Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 88/2013

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 88/2013

 

Skolplagnir. Samþykkt á húsfundi.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 22. nóvember 2013, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 12. desember 2013, greinargerð gagnaðila, dags. 20. janúar 2014, viðbótargreinargerð gagnaðila, dags. 24. janúar 2014, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 4. febrúar 2014, athugasemdir gagnaðila, dags. 24. febrúar 2014, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 28. febrúar 2014, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 8. apríl 2014.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C í Reykjavík, alls átta eignarhlutar. Álitsbeiðandi er eigandi beggja eignarhluta í C D. Ágreiningur er um þátttöku í kostnaði vegna frágangs eftir fóðrun og viðgerðir á skolplögnum í húsum nr. E, F og G. 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi þurfi ekki að taka þátt í kostnaði við yfirborðsfrágang á gólfum íbúða í húsum nr. E, F og G.  

Að viðurkennt verði að undirskrift tiltekins einstaklings á fundargerð sé réttmæt.

Í álitsbeiðni kemur fram að mál þetta snúist um viðhald skolplagna í grunni húss nr. D og samskonar framkvæmda síðar í húsum nr. E, F og G. Álitsbeiðandi hafi farið í þessa framkvæmd í sínu húsi, nr. D, í þeirri trú að skolplagnir í sínum húsgrunni væru séreign og ótengdar öðrum húsum í húsalengjunni. Annað hafi svo komið í ljós við lok framkvæmdanna og að skolplagnir raðhúsalengjunnar hafi reynst vera sameign allra húseigenda. Þetta verk hafi verið unnið á haustdögum á árinu 2011.

Álitsbeiðandi greinir frá því að hann hafi farið þess á leit við B að það myndi úrskurða um hvort um séreign, sameign eða sameign sumra væri að ræða. Með aðstoð H séu allar skolplagnir húsanna skilgreindar sem sameign allra eigenda.

Vinna við lagnir í grunni húss nr. D hafi falist í hreinsun skolpröra og fóðrun þeirra. Í því hafi falist að brotinn hafi verið upp hluti af máluðu gólfi í þvottahúsi í kjallara, til að komast að enda aðalrörsins, sem liggi frá norðurenda og út í brunn á lóð við suðurenda hússins. Undir lok framkvæmdanna hafi þessum brunni verið skipt út fyrir nýjan. Gólf þvottahússins hafi síðan verið málað að frágangi rörsins og múrverki loknu. Álitsbeiðandi hafi ekki gert neinar kröfur á hendur B vegna þessa verks.

Á aðalfundi B þann 22. febrúar 2012 hafi álitsbeiðandi lagt fram munnlega ósk þess efnis að hann myndi ekki þurfa að taka þátt í mögulegum framtíðarkostnaði við skolplagnir í öðrum húsum, þar sem hann hafi verið búinn að taka þessar lagnir í gegn í sínu húsi á eigin kostnað. Sá fundur hafi samþykkt að hann þyrfti ekki að taka þátt í kostnaði við sambærilegar aðgerðir við skolplagnir í C E, F og G. Kannað hafi verið hvort það væri hægt að fá fundargerðinni þinglýst en svo hafi ekki reynst vera. Þá hafi verið ákveðið að fá undirskriftir allra húseigenda á fundargerðina og að þáverandi formaður hafi gengið með fundargerðina í hús og fengið umbeðnar undirskriftir.

Um vorið 2013 hafi eigendur húsanna C nr. E, F og G tekið sig saman og leitað tilboða í viðgerðir og fóðrun skolplagna í sínum húsum, og að hver og einn myndi bera kostnað í hlutfalli við sinn eignarhluta. Í þessu tilboði hafi verið tekið fram að yfirborðsfrágangur gólfa eftir mögulegt uppbrot væri ekki innifalinn í tilboðinu. Á þessum tímapunkti hafi verið búið að komast að því að öll vinna og efniskostnaður við skolplagnir utanhúss, á sameiginlegri lóð raðhúsalengjunnar, væri á kostnað allrar heildarinnar, þ.e. húsa nr. D, E, F og G. Álitsbeiðandi hafi ekki gert neinar athugasemdir við þetta og greitt sinn hluta í kostnaði við skolprör og brunn, utanhúss á sameiginlegri lóð allra húsa.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að forsaga málsins sé sú að á árinu 2011 hafi bilað heitavatnsrör í eignarhluta álitsbeiðanda og við það hafi gólfefni í íbúð hans skemmst. Tryggingafélag álitsbeiðanda hafi greitt fyrir endurnýjun á því gólfefni. Álitsbeiðandi hafi af þeim sökum nýtt tækifærið og ráðist í frekari framkvæmdir við frárennslislagnir og látið fóðra þær að innan. Álitsbeiðandi hafi talið lagnirnar tilheyra séreign sinni og hafi því ekki haft samráð við eigendur hússins heldur staðið fyrir framkvæmdinni sjálfur. Samkvæmt ráðleggingum verktaka hafi í leiðinni verið lokað fyrir rör sem hafi legið undir gólfinu í svefnherbergi íbúðarinnar, sem hafi virst þurrt, en enginn endi hafi fundist á rörinu, að sögn álitsbeiðanda. Eftir að rörinu hafi verið lokað hafi þó komið í ljós að það hafi legið yfir í næsta eignarhluta, C E, og flutt þaðan frárennsli að hluta. Lokun rörsins hafi haft í för með sér vatnstjón á jarðhæð C E. Í framhaldinu hafi eigendur kannað hvort lagnir í húsinu teldust sameign eða séreignir hvers eignarhluta. Það hafi verið afstaða B á þessum tíma að lagnir í hverju húsi hafi tilheyrt sameign sumra, þ.e. að um nokkrar mismunandi sameignir sumra væri að ræða, en óumdeilt sé í dag að lagnir í húsinu tilheyri sameign allra.

Eftir að í ljós hafi komið að tengsl hafi verið á milli lagna í húsunum, þ.e. eftir að lokið hafi verið við fóðrun frárennslislagna hjá álitsbeiðanda, hafi álitsbeiðandi óskað eftir því við B að það myndi greiða kostnað við þær framkvæmdir sem hann hafi ráðist í á eigin spýtur. Ekki hafi fengist samþykki fyrir því en eigendur hafi þó ákveðið að koma til móts við álitsbeiðanda með því að fella niður hlutdeild hans í kostnaði við sambærilegar framkvæmdir við frárennslislagnir í öðrum húshlutum.

Aðalfundur hafi verið haldinn í B þann 22. febrúar 2012. Fundargerð hafi ekki verið rituð á fundinum en hafi verið tekin saman eftir fundinn þar sem eigendur sjö eignarhluta af átta hafi staðfest fundargerðina með undirritun sinni, auk einstaklings fyrir hönd áttunda eignarhlutans, sá einstaklingur hafi á þeim tíma verið í skráðri sambúð með eiganda íbúðar á neðri hæð í C G. Í fundargerðinni segi meðal annars: „A[álitsbeiðandi] lagði fram ósk um að hann þurfi ekki að taka þátt í mögulegum framtíðarkostnaði í skólplögnum við aðrar íbúðir þar sem hann sé búinn að taka skólplögnina í gegn hjá sér. Spurning er hvort skólplagnir séu séreign, sameign eða sameign sumra. Fundurinn samþykkti að C D þurfi ekki að taka þátt í kostnaði við sambærilegar aðgerðir við skólplagnir í C E-G. Sjá fylgiblað 1 (bréf A til B dagsett 29. janúar 2012).“

Fram kemur að ágreiningur máls þessa snúist um hvort álitsbeiðandi sé, á grundvelli þessarar samþykktar, undanskilinn öllum kostnaði við frágang á gólfum í C E - G vegna framkvæmda við skolplagnir þar, en lagnir í þeim húsum hafi verið fóðraðar vorið 2013 í framkvæmd sem B hafi staðið fyrir. Framkvæmdinni hafi fylgt nokkuð uppbrot og skemmdir urðu á gólfefnum í þremur íbúðum. Álitsbeiðandi telur samþykkt B þann 22. febrúar 2012 ná yfir kostnað vegna frágangs á gólfum en aðrir eigendur mótmæla því. Á húsfundi þann 11. september 2013 hafi verið fjallað um ágreining máls þessa, en fundurinn hafi verið haldinn eftir að álitsbeiðnin hafði verið lögð fram.

Máli sínu til stuðnings vísar gagnaðili til þess að á aðalfundinum þann 22. febrúar 2012 hafi legið fyrir upplýsingar um að tryggingafélag álitsbeiðanda hefði, í kjölfar vatnstjóns í íbúð hans, samþykkt að greiða kostnað við endurnýjun gólfefna í eignarhluta hans. Hann hafi þá notað tækifærið og fóðrað frárennslislagnir hjá sér áður en gólfefnin hafi verið endurnýjuð. Því hafi hann eingöngu greitt fyrir fóðrun lagnanna en ekki frágang gólfa. Þetta hafi komið fram í bréfi álitsbeiðanda til B dagsett 29. janúar 2012 sem hafi verið lagt fram á fundinum. Eigendur hafi meðal annars byggt áðurnefnda fundarsamþykkt á þessum upplýsingum. Gagnaðili telur jafnframt að orðalag samþykktarinnar gefi ekki annað til kynna en að hún nái eingöngu til kostnaðar við skolplagnarinnar sjálfrar enda hafi þessi samþykkt orðið til vegna þess kostnaðar sem álitsbeiðandi hafi lagt út sjálfur, sem sagt eingöngu kostnaður við fóðrun lagna en ekki frágang gólfa.

Gagnaðili greinir frá því að meginregla, sbr. 5. mgr. 26. gr. laga nr. 26/1994, sé sú að húsfélag greiði kostnað við að koma séreign, svo sem gólfefnum, í samt horf og áður í kjölfar uppbrots sem fylgi viðhaldi á lögnum. Þessi kostnaður skuli því almennt teljast sameiginlegur kostnaður sem allir eigendur skuli taka þátt í. Á grundvelli samþykktar aðalfundarins þann 22. febrúar 2012 hafi kostnaður við fóðrun lagna í C E, F og G verið greiddur af eigendum þeirra húshluta og hafi álitsbeiðandi ekki tekið þátt í honum. Gagnaðili telur hins vegar ekki ástæðu til að álitsbeiðandi sé undanþeginn kostnaði við frágang á gólfum. Tillaga þar að lútandi hafi ekki verið samþykkt af meðeigendum álitsbeiðanda og telja þeir ekki að rök standi til að samþykkja slíka tillögu.

Að lokum bendir gagnaðili á að heimildir einstakra eigenda til að fá hlutdeild sína í sameiginlegum kostnaði lækkaða eða fellda niður feli í sér undantekningu frá meginreglum fjöleignarhúsalaga um greiðslu og skiptingu sameiginlegs kostnaðar. Því beri að túlka slíkar heimildir þröngt. Álitsbeiðandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi heimild til að standa utan við umræddan kostnað og gegn mótmælum annarra eigenda hússins sé ekki hægt að byggja á því að samþykkt hafi verið að kostnaðarhlutdeild hans vegna frágangs á gólfum yrði felld niður.

Hvað seinni kröfu álitsbeiðanda varði telur B að átt sé við undirskrift einstaklings á fundargerðina frá 22. febrúar 2012. Fram kemur að B dragi réttmæti hennar ekki í efa að svo stöddu.

Í athugasemdum álitsbeiðenda kemur fram að í greinargerð gagnaðila sé farið rangt með málsatvik. Rétt sé að vatnstjón af völdum bilaðs heitavatnsrörs í kjallaraíbúð hafi verið tilkynnt tryggingafélaginu þann 24. júní 2011. Af völdum þessa tjóns hafi verið skipt um gólfefni á baðherbergi, stofu, svefnherbergi og innri gangi. Að sjálfsögðu hafi tryggingafélagið þegar hafist handa við viðeigandi aðgerðir. Viðgerð hafi tekið talsverðan tíma, því þurrka hafi þurft vatnsaga sem hafi verið kominn í gólf og undir baðkar. Gengið hafi verið frá gólfi á baðherbergi og öðrum gólfum, stofu, herbergi og gangi í ágúst, en þetta hafi verið samfellt gólf. Þetta verk hafi verktakar unnið. Álitsbeiðandi hafi leitað eftir dagsetningum frá tryggingafélagi þar sem tilkynning um tjónið hafi borist 24. júní og tryggingafélagið hafi greitt síðasta reikning til verktaka þann 22. september 2008. Sá reikningur hafi sennilega verið fyrir málningu á vegg við inngang og inni á baðherbergi en það hafi verið síðasti iðnaðarmaðurinn sem hafi unnið verkefnið fyrir tryggingafélagið. Vinna við fóðrun skolplagna í C D hafi farið fram í október til nóvember 2011 samkvæmt reikningi dags. 10. nóvember, greiddur þann 15. nóvember. Álitsbeiðandi tekur fram að verktaki hafi brugðist strax við vatnsleka af völdum lokaðs rörs en að engin krafa um skaðabætur vegna þessa óhapps hafi komið fram.

Álitsbeiðandi greinir frá því að það sé ekki rétt sem komi fram í greinargerð gagnaðila um að álitsbeiðandi hafi farið fram á að B myndi greiða kostnað við skolplagnirnar. Álitsbeiðandi mótmælir því einnig að ekki hafi verið skrifuð fundargerð á fundinum þann 22. febrúar 2012. Í B hafi fundargerð ekki verið hreinrituð í fundarlok, heldur hafi fundarritari, yfirleitt formaður B, hripað niður atriði umræðna meðan á fundi standi og síðan ritað fundargerð eftir fundinn og borið hana upp á næsta fundi til athugasemda eða samþykktar. Þá telur álitsbeiðandi það ekki rétt sem fram kemur í greinargerð gagnaðila um að allir eigendur húsa nr. E, F og G hafi mótmælt áliti sínu. Fyrrum formaður B hafi áréttað að hann hafi ekki verið boðaður á húsfund þann 11. desember 2013 þar sem þetta deilumál hafi verið til umræðu, hann hafi verið eigandi efri hæðar C G þegar þetta mál hafi komið upp, og að hann muni sem slíkur standa fyrir þeim kostnaði sem falli til vegna málsins í fyllingu tímans. Af því tilefni telur álitsbeiðandi ályktanir og samþykktir húsfundarins markleysu enda hafi ekki verið búið að bera hann undir til samþykktar og undirritunar þegar þær hafi verið sendar sem fylgiskjal í þessu máli.

Álitsbeiðandi greinir frá því að vegna fyrirhyggju um viðhald húseignar sinnar hafi ekki þurft að brjóta upp gólf inni í íbúð hans heldur í þvottahúsi í kjallara. Þar hafi frágangur falist í fínpússun og málun á gólfinu.

Álitsbeiðandi fjallar um að hann hafi flutt í húsið snemma árs 1991. Hann hafi verið kosinn gjaldkeri og annar einstaklingur formaður. Þegar sú kosning hafi farið fram hafi ekki þótt ástæða til að kjósa meðstjórnanda eða endurskoðanda. Þess í stað hafi álitsbeiðandi lagt til að tekin yrði í gagnið húsfélagaþjónusta banka, þar sem öll peningamál myndu fara um reikninga B í bankanum. Í stað endurskoðanda hafi formaður B fengið lesaðgang til eftirlits með öllum reikningum B. Að þessu undanskildu hafi öll starfsemi B til skamms tíma verið heldur laus við form og festu enda fremur fábrotin í sniðum, þ.e. peningum safnað með húsgjöldum og viðbótargreiðslum við sérstök verkefni viðhalds og framkvæmda. Vegna ókunnugleika á lögum um fjöleignarhús hafi ýmsir húseigendur farið í framkvæmdir á sínu húsi, en það hafi aðallega verið viðgerðir á útitröppum. Af sömu ástæðu hafi komið upp ágreiningsefni vegna skemmda á íbúð og skorti á formlegum samskiptum þáverandi hússtjórnar og íbúðareiganda. Eitt mál af þessu tagi hafi komið upp hér og eftir samráð við H hafi það mál verið leyst með sátt og samlyndi síðustu hússtjórnar og íbúðareiganda. Í tilefni umsagnar um tillögu þess efnis að álitsbeiðandi væri undanþeginn þátttöku í kostnaði við frágang eftir gólfbrot og höfnunar hennar tekur álitsbeiðandi fram að engin tillaga þess efnis hafi verið rædd á húsfundum. Enda sé erindi sitt, sem tilgreint sé í fundargerð aðalfundar 22. febrúar 2012, ekki sundurgreint í verkþætti, heldur að hann „þurfi ekki að taka þátt í sambærilegum aðgerðum við skólplagnir í C E - G“. Þá vísist til 58. gr. laga um fjöleignarhús um undirskrift einstaklingsins.

Álitsbeiðandi greinir frá því að mergur málsins sé sá að við verklok skolplagna í lok maí 2013 hafi ekki legið fyrir umfang og kostnaður við frágang gólfefna í kjallaraíbúðum C E, F og G. Þáverandi stjórn B hafi sagt þetta vera hluti verkefnisins og þar af leiðandi á kostnað húseigenda í húsum nr. E, F og G sem í upphafi hafi sameinast um þessa framkvæmd. Þessu hafi sjálfskipaðir talsmenn hluta þessara húseigenda mótmælt, þ.e. þeir hafi ekki verið sammála stjórn B. Á húsfundi þann 15. júlí 2013 hafi umfang verkefnisins verið tilgreint. Á húsfundi þann 12. september 2013 hafi enn verið deilt um þetta mál. Á þeim fundi hafi formaður B sagt af sér enda búinn að selja íbúð sína og fluttur. Á þessum fundi hafi nýr formaður verið kosinn til næsta aðalfundar á árinu 2014. Síðan hafi haustið liðið og komið fram á vetur þegar loksins hafi fengist uppgefinn kostnaður við viðgerðir á umræddum gólfum, tilgreindur í tölvupósti 28. október 2013, og meðfylgjandi honum hafi verið óformleg krafa um greiðslu uppgefins kostnaðar úr hússjóði. Beiðni álitsbeiðanda um formlega framborna kröfu umræddra íbúðareigenda um greiðslu uppgefins kostnaðar úr hússjóði, staðfestri með undirskrift viðkomandi íbúðareigenda húsa nr. E, F og G hafi verið hafnað með tölvupósti þann 12. nóvember 2013.

Í athugasemdum gagnaðila segir að álitsbeiðandi hafi leiðrétt málsatvikalýsingu gagnaðila í athugasemdum sínum. Þar komi fram að vatnstjón í íbúð álitsbeiðanda hafi verið tilkynnt tryggingarfélagi í júní 2011 og að síðasti reikningur hafi verið greiddur verktaka sem hafi séð um frágang á gólfi á baðherbergi og öðrum gólfum, stofu, herbergi og gangi, sem og málun, þann 22. september 2008, væntanlega sé átt við 22. september 2011. Vinna við fóðrun frárennslislagna hafi hins vegar farið fram í október til nóvember 2011. Í athugasemdum álitsbeiðanda komi svo fram að ekki hafi þurft að brjóta upp gólf inni í íbúð hans við fóðrun frárennslislagna í eignarhluta hans, heldur í þvottahúsi í kjallara, og að frágangur þar hafi falist í fínpússningu og málun á gólfi. Samkvæmt upplýsingum gagnaðila sé gólf í þvottahúsi álitsbeiðanda steingólf og að niðurfall sé í gólfinu, sem hafi verið nýtt við fóðrunina.

Eigendur íbúða á þeim tíma sem þetta mál hafi komið upp, að frátöldum álitsbeiðanda þáverandi formanni B, séu sammála um að þegar ákvörðun hafi verið tekin á húsfundi þann 22. febrúar 2012, um að álitsbeiðandi myndi ekki þurfa að taka þátt í kostnaði við fóðrun frárennslislagna í C E - G, hafi þeir byggt á því að ekki hafi verið um neitt uppbrot að ræða á gólfum hjá álitsbeiðanda í tengslum við fóðrun frárennslislagna í eignarhluta hans. Fram hafi komið að álitsbeiðandi hafi sjálfur fullyrt þetta. Af þessum sökum hafi samþykkt húsfundarins aðeins verið látin ná til „sambærilegra aðgerða við skolplagnir í C E - G“, þ.e. fóðrunar lagnanna og aðrir eigendur hafi þá talið óumdeilt að álitsbeiðandi myndi taka fullan þátt í kostnaði við frágang á gólfum ef til uppbrots kæmi.

Gagnaðili bendir á að álitsbeiðandi hafi sjálfur tekið fram í athugasemdum sínum að engin tillaga þess efnis, að hann væri undanþeginn þátttöku í kostnaði við frágang eftir gólfbrot, hafi verið rædd á húsfundum. Þetta samræmist fullyrðingum gagnaðila um samþykkt húsfundarins 22. febrúar 2012 og inntaki hennar.

Gagnaðili greinir frá því að álitsbeiðandi hafi gert athugasemd við að fyrrum formaður B hafi ekki verið boðaður á húsfundi eftir að hann hafi selt íbúð sína í lok ágúst 2013. Félagsmenn í B séu eigendur hússins á hverjum tíma og engir aðrir, og séu réttindi og skyldur til þátttöku í húsfélagi órjúfanlega tengd eignarrétti að einstökum eignarhlutum, sbr. m.a. 56. gr. laga um fjöleignarhús. Þótt fyrrum formaður hafi vissulega verið eigandi þegar málið hafi fyrst komið upp þá geti hann ekki komið að ákvarðanatöku um það, eða annað á vettvangi B, eftir eigendaskiptin.

Þá greinir gagnaðili frá því að í athugasemdum álitsbeiðanda sé fjallað um ýmislegt fleira sem ekki tengist kröfum hans í málinu með augljósum hætti. Ágreiningur og kröfugerð álitsbeiðanda lúti að skyldu hans til að taka þátt í kostnaði við frágang á gólfum vegna uppbrots við fóðrun lagna, en ekki fjárhæð krafnanna, sem hafi ekki verið sérstaklega mótmælt fram til þessa. Aðild B að H, sem ákveðin hafi verið á grundvelli c-liðar 41. gr. laga um fjöleignarhús, sé máli þessu óviðkomandi, sem og ákvarðanir B um að nýta þjónustu þess. Í því sambandi megi nefna að stjórnarmenn þurfi almennt ekki að undirrita fundargerðir heldur sé gerð krafa um að fundarstjóri og minnst einn annar félagsmaður undirriti þær, sbr. 3. mgr. 64. gr. laga um fjöleignarhús.

III. Forsendur

Ágreiningur máls þessa snýst um hvort álitsbeiðanda beri að taka þátt í kostnaði sem er tilkominn vegna frágangs eftir uppbrot á gólfum í húsum nr. E til G. Uppbrot gólfanna var nauðsynlegt vegna viðgerða og fóðrunar á skolplögnum í þeim húsum. Óumdeilt er í málinu að skolplagnir hússins séu sameign.

Samkvæmt gögnum málsins voru skolplagnir fóðraðar að innan í grunni eignarhluta álitsbeiðanda á árinu 2011. Óumdeilt er að kostnaður vegna þeirra framkvæmda var ekki greiddur af B. Eftir að framkvæmdunum var lokið fór álitsbeiðandi þess á leit á aðalfundi B þann 22. febrúar 2012 að samþykkt yrði að hann myndi ekki þurfa að taka þátt í mögulegum framtíðarkostnaði vegna skolplagna í öðrum húsum enda hafi hann lokið við að taka skolplögnina í gegn hjá sér. Samkvæmt fyrirliggjandi fundargerð var samþykkt á aðalfundinum að álitsbeiðandi myndi ekki þurfa að taka þátt í kostnaði vegna sambærilegra aðgerða við skolplagnir í C E til G.

