Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2012 Matvælaráðuneytið

G.P.G. fiskverkun ehf., kærir úthlutun byggðakvóta á Húsavík í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2011/2012.

Stjórnsýslukæra

    Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru G.P.G. fiskverkunar ehf., Suðurgarði, Húsavík sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi frá 26. júlí 2012, þar sem kemur fram að kærð sé til ráðuneytisins úthlutun byggðakvóta á Húsavík í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2011/2012. Með bréfi frá Þórði H. Sveinssyni, hdl. f.h. G.P.G. fiskverkunar ehf., dags. 9. ágúst 2012, sem barst ráðuneytinu 13. sama mánaðar, barst ráðuneytinu frekari rökstuðningur fyrir stjórnsýslukærunni.
    Stjórnsýslukæran er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess að úthlutun byggðakvóta á Húsavík í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 verði breytt á þann veg að ekki verði tekið tillit til grásleppu við útreikning landaðs afla samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012.


Málsatvik

    Málsatvik eru þau að hinn 26. október 2011 sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið tilteknum sveitarfélögum bréf og gaf sveitarstjórnum kost á að sækja um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 á grundvelli 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og gerði einnig grein fyrir hvaða skilyrði sveitarfélög yrðu að uppfylla fyrir úthlutun byggðakvóta, sbr. reglugerð nr. 1181/2011, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2011/2012. Umsóknarfrestur um úthlutun byggðakvóta var til 9. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 8. nóvember 2011, barst ráðuneytinu umsókn frá sveitarfélaginu Norðurþingi um úthlutun byggðakvóta til sveitarfélagsins.
    Hinn 21. desember 2011 gaf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út reglugerð nr. 1181/2011, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2011/2012, og einnig reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012 en umræddar reglugerðir voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda 22. desember 2011.
    Með bréfi, dags. 21. desember 2011, svaraði ráðuneytið umsókn sveitarfélagsins Norðurþings en þar kom fram að úthlutað hafi verið byggðakvóta til Norðurþings, samtals 357 þorskígildistonnum sem skiptust á byggðarlögin Húsavík, 197 þorskígildistonn, Kópasker, 66 þorskígildistonn og Raufarhöfn, 94 þorskígildistonn. Einnig kom fram í bréfi ráðuneytisins m.a. að samkvæmt 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012, giltu sömu skilyrði um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa í öllum byggðarlögum landsins. Frá þessum almennu reglum væri heimilt að víkja samkvæmt tillögum hlutaðeigandi sveitarstjórna enda rökstyðji sveitarstjórn tillögur sínar og sýni fram á að skilyrði sem hún leggi til séu byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Einnig var þar vakin athygli á breytingum sem höfðu verið gerðar á ákvæðum reglugerðar um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa með reglugerð nr. 1182/2011 miðað við eldri reglugerð um sama efni. Þá kom þar fram að ef sveitarstjórn vildi leggja til við ráðuneytið að sett yrðu sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu skyldi hún skila tillögum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 20. janúar 2012. Að liðnum framangreindum fresti myndi ráðuneytið fela Fiskistofu að auglýsa eftir umsóknum útgerða og úthluta til einstakra fiskiskipa samkvæmt þeim almennu reglum sem komi fram í viðkomandi lögum og reglugerðum.
    Með bréfi, dags. 19. janúar 2012, óskaði bæjarstjórn Norðurþings eftir því við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að tilteknar breytingar yrðu gerðar á reglugerð nr. 1182/2011 með auglýsingu um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í byggðarlögum sveitarfélagsins. Með bréfi, dags. 15. maí 2012, svaraði ráðuneytið bréfi sveitarstjórnar Norðurþings þar sem ekki var fallist á allar tillögur sveitarstjórnar og óskað eftir nýjum tillögum um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í sveitarfélaginu. Nýjar tillögur sveitastjórnar Norðurþings bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 11. júní 2012. Þann 27. júní 2012 staðfesti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 í nokkrum byggðarlögum, þ.e. Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn í Norðurþingi með auglýsingu (VII) nr. 551/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta en þar kom fram að reglur um úthlutun byggðakvóta í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 yrðu samkvæmt reglugerð nr. 1182/2011, með tilteknum breytingum sem ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.
    Með auglýsingu, dags. 28. júní 2012, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 29. sama mánaðar og einnig á vefsíðu Fiskistofu auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta í Norðurþingi, þ.e. á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 11. júlí 2012.
    Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátana Háey II ÞH-275 (2757), Lágey ÞH-265 (2651) og Jökul ÞH-259 (259) með umsóknum, dags. 6. júlí 2012.
    Hinn 12. júlí 2012 tilkynnti Fiskistofa útgerðum á Húsavík í Norðurþingi, m.a. kæranda, ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til báta í byggðarlaginu. Kæranda var tilkynnt að tiltekinn fjöldi þorskígildiskílóa hafi komið í hlut bátanna Háeyjar II ÞH-275 (2757), Lágeyjar ÞH-265 (2651) og Jökuls ÞH-259 (259). Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012 og auglýsingu (VII) nr. 551/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutn byggðakvóta.
    Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindum tilkynningum Fiskistofu um úthlutun eða höfnun umsókna um úthlutun.


Málsrök í stjórnsýslukæru o.fl.

