Fundað um öryggismál í Norður-Evrópu
Á fundi norrænu varnarmálaráðherranna í fyrradag voru helstu umræðuefnin átökin í Úkraínu, aukið norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum og framtíð samstarfsins í ljósi umsóknar Finnlands og Svíþjóðar um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Í kjölfar fundarins var sameiginleg yfirlýsing ráðherranna gefin út þar sem áréttaður er stuðningur Norðurlandanna við Úkraínu og mikilvægi þess að halda áfram að þróa norrænt samstarf í varnarmálum.
Í gær komu svo varnarmálaráðherrar Norðurhópsins saman til að ræða átökin í Úkraínu, þróun öryggismála í Norður-Evrópu til viðbótar við eftirlit og vernd mikilvægra innviða. Norðurhópurinn gaf frá sér sameiginlega yfirlýsingu í lok fundarins þar sem ríkin ítreka samstöðu sína þegar kemur að öryggisógnum á svæðinu, stuðning sinn við Úkraínu og aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Norðurhópurinn er samráðsvettvangur tólf líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja í varnar- og öryggismálum. Norðurhópinn skipa Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin ásamt Bretlandi, Hollandi, Póllandi og Þýskalandi.
Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, sótti fundina fyrir hönd utanríksráðherra.