Á árinu 2013 var ákveðið að ráðast í framkvæmdir á skolplögnum hússins að undanskildum eignarhluta álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi hefur hafnað greiðsluþátttöku í þeim framkvæmdum með vísan til fyrrnefndrar samþykktar á aðalfundi B. Gagnaðilar telja orðalag samþykktarinnar ekki gefa annað til kynna en að einungis hafi verið samþykkt að álitsbeiðandi væri undanskilinn greiðsluþátttöku vegna fóðrunar lagna en ekki vegna frágangs á gólfum. Þá hafi tryggingafélag greitt kostnað vegna frágangs á gólfum hjá álitsbeiðanda.

Ljóst er að alla jafna sé ekki fyrir því lagastoð að kostnaður einstakra sameigenda eða hluta þeirra við eldri framkvæmdir hafi áhrif á greiðsluskyldu við síðar tilkomnar framkvæmdir og að hún ráðist af ófrávíkjanlegum reglum fjöleignarhúsalaga. Hefur kærunefnd staðfest það í fjölda álita. Í þessu máli háttar hins vegar þannig til að aðilar sýnast hafa samið fyrirfram á þann hátt að litið sé til kostnaðar vegna fyrri framkvæmda við síðari og sambærilegar framkvæmdir. Sýnist það vera óumdeilt. Í máli þessu kemur því til álita hvort framkvæmd í húsi álitsbeiðanda sé sambærileg þeirri framkvæmd sem átti sér stað í öðrum húsum lengjunnar. Að mati kærunefndar ber að líta heildstætt á framkvæmdirnar. Í báðum tilvikum er um að ræða fóðrun og viðgerð skolplagna. Óhjákvæmilega fylgir slíkum framkvæmdum frágangur í einhverjum mæli. Að mati kærunefndar bendir ekkert til þess að um frábrugðnar framkvæmdir hafi verið að ræða. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að frágangur eftir uppbrot á gólfum í húsum nr. E til G sé í beinu sambandi við viðgerðir og fóðrun skolplagnanna. Óumdeilt er að B hefur samþykkt að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði vegna sambærilegra aðgerða við skolplagnir í húsum nr. E til G og áttu sér stað í húseign hans. Í öllum tilvikum er óumdeilanlega um að ræða fóðrun og viðgerðir á skolplögnum og því telur kærunefndin að hinn umdeildi kostnaður sé kostnaður vegna sambærilegra aðgerða. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og fyrrnefndri samþykkt B telur kærunefnd að ekki sé rétt að hinn umdeildi kostnaður komi í hlut álitsbeiðanda að greiða. Þá telur kærunefndin að það hafi ekki þýðingu í máli þessu hvort tryggingafélag álitsbeiðanda hafi greitt kostnað vegna frágangs á gólfum í húsi hans.

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið er það álit kærunefndar húsamála að álitsbeiðanda beri ekki taka þátt í kostnaði vegna frágangs eftir uppbrot á gólfum vegna fóðrunar skolplagna í húsum nr. E, F og G.

Í máli þessu hefur álitsbeiðandi einnig farið fram á að viðurkennt verið að undirskrift tiltekins einstaklings á fundargerð aðalfundar B, dags. 12. febrúar 2012, verði viðurkennd sem réttmæt. Í greinargerð gagnaðila kemur fram að réttmæti undirskriftarinnar sé ekki dregið í efa að svo stöddu og því ekki um ágreining að ræða. Að því virtu telur kærunefnd ekki ástæðu til að fjalla um þá kröfu álitsbeiðanda.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði vegna frágangs eftir fóðrun skolplagna í húsum nr. E, F og G. 

Reykjavík, 8. apríl 2014

Auður Björg Jónsdóttir

Karl Axelsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta