SS kerrur ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu, um að fella niður úthlutun aflamarks byggðakvóta Blönduóss í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 til bátsins Smára HU-7, skipaskrárnúmer 6395.
Stjórnsýslukæra
Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.
Kröfur kæranda
Málsatvik
Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Smára HU-7 (6395) með umsókn til Fiskistofu, dags. 6. desember 2012.
Hinn 13. apríl 2012 tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðaraðilum í sveitarfélaginu Blönduósbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012 og auglýsingu (II) nr. 297/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Kæranda var tilkynnt að 23.096 þorskígildiskíló hafi komið í hlut bátsins Smára HU-7 (6395). Skiptingin kom fram á yfirlitsblaði sem fylgdi ákvörðuninni.
Einnig kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að þær væru kæranlegar til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá tilkynningum Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta eða höfnun umsókna um úthlutun.
Þá kom fram í ákvörðunum Fiskistofu að úthlutun fari ekki fram fyrr en að kærufresti liðnum, og að því tilskildu að skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 hafi verið uppfyllt.
Með bréfum, dags. 20. nóvember 2012, tilkynnti Fiskistofa kæranda og öðrum útgerðaraðilum á Blönduósi í Blönduósbæ að stofnunin hafi lokið úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012. Einnig gerði Fiskistofa grein fyrir hvort einstök skip hafi uppfyllt skilyrði um löndun afla til vinnslu í byggðarlaginu Blönduósi samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 og því magni aflamarks byggðakvóta sem yrði úthlutað til einstakra fiskiskipa. Í bréfi til kæranda, dags. 20. nóvember 2012 segir m.a. að eins og komi fram í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 13. apríl 2012, hafi 23.096 þorskígildiskíló verið ætluð skipinu Smára HU-7 (6395). Samkvæmt gögnum Fiskistofu hafði báturinn Smári HU-7 (6395) þann 31. ágúst 2012 engum afla landað í samræmi við skilgreiningu 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, og hafi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir að fá úthlutað framangreindu aflamarki en samkvæmt því var felld niður úthlutun þess aflamarks byggðakvóta sem úthlutað hafði verið til bátsins.
Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu en það ráðuneyti hafði þá tekið við verkefnum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sbr. nú forsetaúrskurður nr. 71/2013, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.
Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að báturinn Smári HU-7 (6395) hafi landað á markað en ekki til vinnslu og fái því ekki byggðakvóta. Ástæðan fyrir því að ekki hafi verið landað til vinnslu sé sú að ekki hafi náðst samkomulag við vinnsluna um verð og fyrirkomulag löndunar og sé unnt að leggja fram gögn því til staðfestingar. Fiskvinnslan á Blönduósi hafi farið fram á að kærandi leggði fisk inn á markað í nafni fiskvinnslunnar og greiddi fiskvinnslunni 90 kr. á hvert kíló sem sé óásættanlegt.
Engin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni.
Með bréfi, dags. 4. desember 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
Með bréfi, dags. 17. desember 2012, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið en þar segir m.a. að eins og komi fram í stjórnsýslukærunni hafi báturinn Smári HU-7 (6395) landað afla sínum á markað en ekki til vinnslu. Skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 hafi því ekki verið uppfyllt til þess að báturinn fengi úthlutun af byggðakvóta Blönduóss. Fiskistofa taki ekki afstöðu til þess hvers vegna umræddur bátur hafi ekki landað afla sínum til vinnslu. Slík ákvörðun sé alfarið á hendi útgerðar viðkomandi báts.
Umsögn Fiskistofu fylgdu eftirfarandi gögn í ljósritum: staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. nóvember 2012, eldri ákvörðun Fiskistofu, dags. 13. apríl 2012, umsókn kæranda, dags. 6. desember 2012 o.fl.
Með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 17. desember 2012, og veitti honum kost á að gera athugasemdir við hana. Frestur til þess var veittur til og með 7. mars 2013.
Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda um framangreinda umsögn Fiskistofu.
Rökstuðningur
Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2011 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. desember 2011. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.
Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2010 til 31. ágúst 2011. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður úthlutun til þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum.
Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök viðbótarskilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum, sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærileg ákvæði eru í 2. gr. reglugerðar nr. 1182/2011.
Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.
Í 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 er sambærilegt ákvæði og framangreint ákvæði en þar kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012 afla sem nemi, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt. Ráðherra er þó heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Í 2.-5. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eru ítarlegri ákvæði um efni og framkvæmd greinarinnar. Þá kemur fram í 6. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar m.a. að hafi skilyrði fyrir úthlutun aflamarks til einstakra fiskiskipa ekki verið uppfyllt að fullu í lok þess tímabils sem kemur fram í 1. mgr. greinarinnar, falli niður réttur til aflamarks í hlutfalli við það sem upp á vanti að skilyrði séu uppfyllt.
Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 með auglýsingu (II) nr. 297/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Þar segir m.a. að ákvæði reglugerðar nr. 1182 frá 21. desember 2011 gildi um úthlutun byggðakvóta Blönduósbæjar með þeim breytingum m.a. að ákvæði 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar breytist á þann veg að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan Blönduóss á tímabilinu frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012 afla sem nemi, í þorskígildum talið, jöfnu magni þess aflamarks sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt skv. vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem borist hafi Fiskistofu.
Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Blönduósi í Blönduósbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 1182/2011 og auglýsingu (II) nr. 297/2012.
Eins og kemur fram í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. nóvember 2012, hafði báturinn Smári HU-7 (6395) engum afla landað til vinnslu á Blönduósi í samræmi við framangreind ákvæði 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 og auglýsingar (II) nr. 297/2012 samkvæmt þeim upplýsingum sem skráðar eru hjá Fiskistofu, og byggðar eru á vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem hafa borist stofnuninni. Báturinn hafði samkvæmt því ekki uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun aflamarks byggðakvóta Blönduóss í Blönduósbæ í lok fiskveiðiársins 2011/2012 en þá féll niður réttur bátsins til úthlutunar aflamarksins, sbr. 6. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 1182/2011. Þegar af framangreindri ástæðu telur ráðuneytið ekki unnt að fallast á kröfur kæranda í máli þessu um að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. nóvember 2012.
Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður kæranda sem koma fram í stjórnsýslukærunni geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.
Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. nóvember 2012.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.