu á eftirlit og viðbragð á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum, sem styrkir líka öryggi allra bandalagsríkja.” 

Brown heimsótti Ísland í tengslum við fund yfirmanna hermála norðurskautsríkjanna sjö sem Ísland tók að sér að halda í vikunni. Þar var rætt um þróun öryggismála og áskoranir sem tengjast loftslagsbreytingum, siglingum og hernaðarumsvifum á norðurslóðum. 

„Það var heiður að sækja þennan fund í boði íslenskra samstarfsaðila okkar,“ segir Charles Q. Brown, formaður bandaríska herráðsins. „Norðurslóðirnar skipta máli, og ekki einungis í dag, heldur til framtíðar litið. Sem NATO-þjóðir á norðurslóðum er því afar mikilvægt að við höldum áfram okkar virka og samhenta samstarfi til að takast á við núverandi og komandi öryggisáskoranir og stuðla þannig að farsælum og öruggum norðurslóðum.“

Brown fundaði jafnframt með Jónasi G. Allanssyni, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, heimsótti öryggissvæðið í Keflavík og kynnti sér samstarf Íslands og Bandaríkjanna við kafbátaleit.

  • Þórdís Kolbrún býður formann bandaríska herráðsins velkominn. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta