Réttur til húsaleigubóta verður rýmkaður
Fleiri munu öðlast rétt til húsaleigubóta en nú er, samþykki Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um húsaleigubætur sem Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti ríkisstjórn fyrir helgi. Breytingarnar munu einkum nýtast námsmönnum og þeim sem halda tímabundnum afnotum af íbúðarhúsnæði í kjölfar nauðungarsölu sem þar með geta öðlast rétt til húsaleigubóta.
Leiga íbúðarhúsnæðis í kjölfar nauðungarsölu
Verði frumvarpið að lögum geta þeir átt rétt til húsaleigubóta sem misst hafa húsnæði sitt á nauðungarsölu, en búa þar áfram gegn greiðslu samkvæmt heimild í lögum um nauðungarsölu. Er litið svo á að þeir séu í sambærilegri stöðu og aðrir leigjendur íbúðarhúsnæði. Miðað er við að húsaleigubætur verði einungis veittar ef afnotin standa yfir í sex mánuði eða lengur, í samræmi við skilyrði laga um húsaleigubætur sem miðast við að húsaleigusamningur sé að minnsta kosti til sex mánaða.
Jafnræði þeirra sem stunda nám fjarri heimabyggð
Samkvæmt gildandi lögum er réttur til húsaleigubóta bundinn við að leigjendur eigi lögheimili í íbúðarhúsnæðinu sem þeir leigja. Þó er undanþáguákvæði frá þessu sem felur í sér að námsmenn geta átt rétt til húsaleigubóta stundi þeir nám og leigi húsnæði í öðru sveitarfélagi en þeir eiga skráð lögheimili. Samkvæmt frumvarpinu verður undanþáguheimildin jafnframt látin ná til leigjenda sem stunda nám innan þess sveitarfélags þar sem þeir áttu lögheimili er námið hófst þurfi þeir að búa annars staðar í sveitarfélaginu þar sem þeir geta ekki daglega sótt skóla frá lögheimili sínu vegna landfræðilegra aðstæðna, langra vegalengda eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
Í gildandi lögum er skilyrði fyrir húsaleigubótum að fyrir liggi þinglýstur húsaleigusamningur. Þetta hefur reynst vandkvæðum bundið hjá námsmönnum sem leigja herbergi eða íbúð á heimavist eða námsgörðum. Samkvæmt frumvarpinu verður veitt undanþága frá skilyrði um þinglýstan húsaleigumsamning við þessar aðstæður að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Auk þess er lagt til að sveitarfélagi verði heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um að húsaleigusamningur sé til sex mánaða eða lengri tíma þegar leigjandi stundar nám og leigusamningurinn miðast við eina námsönn, að lágmarki 13 vikur.