Mál nr. 17/2004: Úrskurður frá 14. mars 2005
Ár 2005, mánudaginn 14. mars, var í Félagsdómi í málinu nr. 17/2004
Landssamband lögreglumanna
(Kristján B. Thorlacius hdl.)
gegn
íslenska ríkinu vegna
embættis ríkislögreglustjóra
(Óskar Thorarensen hrl.)
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Mál þetta var tekið til úrskurðar 23. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Kristján Torfason.
Stefnandi er Landssamband lögreglumanna, kt. 540574-0149, Grettisgötu 89, Reykjavík.
Stefndi er fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, kt. 080451-4749, f.h. íslenska ríkisins, kt. 540269-6459, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík vegna embættis ríkislögreglustjóra, kt. 530697-2079, Skúlagötu 21, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Af hálfu stefnanda er þess krafist að viðurkennd verði skylda stefnda til að úthluta lögreglumönnum við embætti ríkislögreglustjóra 11,55 launaflokkum frá 1. september 2001, í samræmi við ákvæði stofnanasamnings milli Landssambands lögreglumanna annars vegar og ríkislögreglustjórans, Lögregluskóla ríkisins, lögreglustjórans í Reykjavík og allra sýslumanna hins vegar frá 21. nóvember 2001.
Til vara er þess krafist að viðurkennd verði skylda stefnda til að úthluta lögreglumönnum við embætti ríkislögreglustjóra 11 launaflokkum frá 1. september 2001 í samræmi við ákvæði stofnanasamnings milli Landssambands lögreglumanna annars vegar og ríkislögreglustjórans, Lögregluskóla ríkisins, lögreglustjórans í Reykjavík og allra sýslumanna hins vegar frá 21. nóvember 2001.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins.
Dómkröfur stefnda
Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Til vara er þess krafist að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.
Til þrautavara er þess krafist að skylda stefnda til að úthluta lögreglumönnum við embætti ríkislögreglustjóra launaflokkum nái til mun færri launaflokka en stefnandi krefst í stefnu og að málskostnaður falli niður.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og málið verði tekið til efnislegrar meðferðar. Þá krefst stefnandi málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Málsatvik
Helstu atvik málsins eru þau að með kjarasamningi, sem undirritaður var þann 13. júlí 2001 og gildir til 30. apríl 2005, var m.a. ákveðið að taka upp nýtt launakerfi fyrir lögreglumenn. Tilgangurinn var tvíþættur. Annars vegar að auka hlut dagvinnulauna og hins vegar að fela hverri stofnun útfærslu og daglega framkvæmd kjarasamninga þannig að hún gæti með hliðsjón af eðli starfseminnar og sérstöðu hennar ákveðið með samkomulagi við stéttarfélag lögreglumanna hvaða þættir skuli lagðir til grundvallar við mat á störfum þeim sem innt eru af hendi á hennar vegum. Hið nýja launakerfi tók gildi þann 1. september 2001.
Enn fremur var um það samið að sérstök nefnd skipuð allt að þremur fulltrúum embættis eða embætta annars vegar og allt að þremur fulltrúum Landssambands lögreglumanna hins vegar skyldi koma sér saman um þær forsendur sem liggja ættu til grundvallar við röðun starfa í launaramma í hinu nýja launakerfi.
Þann 21. nóvember 2001 var undirritaður stofnanasamningur milli Landssambands lögreglumanna annars vegar og ríkislögreglustjórans, Lögregluskóla ríkisins, lögreglustjórans í Reykjavík og allra sýslumanna hins vegar. Samningurinn fjallaði um röðun lögreglumanna í launaflokka á grundvelli ákvæða kjarasamningsins frá 13. júlí 2001. Stofnanasamningurinn gilti frá 1. september 2001.
Markmið samningsins, samkvæmt 2. grein hans, var að færa útfærslu tiltekinna þátta kjarasamningsins í hendur embætta og stéttarfélags lögreglumanna, að færa ákvörðun um launasamsetningu starfa nær starfsvettvangi, að efla samstarf lögreglumanna og yfirstjórnenda á vinnustað, að gefa lögreglumönnum tækifæri til að þróast og bæta sig í starfi og að skapa grundvöll fyrir aukinni hagræðingu og bæta rekstur embættanna. Í 5. grein stofnanasamningsins kemur fram undir fyrirsögninni “Viðbótarforsendur” að við launaákvörðun sé lögreglustjórum heimilt að taka tillit til viðbótarforsendna sem varðað geta lögreglumenn og störf þeirra, s.s. stjórnunarstörf og persónubundna þætti og er samkvæmt ákvæðinu gert ráð fyrir að lögreglumenn geti hækkað um launaflokka vegna þessara atriða. Í lokamálsgrein 5. greinar samningsins kemur fram að gildistaka launaflokkahækkana vegna viðbótarforsendna skuli miðast við 1. september 2001, enda hafi forsendur hækkunar þá verið til staðar, og vera lokið fyrir 1. febrúar 2002.
Stefnandi heldur því fram að við gerð kjarasamnings og stofnanasamningsins hafi, af hálfu samningsaðila, verið gengið út frá þeirri forsendu að tekjur lögreglumanna hækkuðu um 14% að meðaltali. Við vörpun lögreglumanna úr gamla launakerfinu yfir í nýtt launakerfi hafi verið miðað við þessar forsendur, þ.e. að með öllum þáttum stofnanasamningsins næðist 14% meðaltalshækkun á launum lögreglumanna í landinu. Stefndi mótmælir því hins vegar alfarið að það hafi verið sameiginlegur skilningur samningsaðila kjarasamningsins að samningurinn fæli í sér 14% meðaltalshækkun launa hjá hverju embætti fyrir sig. Ekkert slíkt ákvæði sé að finna í kjarasamningnum eða stofnanasamningnum.
Eftir að framkvæmd stofnanasamningsins átti að vera lokið í febrúar 2002 lá fyrir að embætti ríkislögreglustjóra hafði ekki úthlutað þeim viðbótar- launaflokkum sem stefnandi heldur fram að gert hafi verið ráð fyrir í stofnanasamningnum. Tekjur lögreglumanna við embættið hækkuðu því ekki að meðaltali um þau 14% sem stefnandi telur að um hafi verið samið. Með bréfi stefnanda, Landssambands lögreglumanna, til ríkislögreglustjóra, dags. 21. júní 2002, var óskað upplýsinga um eftirfarandi:
- Hver hafi verið meðaltalshækkun launa hjá embættinu við vörpun yfir í nýtt launakerfi og hvaða forsendur voru notaðar við útreikninginn.
- Ef meðaltalshækkun var minni en 14% hvað voru margir launaflokkar eftir.
- Hvort þeim launaflokkum hafi verið ráðstafað og þá á hvaða forsendum.
Í bréfinu kemur fram að í kjarasamningi Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra frá 13. júlí 2001 hafi framlegð ríkisins til stofnanasamningsins verið 14%.
Í svari ríkislögreglustjóra, dags. 30. september 2002, kemur fram að meðaltalshækkun launa starfandi lögreglumanna við embættið við vörpun hafi orðið 13,04%. Miðað við 14% meðaltal, og að hver launaflokkur sé 3%, séu eftir um 18 launaflokkar. Þá er vísað til 5. töluliðs stofnanasamningsins, en þar segir að við launaákvörðun sé lögreglustjórum heimilt að taka tillit til viðbótarforsendna sem varðað geta lögreglumenn og störf þeirra. Segir í niðurlagi bréfs ríkislögreglustjóra að hann hafi ekki nýtt sér þessa heimild og því hafi engum viðbótarflokkum verið ráðstafað.
Með bréfi Landssambands lögreglumanna, dags. 27. desember 2002, er áréttað að samið hafi verið um 14% meðaltalshækkun launa lögreglumanna og þess krafist að samningurinn verði uppfylltur.
Í svari ríkislögreglustjóra, dags. 14. janúar 2003, kemur fram að embættið hafi ákveðið að nýta sér ekki heimild samningsins til úthlutunar viðbótarflokka.
Í grein 11.5.1 í kjarasamningi aðila segir að hjá þeim embættum sem fara með framkvæmd kjarasamninga í umboði fjármálaráðherra, skuli komið á sjálfstæðum samstarfsnefndum, sem skipaðar séu allt að 3 fulltrúum frá hvorum aðila og 3 til vara. Samstarfsnefnd hafi m.a. það hlutverk að fjalla um forsendur starfaflokkunar, röðun einstakra starfa í launaflokka og koma á sáttum í ágreiningsmálum sem rísa kunni út af samningnum. Einnig skuli nefndin fjalla um röðun starfa samkvæmt 25. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Með bréfi fjármálaráðuneytis, dags. 11. apríl 2003, var ríkislögreglustjóranum falið að fara með framkvæmd kjarasamninga. Í bréfinu kemur fram að samskipti við stéttarfélög sem fram hafa farið á vettvangi samstarfsnefnda flytjast til stofnunarinnar og er sérstaklega tekið fram að gerð stofnanasamnings sé hluti af verkefnum samstarfsnefndarinnar. Samkomulag varð um að sett yrði saman ein samstarfsnefnd allra lögreglustjóraembætta á landinu og Landssambands lögreglumanna, í stað þess að hafa sérstaka samstarfsnefnd fyrir hvert lögreglustjóraembætti, enda væri slíkt fyrirkomulag mjög óskilvirkt.
Fyrsti fundur nefndarinnar var haldinn þann 6. maí 2003 og var þá gengið frá skipun fulltrúa í nefndina. Á fundinum var jafnframt ákveðið að fyrst um sinn skyldi nefndin einungis fjalla um atriði er varða túlkun stofnanasamningsins.
Á öðrum fundi nefndarinnar sem haldinn var þann 6. júní 2003 var rætt um útreikninga BSRB á launahækkunum sem byggðust á tölum frá Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Ákveðið var að fela hagfræðingi BSRB og fjármálastjóra lögreglustjórans í Reykjavík að fara yfir útreikningana.
Á þriðja fundi nefndarinnar þann 26. júní 2003 var farið yfir útreikninga þeirra á launum lögreglumanna við hvert lögregluembætti. Fram kom að 15 embætti væru undir 14% hækkun. Með bréfi samstarfsnefndarinnar til ríkislögreglustjóra, dags. 11. júlí 2003, var óskað eftir upplýsingum um hvort lögreglumenn við embættið hefðu fengið 14% meðaltalshækkun á grundvelli stofnanasamningsins. Í svarbréfi ríkislögreglustjóra, dags. 6. ágúst 2003, kemur fram að afstaða embættisins hafi ekki breyst og engum viðbótarlaunaflokkum hafi verið úthlutað.
Þann 27. ágúst 2003 var haldinn fjórði fundur samstarfsnefndar þar sem fram kom að meðaltalshækkun hjá embætti ríkislögreglustjóra hefði verið 12,99%. Embættið ætti því eftir að úthluta 11,55 viðbótarlaunaflokkum. Í bréfinu kemur einnig fram að embætti ríkislögreglustjóra hafi túlkað stofnanasamninginn á annan hátt en öll önnur embætti á landinu. Ákveðið var að senda bréf til ríkislögreglustjóra og óska eftir því að hann eða fulltrúi hans kæmi á næsta fund samstarfsnefndarinnar.
Þann 3. nóvember 2003 var haldinn fimmti fundur samstarfsnefndarinnar og og sama dag var ríkislögreglustjóra sent bréf með tilmælum um að hann úthluti þeim viðbótarlaunaflokkum sem hann átti eftir að úthluta. Í bréfinu kemur fram sú afstaða samstarfsnefndarinnar að til að uppfylla 14% meðalhækkun hjá embætti ríkislögreglustjóra þurfi að úthluta 11,55 launaflokkum afturvirkt frá 1. september 2001 til að staðið hafi verið við stofnanasamninginn. Í bréfinu kemur einnig fram að við launaákvörðun sé lögreglustjórum heimilt að taka tillit til viðbótarforsendna sem varðað geta lögreglumenn og störf þeirra vegna umfangsmikilla stjórnunarstarfa og persónubundinna þátta. Hins vegar felist einnig í honum sú skylda lögreglustjóra/sýslumanna að uppfylla 14% hækkun að meðaltali hjá hverju embætti fyrir sig, frá 1. september 2001, þ.e. að úthluta þeim flokkum sem embættið átti eftir, að lokinni vörpun, á grundvelli persónubundinna þátta og/eða stjórnunar. Í bréfinu er sérstaklega áréttað að í síðustu málsgrein 5. greinar stofnanasamningsins komi fram að gildistaka launaflokkshækkana vegna viðbótarforsendna skuli miðast við 1. september 2001 enda hafi forsendur þá verið til staðar og úthlutun launaflokkahækkana skuli vera lokið fyrir 1. febrúar 2002. Af þessu sé ljóst að skylt hafi verið að úthluta viðkomandi flokkum.
Með bréfi ríkislögreglustjórans, dags. 11. febrúar 2004, kemur fram það álit embættisins að ákvæði stofnanasamningsins hafi þegar verið uppfyllt.
Landssamband lögreglumanna leitaði þá til lögmanns vegna málsins og með bréfi Gylfa Thorlacius hrl. til ríkislögreglustjóra, dags. 7. maí 2004, voru enn ítrekaðar kröfur um að embættið úthlutaði viðbótarlaunaflokkum afturvirkt frá 1. september 2001.
Með bréfi, dags 25. maí 2004, tilkynnti embættið að það hefði leitað til fjármálaráðuneytis vegna málsins. Með bréfi, dags. 29. júní 2004, svaraði ráðuneytið erindi embættisins. Í bréfinu kemur fram að launahækkun samkvæmt kjarasamningnum hefði átt að vera 14% að jafnaði fyrir alla þá sem taka laun samkvæmt kjarasamningnum, en ekki 14% hjá hverju embætti fyrir sig. Þessi niðurstaða ráðuneytisins var framsend lögmanni Landssambands lögreglumanna með bréfi, dags. 20. júlí 2004.
Stefnandi telur að þar sem sem ljóst sé að embætti ríkislögreglustjóra hyggist ekki verða við óskum og kröfum Landssambands lögreglumanna og samstarfsnefndar Landssambandsins og lögreglustjóra um að úthluta þeim viðbótarlaunaflokkum sem óúthlutað sé samkvæmt ákvæði stofnanasamningsins frá því í nóvember 2001 verði ekki hjá því komist að höfða mál til viðurkenningar á skyldu embættisins til úthlutunar viðkomandi launaflokka.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Mál þetta er höfðað fyrir Félagsdómi samkvæmt 26. og 27. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefnda beri að efna stofnanasamning þann sem gerður var milli aðila þann 21. nóvember 2001. Kröfu sína byggir stefnandi á meginreglu íslensks réttar um skuldbindingargildi samninga og efndaskyldur samningsaðila. Við gerð kjarasamnings stefnanda, Landssambands lögreglumanna, og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hafi það verið sameiginlegur skilningur samningsaðila að samningurinn fæli í sér 14% meðaltalshækkun launa til lögreglumanna. Í framhaldi af gerð kjarasamningsins hafi verið gerður sérstakur stofnanasamningur milli stefnanda og allra lögregluembætta í landinu um framkvæmd þeirrar endurskipulagningar á launakerfi lögreglumanna sem samið hafði verið um í kjarasamningnum frá 13. júlí 2001. Sett hafi verið á stofn samráðsnefnd þar sem sæti áttu annars vegar talsmenn sýslumanna og lögreglustjóra og hins vegar fulltrúar stefnanda, Landssambands lögreglumanna. Skipan nefndarinnar hafi byggst á fyrirmælum fjármálaráðherra í bréfi, dags. 11. apríl 2003, þar sem lögregluembættum var falin framkvæmd kjarasamninga, þ.m.t. gerð stofnanasamninga. Sýslumönnum hafi, með þessum fyrirmælum ráðuneytisins, verið veitt sameiginlegt umboð til að skipa samstarfsnefndina fyrir hönd ríkisins, eins og fram komi í fundargerð fyrsta fundar nefndarinnar þann 6. maí 2003. Á þeim fundi hafi jafnframt verið ákveðið að nefndin myndi fyrst um sinn aðeins fjalla um atriði er varða túlkun stofnanasamningsins. Af fundargerðum nefndarinnar sé ljóst að nefndin hafi talið sér skylt að fjalla um það hvernig einstökum embættum gengi að ná markmiði kjara- og stofnanasamningsins um 14% meðaltalshækkun launa.
Í fundargerð 3. fundar þann 26. júní 2003 komi fram að 15 embætti væru undir 14%. Ákveðið hafi verið að nefndin skrifaði þeim sýslumönnum/lögreglustjórum bréf sem ekki hefðu náð þessu marki og hafi embætti ríkislögreglustjóra verið eitt þeirra. Á fundi nefndarinnar þann 27. ágúst 2003, hafi spunnist umræður um valdsvið samstarfsnefndarinnar og umboð hennar til að fá embætti ríkislögreglustjóra til að efna samninginn. Af þessum fundargerðum sé ljóst að það sé samhljóða álit þeirra sem í nefndinni sitja að embætti ríkislögreglustjóra hafi ekki staðið við efni stofnanasamningsins frá 21. nóvember 2001.
Það liggi því fyrir að samstarfsnefnd sú, sem sérstaklega hafi verið skipuð til að fara með túlkun og framkvæmd kjarasamnings Landssambands lögreglumanna og ríkissjóðs, hafi túlkað og látið framkvæma stofnanasamning aðila þannig að 14% meðaltalshækkun lögreglumanna hafði náðst hjá öllum lögregluembættum á landinu, að embætti ríkislögreglustjóra undanskildu. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að stefnda sé óheimilt að túlka og framkvæma ákvæði stofnanasamningsins með öðrum hætti en felist í niðurstöðu samstarfsnefndarinnar.
Fyrir liggi í málinu að samstarfsnefnd lögreglustjóra, þar sem allir hafi undirgengist skyldur samkvæmt sama stofnanasamningi, embætti ríkislögreglustjóra og Landssamband lögreglumann, hafi komist að þeirri niðurstöðu að embættinu beri að úthluta 11,55 launaflokkum frá 1. september 2001. Þessi afstaða nefndarinnar feli í sér að stefnda beri að úthluta þegar í stað þeim viðbótarlaunaflokkum sem átti eftir að úthluta.
Í kjarasamningi aðila, grein 11.5, sé fjallað um skipan og hlutverk samstarfsnefnda. Þar segir m.a. í grein 11.5.1 “Samstarfsnefnd hafi m.a. það hlutverk að fjalla um forsendur starfaflokkunar, röðun einstakra starfa í launaflokka og koma á sáttum í ágreiningsmálum sem rísa kunna út af samningi þessum.”
Í grein 11.6.1 segi enn fremur “Hvor aðili um sig getur skotið ágreiningsefnum til nefndarinnar og kallað hana saman til starfa. ... Verði samstarfsnefnd sammála um breytingar á röðun eða öðru því sem til hennar hefur verið vísað, skal sú breyting gilda frá og með næstu mánaðarmótum eftir að erindi var fyrst formlega borið fram í nefndinni nema annað sé sérstaklega ákveðið.”
Af þessu sé ljóst að samstarfsnefndin hafi úrskurðarvald um þau ágreiningsefni sem fyrir hana séu lögð. Af gögnum málsins sé ljóst að nefndin hafi á fundum sínum komist að samhljóða niðurstöðu um að embætti ríkislögreglustjóra beri skylda til að úthluta 11,55 launaflokkum til lögreglumanna við embættið frá 1. september 2001 að telja. Megi um þetta m.a. vísa til bréfs samstarfsnefndarinnar, dags. 3. nóvember 2003, til stefnda þar sem segi m.a. “Hins vegar felst einnig í honum sú skylda lögreglustjóra/sýslumanna að uppfylla 14% hækkun að meðaltali hjá hverju embætti fyrir sig, frá 1.09.2001, þ.e. að úthluta þeim flokkum sem embættið átti eftir að lokinni vörpun, á grundvelli persónubundinna þátta og/eða stjórnunar.”
Þá sé einnig á því byggt af hálfu stefnanda að ákvæði stofnanasamningsins sjálfs leiði til þess að stefnda sé skylt að úthluta 11,55 viðbótarlaunaflokkum til lögreglumanna við embættið.
Í samningnum komi fram í 5. kafla undir fyrirsögninni “Viðbótarforsendur” að við launaákvörðun sé lögreglustjórum heimilt að taka tillit til viðbótarforsendna sem varðað geti lögreglumenn og störf þeirra s.s. stjórnunarstörf og persónubundna þætti. Ákvæði þetta verði að skýra í samhengi við önnur ákvæði samningsins og það markmið kjarasamningsins og stofnanasamningsins að meðaltalslaunahækkun lögreglumanna yrði 14%. Við gerð stofnanasamningsins hafi verið tekist á um hvernig úthluta ætti þessari 14% hækkun. Talsmenn Landssambands lögreglumanna hafi viljað úthluta allri 14% hækkuninni við vörpun yfir í nýtt launakerfi. Talsmenn lögreglustjóra hafi lagt á það áherslu að eitthvað yrði skilið eftir til þess að þeir hefðu svigrúm til að taka launaákvarðanir á grundvelli 5. kafla stofnanasamningsins um viðbótarforsendur. Niðurstaðan hafi orðið sú að stærstum hluta hækkunarinnar hafi verið úthlutað við vörpun í nýtt launakerfi en hluti hækkunarinnar hafi verið fenginn lögreglustjórum til ráðstöfunar á grundvelli 5. kaflans. Orðalagið “er lögreglustjórum heimilt” feli ekki í sér að lögreglustjóri geti valið að úthluta alls ekki þeim launaflokkum sem upp á vanti til að náð sé fullri 14% launahækkun hjá embættinu, enda sé ljóst af fundargerðum og bréfum samstarfsnefndarinnar að allir aðrir lögreglustjórar hafi talið sig skuldbundna til þess að úthluta launaflokkum við embætti sín þar til 14% meðaltalshækkun var náð. Heimildir lögreglustjóra feli í sér að honum sé heimilt að taka ákvörðun um launahækkun einstakra lögreglumanna umfram aðra, óháð starfstitli og starfsaldri að gefnum þeim forsendum sem fram komi í 5. kafla.
Sú ákvörðun ríkislögreglustjóra að úthluta ekki þeim launaflokkum sem nauðsynlegt hafi verið til að ná 14% hækkun við embættið feli í sér að brotið sé gegn samkomulagi um að sú hækkun náist. Höfnun embættisins á kröfum um úthlutun feli því í sér ótvírætt brot gegn ákvæðum kjara- og stofnanasamnings stefnanda og stefnda auk þess að fara gegn skýrum fyrirmælum samstarfsnefndar sem samkvæmt kjarasamningi fari með úrskurðarvald um málefni kjara- og stofnanasamningsins.
Af þessum sökum verði að fallast á kröfur stefnanda um viðurkenningu á skyldu stefnda til úthlutunar á 11,55 launaflokkum til lögreglumanna við embættið.
Af hálfu stefnanda er vísað til laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sérstaklega 26. og 27. greinar.
Einnig er vísað til ákvæða laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sérstaklega ákvæða í IV. kafla.
Enn fremur er af hálfu stefnanda vísað til meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga og efndaskyldur samningsaðila og reglna vinnuréttarins um kjarasamninga, framkvæmd og túlkun þeirra.
Um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um almenna meðferð einkamála með lögjöfnun.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Í dómkröfum stefnanda sé vikið að úthlutun á 11,55 launaflokkum og í varakröfu að 11 launaflokkum. Ekki sé gerð tilraun til að útskýra í stefnu hvað í þessu felist. Að mati stefnda sé kröfugerð og samhengi hennar við málsástæður ekki skýr og því vanreifuð. Að mati stefnda sé hér um slíkt grundvallaratriði að ræða að varða eigi frávísun málsins í heild frá dómi. Bent er á að stefnandi byggi á röngum fjölda lögreglumanna við útreikning sinn á launahækkunum hjá embættinu. Lögreglumenn hafi verið 55 en stefnandi miði aðeins við 39 og undanskilji aðstoðar- og yfirlögregluþjóna. Ef sú aðferð stefnanda sé notuð, sem stefndi sé ósammála, þá sé viðmiðunartalan einnig röng, en fjöldi þessara lögreglumanna hafi verið 42. Kröfugerð í málinu sé því óskýr að mati stefnda og ekki í samræmi við 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, aðallega e-lið. Ekki sé krafist viðurkenningar á rétti samkvæmt tilteknum ákvæðum kjarasamnings eða stofnanasamnings, sem hefði verið í meira samræmi við 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í raun feli krafan í sér viðurkenningu á meintri óljósri skyldu sem hvorki sé fjallað um í kjarasamningi né í gögnum hans. Stefndi telur því að málið eigi ekki undir Félagsdóm. Gerð sé krafa um málskostnað vegna þessa þáttar málsins og er vísað í því sambandi til 130. gr. laga nr. 91/1991 með lögjöfnun.
Niðurstaða
Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986.
Stefnandi krefst viðurkenningar á skyldu stefnda til þess að úthluta lögreglumönnum við embætti ríkislögreglustjóra 11.55 launaflokkum, til vara 11 launaflokkum, frá 1. september 2001, í samræmi við ákvæði stofnanasamnings sem gerður var 21. nóvember 2001.
Byggir stefnandi á því að við gerð kjarasamnings 13. júlí 2001 og með nýju launakerfi hafi aðilar gengið út frá því að laun lögreglumanna skyldu hækka um 14% að meðaltali. Þau hafi hins vegar einungis hækkað að meðaltali um 12.99% hjá embætti ríkislögreglustjóra. Þá byggir stefnandi kröfu sína á umfjöllun samstarfsnefndar sem skipuð var samkvæmt gr. 11.5 í kjarasamningi aðila en samstarfsnefnd hafi komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum 27. ágúst 2003 að embætti ríkislögreglustjóra ætti eftir að úthluta 11,55 viðbótarlaunaflokkum til þess að umræddri hækkun væri náð. Stefnandi telur að embætti ríkislögreglustjóra sé skylt að hlíta ákvörðun samstarfsnefndar um þetta.
Stefnandi hefur ekki gert grein fyrir því í stefnu eða öðrum gögnum málsins hvernig þessi fjöldi launaflokka er fundinn út, m.a. með tilliti til hinnar umkröfðu meðaltalshækkunar launa sem er 14%. Þannig virðist stefnandi byggja kröfuna um 11,55 launaflokka á útreikningum og ákvörðun samstarfsnefndar en útreikningar hennar þar um liggja ekki fyrir í málinu. Þá kemur ekki fram í kröfugerð sá fjöldi starfsmanna, sem kröfugerðin grundvallast á. Kjarasamningur aðila hefur heldur ekki að geyma skýr ákvæði um þá launahækkun sem stefnandi byggir kröfu sína á. Kröfugerð stefnanda er því ekki svo skýr að unnt sé að leggja dóm á málið, sbr. d- og e- liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ber því að vísa málinu frá dómi.
Stefnandi skal greiða stefnda 150.000 krónur í málskostnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er því vísað frá Félagsdómi. Stefnandi, Landssamband lögreglumanna, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Kristjana Jónsdóttir
Guðni Á. Haraldsson
Kristján Torfason