Lyfjastofnun heimilað að beita dagsektum
Velferðarráðherra hefur sett reglugerð um heimild Lyfjastofnunar til að leggja dagssektir á eftirlitsskylda aðila brjóti þeir gegn ákvæðum lyfjalaga eða gegn ákvörðunum sem Lyfjastofnun hefur tekið á grundvelli laganna.
Með breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994 sem gerð var árið 2002 var ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð sem gerði Lyfjastofnun kleift að beita eftirlitsskylda aðila dagsektum við brotum gegn lögunum eða ákvörðunum sem Lyfjastofnun tekur á grundvelli þeirra. Samkvæmt lögunum skal í reglugerð kveðið á um nánari reglur um ákvörðun dagsekta. Lyfjastofnun hefur aldrei getað beitt umræddu ákvæði þar sem reglugerðina hefur vantað.
Velferðarráðherra hefur nú með reglugerðinni virkjað ákvæði laganna um dagssektir og þannig styrkt úrræði Lyfjastofnunar til að sinna virku eftirliti með starfsemi eftirlitsskyldra aðila.
Í 3. gr. lyfjalaga er tilgreint hverjir teljast eftirlitsskyldir aðilar.