    Með tölvubréfi frá 26. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu sama dag, kærði G.P.G. fiskverkun ehf. úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á Húsavík í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 þar sem þess var krafist að ekki yrði tekið tillit til grásleppu og grásleppuhrogna við ákvörðun um landaðan afla á tímabilinu 1. september 2010 til 31. ágúst 2011 samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, en þar koma fram viðmið um hvernig byggðakvóti sem úthlutað er til einstakra byggðarlaga skiptist á milli fiskiskipa í viðkomandi byggðarlögum. Með bréfi frá Þórði H. Sveinssyni, hdl. f.h. G.P.G. fiskverkunar ehf., dags. 9. ágúst 2012, barst ráðuneytinu frekari rökstuðningur fyrir stjórnsýslukærunni en þar segir m.a.:

"Eftir að hafa farið yfir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012 þar sem viðmið á lönduðum afla er fiskveiðiárið 2010/2011 telja forsvarsmenn kæranda að landaðri grásleppu og grásleppuhrognum sé bætt við landaðan afla sem tekinn er til viðmiðunar. Þetta veldur því að bátar sem stunduðu grásleppuveiðar fiskveiðiárið 2010/2011 fá hærra viðmið en þeir bátar sem ekki stunduðu grásleppuveiðar.
Fiskveiðiárið 2010/2011 var grásleppa ekki meðtalin til uppfyllingar á löndunar- og vinnsluskyldu og því er krafan sú að grásleppa og grásleppuhrogn verði tekin út úr viðmiði um landaðan afla fiskveiðiárið 2010/2011 fyrir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiársins 2011/2012."

    Umræddum rökstuðningi með stjórnsýslukærunni fylgdi ljósrit af stjórnsýslukæru kæranda til ráðuneytisins sem barst með tölvubréfi frá 26. júlí 2012.
    Með bréfi, dags. 15. ágúst 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
    Í umsögn Fiskistofu, dags. 27. september 2012, segir m.a. að ekki verði séð að kæran lúti að ákvörðun sem Fiskistofa hafi tekið. Einnig segir þar að Fiskistofa reikni út hlutdeildir og skiptingu byggðakvóta milli skipa þegar umsóknir liggi fyrir. Á grundvelli þeirra útreikninga sé viðkomandi umsækjanda tilkynnt með bréfi um úthlutað aflamagn eða eftir atvikum að umsókn hafi verið hafnað en að mati Fiskistofu sé það stjórnvaldsákvörðun en ekki útreikningurinn sem slíkur. Loks segir í umsögn Fiskistofu að hvað varði efnislegan þátt kærunnar vísi Fiskistofa til úrskurðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 14. júlí 2011, vegna úthlutunar byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012.
    Umsögn Fiskistofu, dags. 27. september 2012, fylgdi yfirlit um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2011/2012.


Rökstuðningur

     

I.    Með tölvubréfi frá 26. júlí 2012, var stjórnsýslukæra í máli þessu móttekin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem fór með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Einnig barst ráðuneytinu frekari rökstuðningur fyrir stjórnsýslukærunni frá Þórði H. Sveinssyni, hdl. f.h. kæranda með bréfi, dags. 9. ágúst 2012, sem barst ráðuneytinu 13. sama mánaðar. Með forsetaúrskurði nr. 99/2012, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð í nýtt ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, og tók úrskurðurinn gildi 1. september 2012. Úrskurður í máli þessu er því kveðinn upp af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem nú fer með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006 og tók við eldri málum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt þeim lögum.

II.    Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu byggir því að mati ráðuneytisins á því með sama hætti og gert er ráð fyrir í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið um úthlutun aflaheimilda eða höfnun umsókna um slíkar aflaheimildir í byggðarlögum til einstakra fiskiskipa til þess að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Einnig byggir kæruheimild samkvæmt ákvæðinu á því að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórnvöldum, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir m.a.:

"Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þau gilda þó ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla."

    Í tölvubréfi G.P.G. fiskverkunar ehf. til ráðuneytisins frá 26. júlí 2012 og rökstuðningi með stjórnsýslukærunni í bréfi Þórðar H. Sveinssonar, hdl. f.h. kæranda, dags. 9. ágúst 2012, eru ekki gerðar sérstakar kröfur sem lúta að tilteknum ákvörðunum Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til einstakra fiskiskipa. Í bréfunum felst hins vegar krafa um að breytt verði reglum um úthlutun byggðakvóta í Norðurþingi sem settar voru með reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Af bréfunum verður m.a. ráðið að þess sé krafist að ekki verði lagðar til grundvallar við úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa í Norðurþingi fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 þær reglur sem settar hafa verið í 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1182/2011.
    Engin heimild er í framangreindum ákvæðum 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða eða reglugerð nr. 1182/2011 til að kæra til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins framangreindar reglur samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 1182/2011.
    Þegar litið er til framanritaðs verður ekki séð að kröfur í máli þessu lúti að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1993. Þar sem setning reglna um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 með reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012, er ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi framangreindra ákvæða, er það mat ráðuneytisins að ekki liggi fyrir í máli þessu ákvörðun sem sé  kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 eða öðrum ákvæðum íslenskra laga.
    Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni hafi ekki þýðingu fyrir úrlausn þessa máls.
    Með vísan til framanritaðs er það mat ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru þessari.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Stjórnsýslukæru G.P.G. fiskverkunar ehf. í máli þessu er vísað frá.

Fyrir hönd ráðherra

Ingvi Már Pálsson.
Sigríður Norðmann.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta