Vinnuhópur skipaður um veggjöld
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Kristján L. Möller, hefur skipað vinnuhóp til að fjalla um veggjöld. Tilgangurinn er að fá fram hugmyndir og ábendingar um hvaðeina er tengist fjármögnun samgönguframkvæmda til frambúðar.
Vinnuhópnum hefur verið falið að fjalla um kosti og galla þess að fjármagna vegaframkvæmdir með veggjöldum og kanna hvaða aðrar leiðir eru mögulegar til frambúðar til að standa undir fjárfestingum í vegakerfinu.
Vegagerðin og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stóðu á dögunum fyrir ráðstefnu um veggjöld og reynslu Norðmanna af þeim. Fimm sérfræðingar frá norsku vegagerðinni fluttu fyrirlestra um veggjöld og einkaframkvæmdir í norska vegakerfinu. Fram kom á ráðstefnunni að frumkvæði að verkefnum, sem kostuð eru allt að hálfu leyti með veggjöldum, kemur frá sveitarfélögum. Innheimtutíminn er yfirleitt 15 ár og stofnað er sérstakt fyrirtæki um hvert verkefni.
Um 50% innheimt með veggjöldum
Norðmenn hafa um 70 ára reynslu af innheimtu veggjalda. Lengi vel var einkum um brúartolla að ræða en á níunda áratugnum fjölgaði mjög verkefnum í almenna þjóðvegakerfinu sem fjármögnuð voru með veggjöldum og á síðari árum hafa einnig verið innheimt veggjöld á þéttbýlissvæðum. Norðmenn stefna á að um 50% framkvæmda í vegakerfinu verði á árunum 2010 til 2013 innheimt með veggjöldum.
Þá kom fram að í Tromsö var ekki talið fýsilegt að fjármagna verkefni með veggjöldum. Í þess stað er innheimt sérstakt gjald á eldsneyti, 50 norskir aurar.
Vinnuhóp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipa auk hans þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson, Höskuldur Þórhallsson og Róbert Marshall og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar. Hópurinn kom saman á fyrsta fund í dag og þar kynnti Hreinn Haraldsson vegamálastjóri helstu atriðin úr málflutningi Norðmanna á fyrrgreindri ráðstefnu.
Efni fyrirlestra ráðstefnunnar má sjá á vef Vegagerðarinnar.