Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 15. apríl 2014 var tekið fyrir mál nr. 5/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

B hdl. hefur fyrir hönd A, hér eftir nefnd kærandi, , með kæru, dags. 6. febrúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 3. janúar 2014, þar sem umsókn kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda barns var synjað.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. desember 2012. Barn kæranda er með meðfæddan X sjúkdóm [...] sem veldur [...]. Barnið dvaldist endurtekið á spítala vegna veikindanna. Kærandi sótti um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og með bréfi sjóðsins, dags. 19. mars 2013, var samþykkt að framlengja fæðingarorlof hennar í þrjá mánuði vegna alvarlegs sjúkleika barns á grundvelli þágildandi 2. mgr. 17. gr. ffl.

Kærandi sótti á ný um framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þágildandi 1. mgr. 17. gr. ffl. vegna sjúkrahúsdvalar barns í beinu framhaldi af fæðingu með ódagsettri umsókn, mótt. 2. janúar 2014. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. janúar 2014, var synjað um framlengingu á grundvelli 2. mgr. 17. gr. ffl. þar sem búið var að veita hámarkslengingu vegna alvarlegs sjúleika barns í þrjá mánuði áður. Í bréfi Fæðingarorlofssjóðs var upplýst að hafi barnið dvalið á sjúkrahúsi frá fæðingu þurfi að berast vottorð um sjúkrahúsdvölina frá fæðingu og fram að fyrstu útskrift.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldrarorlofsmála með bréfi, dags. 6. febrúar 2014. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2014, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 24. febrúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. febrúar 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. mars 2014.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa eignast dóttur þann Y. desember 2012 en settur fæðingardagur hafi verið Y. janúar 2013. Líkt og fram komi í meðfylgjandi vottorði sérfræðilæknis hafi dóttir kæranda fæðst með sjúkdóminn X. Þar komi jafnframt fram að dóttir kæranda sé alvarlega fjölfötluð en sjúkdómur hennar feli í sér [...]. Með orðum læknisins þá gerist börn varla veikari og óljóst sé um lífslíkur hennar. Frá fæðingu hafi dóttir kæranda legið inni á spítala í um 160 daga. Hún hafi þó ekki dvalið inni strax frá fæðingu en slíkt sé nánast einsdæmi hvað varði þennan sjúkdóm og komi til af því að hún hafi ekki fæðst með neina útlitsgalla og X hafi ekki verið óeðlileg. Líkt og komi fram í áðurnefndu vottorði hefði hún legið inni á sjúkrahúsi fyrstu dagana hefði sjúkdómurinn greinst strax. Krampaeinkenni sjúkdómsins [...] hafi þó komið í ljós strax á fæðingardeildinni en kærandi hafi engu að síður verið send heim með dóttur sína.

Í þágildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof segi í 17. gr. að þurfi barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu, sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dveljist á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði. Ljóst sé að tilvik dóttur kæranda sé einstakt og algjört takmarkatilvik þar sem hún hafi fæðst með X sjúkdóm, sem því miður hafi ekki greinst á fæðingardeild. Hefði hún greinst hefði hún legið inni frá fæðingu, samanber meðfylgjandi vottorð sérfræðilæknis, en rökstuðningur hans sé jafnframt skilyrði samkvæmt ákvæðinu. Það hafi þó ekki liðið á löngu þar til dóttir kæranda hafi verið lögð inn á barnaspítalann og þar hafi hún legið inni í um 160 daga. Við þetta megi bæta að [...] áður en dóttir kæranda hafi fæðst hafi verið samþykkt á Alþingi lög um breytingu á lögum nr. 95/2000 og hafi heimild til að framlengja fæðingarorlof vegna alvarlegs sjúkleika barns aukin í allt að sjö mánuði. Þá hafi skilyrði laganna um sjúkrahúslegu í beinu framhaldi af fæðingu verið afnumið. Samkvæmt 8. gr. breytingarlaganna skyldu þau öðlast gildi þann 1. janúar 2013. Það sé því ljóst að ef dóttir kæranda hefði fæðst [...] síðar, t.a.m á settum fæðingardegi, hefði kærandi fengið orlofið framlengt um fjóra mánuði til viðbótar án vandkvæða í samræmi við vilja löggjafans sem hafi þó verið kominn skýrt fram áður en dóttir kæranda fæddist. Þá hefði dóttir kæranda einnig legið inni á sjúkrahúsi á þeim tíma, hefði sjúkdómur hennar greinst við fæðingu eins og vanalega sé með þennan sjúkdóm. Þá megi einnig nefna að sökum þess að dóttir kæranda sé með meðfæddan sjúkdóm hafi kærandi ekki sjúkdómatryggt hana en undir hana falli áfallatrygging, trygging vegna sjúkrahúslegu o.fl. Ástand dóttur kæranda sé grafalvarlegt og hafi reynst kæranda, sem sé ung móðir, mjög þungbært eins og gefi að skilja. Kærandi sé aðalumönnunaraðili dóttur hennar og hafi ástand hennar því einnig valdið kæranda miklum fjárhagserfiðleikum. Því óskar kærandi eftir endurskoðunar úrskurðarnefndarinnar með tilliti til einstakrar stöðu hennar vegna alvarlegrar fjölfötlunar dóttur hennar.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi telji sjóðinn hafa misskilið málsgrundvöll kæranda. Í kæru hafi komið fram að dóttir kæranda hafi legið inni á spítala í um 160 daga frá fæðingu en um það hafi verið lögð fram gögn. Hins vegar hafi hún ekki dvalið inni strax frá fæðingu en slíkt sé einsdæmi hvað varði sjúkdóm dóttur kæranda og komi til af því hversu einstakt tilfelli hún sé, en hún beri ekki útlitseinkenni sjúkdómsins og hafi því ekki verið greind samstundis. Líkt og fram komi í framlögðu sérfræðivottorði hefði dóttir kæranda legið inni á sjúkrahúsi frá fæðingu hefði hún verið réttilega greind við fæðingu en það sé vaninn varðandi þennan sjúkdóm. Kærandi áréttar að aðstæður dóttur hennar séu einstakar og tilvik hennar algjört takmarkatilvik.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að barn kæranda hafi fæðst þann Y. desember 2012 og hafi því reynt á þágildandi 1. og 2. mgr. 17. gr. ffl., sbr. 11. og 12. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í þágildandi 1. mgr. 17. gr. ffl. og 11. gr. reglugerðarinnar hafi komið fram að þurfi barn að dveljast á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu sé heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dveljist á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar komi meðal annars fram að upphaf greiðslna miðist við fæðingardag barns og lok þeirra við fyrstu heimkomu barns eftir fæðingu. Innritist barn að nýju á sjúkrahús veiti það ekki rétt til frekari framlengingar á greiðslum. Í þágildandi 2. mgr. 17. gr. ffl. og 12. gr. reglugerðarinnar hafi verið að finna heimild til að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að þrjá mánuði hafi verið um að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefðist nánari umönnunar foreldris.

Fæðingarorlofssjóði hafi borist tvö læknisvottorð vegna lengingar fæðingarorlofs, dags. 5. mars og 27. desember 2013, og bendir sjóðurinn á að ekki sé uppi ágreiningur að samkvæmt þeim sé um að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Í samræmi við það hafi kæranda verið sent bréf, dags. 19. mars 2013, þar sem umsókn hennar um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegs sjúkleika barns hafi verið samþykkt í þrjá mánuði samkvæmt þágildandi 2. mgr. 17. gr. laganna og 12. gr. reglugerðarinnar, sem sé hámarkslenging samkvæmt ákvæðunum. Í bréfinu hafi kæranda jafnframt verið leiðbeint um það í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þágildandi 1. mgr. 17. gr. laganna, sbr. 11. gr. reglugerðarinnar að hafi barnið dvalist á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu þurfi að berast læknisvottorð þar um. Í kjölfar læknisvottorðs, dags. 27. desember 2013, hafi kæranda verið sent nýtt bréf, dags. 3. janúar 2014, þar sem henni hafi verið synjað um frekari framlengingu fæðingarorlofs samkvæmt þágildandi 2. mgr. 17. gr. laganna, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar, þar sem búið hafi verið að veita hámarkslengingu. Áfram sé áréttað að hafi barnið dvalist á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu þurfi að berast læknisvottorð þar um.

Í kæru sé athygli vakin á breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem öðlast hafi gildi þann 1. janúar 2013. Af því tilefni þyki rétt að taka fram að með lögum nr. 143/2012 hafi ákvæði 1. og 2. mgr. 17. gr. ffl. verið sameinuð í eitt, sbr. 3. gr. laganna en þar komi meðal annars fram að heimilt sé að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um allt að sjö mánuði sé um að ræða alvarlegan sjúkleika barns eða alvarlega fötlun sem krefjist nánari umönnunar foreldris. Í 8. gr. laga nr. 143/2012 komi síðan fram að lögin öðlist gildi 1. janúar 2013 og eigi við um foreldra barna sem fæðist, séu ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2013 eða síðar. Þar sem barn kæranda hafi fæðst þann Y. desember 2012 sé ekki heimilt að beita ákvæðinu í tilviki þess. Hefði barnið hins vegar fæðst á árinu 2013 sé ljóst að Fæðingarorlofssjóður hefði veitt hámarkslengingu skv. 3. gr. laga nr. 143/2012 eða 7 mánuði.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um framlengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda barns sem fæddist þann Y. desember 2012.

Með lögum nr. 143/2012 voru gerðar breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Lögin öðluðust gildi 1. janúar 2013 og eiga við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur 1. janúar 2013 eða síðar, sbr. þó 7. gr. Barn kæranda fæddist þann Y. desember 2012 og eiga ákvæði laga nr. 143/2012 því ekki við í málinu. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að við mat á því hvort heimilt var að framlengja rétt kæranda til fæðingarorlofs verði að miða við ákvæði 17. gr. laganna eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 143/2012.

Hins vegar telur úrskurðarnefndin rétt að gefa sérstakan gaum að ástæðum þess að umræddar breytingar höfðu verið samþykktar þegar barn kæranda fæddist. Í greinargerð með ákvæði því sem innleiddi umræddar breytingar segir um þær:

Ástæða þessa er einkum sú að töluverðar breytingar hafa orðið á því hversu lengi mæður og nýfædd börn þeirra dvelja á sjúkrahúsi eftir fæðingu barnanna. Lengi tíðkaðist að mæður lægju inni á sjúkrahúsi með nýfædd börn sín í allt að sjö daga frá fæðingu þeirra en á síðustu árum hefur það orðið venja að mæður fari heim með börn sín innan sólarhrings frá fæðingu þeirra þegar allt virðist í lagi með bæði móður og barn. Er barnið þá undir eftirliti ljósmóður sem kemur heim til barnsins tvisvar á dag fyrstu dagana eftir heimkomu. Oft kemur alvarleg fötlun eða sjúkdómar, svo sem hjartagallar, ekki fram þegar við fæðingu en getur hins vegar komið fram á fyrstu dögunum í lífi barna sem greinast þá eftir að þau hafa farið í fyrsta skipti heim af sjúkrahúsi eftir fæðingu.

Í þágildandi 1. mgr. 17. gr. laganna kom fram að þyrfti barn að dvelja á sjúkrahúsi lengur en sjö daga í beinu framhaldi af fæðingu væri heimilt að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs um þann dagafjölda sem barn dveldi á sjúkrahúsi fyrir fyrstu heimkomu, allt að fjóra mánuði. Þá sagði í þágildandi 2. mgr. 17. gr. laganna að heimilt væri að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði ef um væri að ræða alvarlegan sjúkleika barns sem krefst nánari umönnunar foreldris.

Í málinu liggur fyrir að Fæðingarorlofssjóður samþykkti þann 19. mars 2013 að framlengja fæðingarorlof kæranda í þrjá mánuði vegna alvarlegs sjúkleika barns á grundvelli þágildandi 2. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Stendur ágreiningurinn í máli þessu því um hvort heimilt hafi verið að framlengja sameiginlegan rétt foreldra til fæðingarorlofs á grundvelli 1. mgr. ákvæðisins. Af hálfu kæranda hefur komið fram að að barn hennar hafi ekki dvalið á sjúkrahúsi strax frá fæðingu en slíkt sé nánast einsdæmi hvað varði sjúkdóm barnsins og komi til af því að barnið hafi ekki fæðst með neina útlitsgalla og X hafi ekki verið óeðlileg. Kærandi telur að um sé að ræða einstakt og algjört takmarkatilvik þar sem barnið hafi fæðst með X sjúkdóm sem því miður hafi ekki greinst á fæðingardeild. Það hafi þó ekki liðið á löngu þar til barnið hafi verið lagt inn á sjúkrahús þar sem hún hafi legið í um 160 daga.

Í málinu liggur fyrir trúverðugt og alveg afdráttarlaust læknisvottorð dr. D um að full þörf hefði verið talin á því að barnið lægi á spítala „til frekari uppvinnslu og meðferðar“ ef greining hennar hefði legið fyrir. Orðalag þágildandi 1. mgr. 17. gr. vísaði berum orðum til þarfar fyrir sjúkrahúsinnlögn, fremur en til innlagnarinnar sjálfrar. Með vísan til þessa og í ljósi þeirra breytinga á sjúkrahúsvist í tengslum við fæðingar almennt, sem áður er rakið að Alþingi hafði talið nauðsynlegt að bregðast við, telur nefndin að líta verði svo á að dóttir kæranda hafi uppfyllt skilyrði ákvæðisins um þörf fyrir sjúkrahúsvist í beinu framhaldi af fæðingu.

Í ljósi alls þessa, verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. janúar 2014, um synjun umsóknar A um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda barns er felld úr gildi.

Fallist er á að dóttir kæranda hafi við fæðingu uppfyllt skilyrði þágildandi 1. mgr. 17. gr. laga um fæðingarorlof til framlengingar fæðingarorlofs. Lagt er fyrir sjóðinn að taka mál kæranda fyrir á ný.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta