Skrifað undir rammasamning við Rauða krossinn á Íslandi
Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi, skrifuðu í morgun undir rammasamning um stuðning ráðuneytisins við alþjóðlega mannúðaraðstoð Rauða krossins á Íslandi. Samningurinn gildir til loka árs 2020 og felur í sér fyrirsjáanleg framlög til mannúðarverkefna Rauða krossins yfir tímabilið. Hann er gerður í framhaldi af samstarfsyfirlýsingu beggja aðila frá því í febrúar 2017.
Markmið rammasamningsins er að auka skilvirkni og árangur mannúðaraðstoðar íslenskra stjórnvalda og Rauða krossins á Íslandi í samstarfi við Alþjóðaráð Rauða krossins og Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans, auk annarra leiðandi alþjóðlegra stofnana í mannúðarmálum.
Jafnframt er leitast við að gera fjármögnun mannúðarstoðar RKÍ fyrirsjáanlegri og auðvelda skipulagningu hennar til lengri tíma með það að markmiði að auka áhrifamátt aðstoðar við berskjaldað fólk.
Mannúðaraðstoð grundvallast á þörfum hverju sinni og felur í sér björgun mannslífa, vernd óbreyttra borgara, útvegun nauðþurfta, annarri aðstoð til nauðstaddra og að auðvelda þeim afturhvarf til eðlilegra lífshátta í kjölfar náttúruhamfara og hamfara af mannavöldum.
Upphæð samningsins er tiltekið hlutfall af heildarupphæð framlaga ráðuneytisins til mannúðarverkefna íslenskra borgarasamtaka á samningstímabilinu og nemur rúmlega 93 milljónum króna árið 2018.
Frekari upplýsingar um samstarf ráðuneytisins við íslensk borgarasamtök í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, m.a. verklagsreglur og upplýsingar varðandi styrkveitingar og stefnumið í málaflokknum, má finna hér.