Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2005: Úrskurður frá 15. apríl 2005

Ár 2005, föstudaginn 15. apríl, er í Félagsdómi, í málinu nr. F-2/2005:

Læknafélag Íslands

(Gunnar Ármannsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

uppkveðinn svohljóðandi

úrskurður:

Mál þetta var tekið til úrskurðar 4. þessa mánaðar að afloknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda.

Málið dæma Helgi I. Jónsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Kristján Torfason og Ásdís J. Rafnar.

Málið er höfðað 14. febrúar 2005 af Læknafélagi Íslands, Hlíðarsmára 8, Kópavogi, gegn íslenska ríkinu vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg, Selfossi.

Í málinu krefst stefnandi þess að viðurkennt verði með dómi að félagsmönnum stefnanda, sem starfa við heilsugæslustöðvar og taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002, hafi sjálfir val um hvort þeir taki laun samkvæmt A. lið 1. gr. kafla IX, föst mánaðarlaun, eða laun samkvæmt B. lið 1. gr. kafla IX, samsett laun. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst aðallega frávísunar en sýknu til vara. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að stefndi greiði stefnanda málskostnað í þessum þætti málsins.

 

I

Stefnandi byggir málsóknina á því að með úrskurði kjaranefndar 15. október 2002 hafi verið kveðið á um að heilsugæslulæknar gætu valið um hvort þeir myndu þiggja föst mánaðarlaun eða afkastahvetandi laun. Til að byrja með hafi fáir félagsmenn stefnanda kosið að vinna eftir afkastahvetjandi kerfi en frá ársbyrjun 2004 hafi heilsugæslulæknar við heilsugæslustöðina á Selfossi ákveðið að taka laun samkvæmt því kerfi. Telur stefnandi að félagsmenn hans hafi sjálfir heimild til að ákveða eftir hvoru fyrirkomulaginu þeir vinni. Verði stefndi að standa við þau launakjör sem starfsmönnum hans eru ákvörðuð, hvort heldur er samkvæmt kjarasamningum eða úrskurði kjaranefndar og geti fjármögnun umsaminna eða úrskurðaðra launa aldrei verið á ábyrgð starfsmannanna. Stefndi lítur hins vegar svo á að það sé ákvörðun viðkomandi launagreiðanda hvort hann nýti sér heimild til að taka upp afkastahvetjandi launakerfi óski læknir eftir að hafa þann háttinn á launagreiðslum. Samninganefndir málsaðila áttu fund 14. júní 2004 til að ræða mismunandi skilning þeirra á úrskurði kjaranefndar. Náðu nefndirnar ekki samkomulagi um efnislega niðurstöðu en voru á einu máli um að rita kjaranefnd bréf og óska eftir úrskurði hennar um ágreiningsefnið. Með bréfi nefndarinnar 24. ágúst 2004 var beiðninni hafnað með vísan til þess að heilsugæslulæknar hefðu verið felldir undan úrskurðarvaldi nefndarinnar með lögum nr. 71/2003.

 

II

Með 6. gr. laga nr. 150/1996 var kjaranefnd falið að ákveða laun og starfskjör heilsugæslulækna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992, um kjaradóm og kjaranefnd. Með lögum nr. 71/2003 var sú breyting gerð að heilsugæslulæknar voru teknir undan valdsviði kjaranefndar. Öðluðust lögin gildi við birtingu þeirra í Stjórnartíðindum 10. apríl 2003. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis laganna segir að úrskurður kjaranefndar um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna frá 15. október 2002 skuli gilda þar til núgildandi kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands, dags. 2. maí 2002, fellur úr gildi. Í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðisins er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra og Læknafélag Íslands geti tekið upp þann hluta úrskurðarins sem fjallar um afkastahvetjandi launakerfi, einkum liði 4 og 5 í IX. kafla úrskurðarins. Nái aðilar ekki samkomulagi innan þess tíma sem gefinn var upp skyldu ákvæði hans gilda óbreytt. Með samkomulagi 17. desember 2003 gerðu aðilar efnisbreytingar á 5. lið úrskurðarins og fylgiskjali hans. Er þar meðal annars samið um að  heilsugæslulækni verði greidd föst mánaðarlaun fyrir 50 - 100% starf og verði heilsugæslustöð/heilbrigðisstofnun þá heimilt að greiða honum allt að 15% álag ofan á mánaðarlaunin enda sinni hann ekki öðrum störfum utan heilsugæslunnar eða heilbrigðisstofnunarinnar.

 

III

Stefndi styður frávísunarkröfu þeim rökum að með framangreindu bráðabirgðaákvæði laga nr. 71/2003 hafi Alþingi tekið þá ákvörðun að lögfesta áðurnefndan úrskurð kjaranefndar, en í því felist að hann skuli gilda um laun og önnur starfskjör heilsugæslulækna þar til gildandi kjarasamningur fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands rennur út 31. desember 2005. Jafnframt hafi verið ákveðið að laun skuli hækka með sambærilegum hætti og ákveðið var í nefndum kjarasamningi. Hvorki framangreindri lagasetningu né úrskurði kjaranefndar verði jafnað til kjarasamnings. Sé krafa stefnanda því ekki byggð á kjarasamningi sem aðilar hafi gert með sér á grundvelli laga nr. 94/1986, sbr. 47. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Verði breytingar á launum og öðrum starfskjörum heilsugæslulækna ekki gerðar meðan úrskurður kjaranefndar sé í gildi nema til komi lagasetning Alþingis. Eigi mál þetta því ekki undir dómsvald Félagsdóms en túlka eigi lögsögu hans þröngt.

Þá telur stefndi að verulegt misræmi sé milli aðildar og dómkrafna stefnanda í málinu. Sé íslenska ríkinu stefnt vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands en dómkrafa virðist eiga að taka til allra félagsmanna stefnanda sem starfa við heilsugæslustöðvar. Sé kröfugerðin óskýr að þessu leyti og vart í samræmi við d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð einkamála.

 

Stefnandi færir þau rök fyrir mótmælum gegn frávísunarkröfu að í málinu sé af hálfu stefnanda ekki verið að fara fram á breytingu á umræddum úrskurði kjaranefndar heldur sé hér um að ræða ágreining aðila um skilning á úrskurði hennar en úrskurðurinn sé ígildi kjarasamnings. Sú sérkennilega aðstaða sé uppi í málinu að málsaðilar hafi verið sammála um að leita til kjaranefndar um túlkun á umþrættum ákvæðum í úrskurði nefndarinnar en því verið hafnað af hennar hálfu. Sé stefnandi því í þeirri stöðu að eiga þess ekki kost að leita skjótrar úrlausnar í máli sínu verði málinu vísað frá Félagsdómi. Stefnandi vísar, máli sínu til stuðnings, til dóms Félagsdóms 15. mars 1967 í máli nr. 6/1996 og dóms sama dómstóls 16. ágúst 1968 í máli nr. 2/1968 en í málum þessum hafi verið skorið úr ágreiningi um túlkun á dómum Kjaradóms. Þá vitnar stefnandi jafnframt í dóm bæjarþings Reykjavíkur 12. nóvember 1981 í máli nr. 1786/1981 en þar komi meðal annars fram að með tilteknum dómi Kjaradóms hafi komist á kjarasamningur milli Læknafélags Íslands og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og þótt samningurinn hafi verið gerður með dómi hafi hann að lögum öll sömu áhrif og frjáls kjarasamningur. Heyri mál þetta því undir valdsvið Félagsdóms samkvæmt 3. tl. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Þá skýrir stefnandi dómkröfu sína svo að hún taki til félagsmanna stefnanda á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

 

IV

Í máli þessu krefst stefnandi þess að viðurkennt verði að félagsmenn stefnanda, sem starfa við heilsugæslustöðvar og taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002, hafi sjálfir val um hvort þeir taki föst mánaðarlaun eða samsett laun, sbr. nánari tilvísun til viðeigandi ákvæða í IX. kafla úrskurðarins. Þessari kröfu er mótmælt af hálfu stefnda og lítur hann svo á að það sé á valdi viðkomandi launagreiðanda að ákveða hvort nýtt sé heimild til að taka upp afkastahvetjandi launakerfi. Liggur því fyrir að ágreiningur er milli málsaðila um skilning á greindum úrskurði kjaranefndar að þessu leyti. Þá er jafnframt ljóst að kjaranefnd hefur hafnað því að taka umrætt vafamál til meðferðar, sbr. sameiginlega beiðni málsaðila til nefndarinnar með bréfi, dags. 24. júní 2004, og svarbréf nefndarinnar, dags. 24. ágúst 2004. Vísaði kjaranefnd til þess að með lögum nr. 71/2003, um breyting á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, með síðari breytingum, hafi verið ákveðið að fella heilsugæslulækna undan úrskurðarvaldi nefndarinnar. Hafi kjaranefnd því ekki lengur vald til að úrskurða um málefni heilsugæslulækna og breyti bráðabirgðaákvæði laganna þar engu um.

Samkvæmt framansögðu varðar ágreiningur málsins skilning á fyrrgreindu atriði í úrskurði kjaranefndar frá 15. október 2002. Kjaranefnd starfar samkvæmt fyrrgreindum lögum nr. 120/1992. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna, sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og 1. gr. laga nr. 71/2003, er verkefni kjaranefndar að ákveða laun og starfskjör embættismanna, annarra en þeirra sem taldir eru upp í 2. gr. laganna, lögreglumanna, tollvarða og fangavarða, sbr. ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Enn fremur ákveður nefndin laun og starfskjör prófessora, enda verði talið að þeir gegni því starfi að aðalstarfi. Á þeim tíma, sem umræddur úrskurður var kveðinn upp, ákvað kjaranefnd enn fremur laun og starfskjör heilsugæslulækna, sbr. 6. gr. laga nr. 150/1996, um breytingar á sérákvæðum í nokkrum lögum er varða réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með 1. gr. laga nr. 71/2003 var það verkefni nefndarinnar fellt niður en jafnframt ákveðið með ákvæði til bráðabirgða í lögunum að umræddur úrskurður nefndarinnar frá 15. október 2002 skyldi gilda þar til núgildandi kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Læknafélags Íslands frá 2. maí 2002 félli úr gildi en sá samningur mun gilda til ársloka 2005.

Um kjarasamninga opinberra starfsmanna gilda nú lög nr. 94/1986. Áður en þau lög voru sett giltu um kjarasamninga opinberra starfsmanna tvenn lög, annars vegar lög nr. 29/1976, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og hins vegar lög nr. 62/1985, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Fyrri lögin höfðu verið samin upp úr lögum nr. 46/1973, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er áður giltu fyrir BSRB, en giltu áfram fyrir BHMR og BK. Með lögum nr. 62/1985 voru lög nr. 46/1973 endurútgefin með tilgreindum breytingarlögum, sbr. 5. gr. laga nr. 41/1984. Meginmunur laga nr. 29/1976 og laga nr. 62/1985 fólst í því að í síðarnefndu lögunum var ekki fyrir að fara heimild til verkfalls. Með lögum nr. 46/1973 voru lög nr. 55/1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, felld úr gildi. Með síðastgreindum lögum varð sú breyting að kjarasamningur eða dómur Kjaradóms, sem talinn var ígildi kjarasamnings, kom í stað einhliða ákvörðunar löggjafarvaldsins um kjaramál starfsmanna ríkisins, svo sem áður tíðkaðist.

Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 94/1986, sbr. 3. gr. laga nr. 150/1996, taka ákvæði laganna ekki til þeirra embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins sem heyra undir lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Eins og áður greinir er nú mælt fyrir um það í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 að kjaranefnd ákveði laun og starfskjör embættismanna, annarra en þeirra sem taldir eru upp í 2. gr. laganna, auk launa og starfskjara lögreglumanna, fangavarða og prófessora. Í 2. gr. laga nr. 120/1992 eru tilgreind þau embætti sem sæta ákvörðun Kjaradóms um launakjör. Samkvæmt þessu ræðst valdsvið kjaranefndar að þessu leyti af því hverjir teljast embættismenn samkvæmt lögum nr. 70/1996, sbr. 22. gr. þeirra laga, að teknu tilliti til þeirra sem falla undir úrskurðarvald  Kjaradóms, sbr. 2. gr. laga nr. 120/1992, auk þess að tilteknar starfsstéttir, sem ekki teljast til embættismanna, eru felldar undir úrskurðarvald nefndarinnar samkvæmt sérstökum ákvæðum í 2. mgr. 8. gr. síðastgreindra laga. Í þeim hópi voru heilsugæslulæknar, sbr. 6. gr. laga nr. 150/1996, en með lögunum voru þeir seldir undir úrskurðarvald nefndarinnar þar til þeir voru leystir undan henni með 1. gr. laga nr. 71/2003, svo sem fyrr greinir.

Í IV. kafla laga nr. 94/1986 er fjallað um verkefni og valdsvið Félagsdóms samkvæmt þeim lögum. Tekið er fram í  1. mgr. 26. gr. laganna að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa á milli samningsaðila, í fyrsta lagi um samningsaðild einstakra stéttarfélaga og til hvaða starfsmanna samningsaðild þeirra nái, í öðru lagi um lögmæti boðaðra eða þegar hafinna vinnustöðvana, í þriðja lagi um ágreining um skilning á kjarasamningi, í fjórða lagi hverjir falli undir ákvæði 5. - 8. tölul. 19. gr. laganna og í fimmta lagi um önnur atriði sem aðilar hafa samið um að leggja fyrir dóminn, enda séu að minnsta kosti þrír af dómendum því meðmæltir. Auk þessa dæmir Félagsdómur um ágreining um félagsaðild þeirra sem heyra undir lögin, sbr. 2. mgr. 26. gr. Enn fremur er á valdsviði Félagsdóms að dæma í máli varðandi atriði, sem tilgreind eru í 1. mgr. 26. gr., sem ágreiningur er um milli fjármálaráðherra eða sveitarfélags annars vegar og hins vegar einstakra starfsmanna eða starfsmannahópa hins vegar svo sem nánar greinir, enda sé um það samkomulag milli aðila og að minnsta kosti þrír af dómendum séu því meðmæltir, sbr. 3. mgr. 26. gr. Telja verður að verkefni Félagsdóms samkvæmt lögum nr. 94/1986 séu tæmandi talin í 26. gr. laganna. Valdsvið dómsins, sem er sérdómstóll, ber að túlka þröngt.

Eins og fram er komið féllu heilsugæslulæknar utan laga nr. 94/1986 og voru seldir undir úrskurðarvald kjaranefndar að lögum með laun sín og starfskjör þegar sú ákvörðun var tekin sem er tilefni málshöfðunar þessarar. Samkvæmt því fellur utan valdsviðs Félagsdóms, eins og það er afmarkað samkvæmt 26. gr. laga nr. 94/1986, að dæma um þann ágreining sem uppi er í máli þessu. Ber því að vísa málinu frá Félagsdómi. Tekið skal fram, vegna tilvísunar stefnanda til dóma Félagsdóms í málunum nr. 6/1966 og nr. 2/1968, að þeir dómar geta ekki haft neitt fordæmisgildi í máli þessu, enda var lögskipan kjaramála opinberra starfsmanna og lagareglur að öðru leyti með allt öðrum hætti en við á í máli því sem hér er til meðferðar, sbr. m.a. lög nr. 55/1962 sem áður er getið.

Eftir þessum úrslitum ber að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 150.000 kr.

 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Læknafélag Íslands, greiði stefnda, íslenska ríkinu f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, 150.000 krónur í málskostnað.

 

Helgi I. Jónsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Kristján Torfason

Ásdís J. Rafnar

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta