Frumvarp um fyrirhugaðar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs
Eftirlit með starfsemi Íbúðalánasjóðs verður aukið, skýrari skilyrði sett við lánveitingum til uppbyggingar leiguhúsnæðis og heimildir sjóðsins til lánveitinga vegna kaupa á dýru íbúðarhúsnæði þrengdar samkvæmt frumvarpi til breytinga á lögum um húsnæðismál sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra mælti fyrir á Alþingi í liðinni viku. Með áformuðum breytingum er brugðist við athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við starfsemi Íbúðalánasjóðs.
Eftirlitsstofnunin beindi þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda 18. júlí 2011 að gera breytingar á ýmsum þáttum í starfsemi Íbúðalánasjóðs þannig að lánafyrirkomulag sjóðsins samræmdist skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Í tilmælunum kom fram það mat stofnunarinnar að Íbúðalánasjóður njóti ríkisaðstoðar í formi eigendaábyrgðar, vaxtaniðurgreiðslna, undanþágu frá arðsemiskröfu og greiðslu tekjuskatts.
Með frumvarpi til breytinga á lögum um húsnæðismál sem velferðarráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi er brugðist við tilmælum Eftirlitsstofnunar EFTA og tryggja að ríkisaðstoð við Íbúðalánasjóð samræmist reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hvað þetta varðar.
Helstu breytingar
- Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á starfsemi Íbúðalánasjóðs og eftirliti með starfseminni í samræmi við kröfur sem gerðar eru til fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um starfsemi þeirra.
- Lagt er til að lánveitingar Íbúðalánasjóðs til endurbóta, byggingar eða kaupa á íbúðarhúsnæði verði takmarkaðar við almenn lán til einstaklinga. Er þetta gert til samræmis athugasemdum um að lánastarfsemi til fyrirtækja, svo sem byggingaverktaka, samræmist ekki hlutverki Íbúðalánasjóðs.
- Lagt er til að lögfest verði ákvæði um að almenn lánveiting Íbúðalánasjóðs geti numið allt að 80% af matsverði íbúðar í stað 90% samkvæmt gildandi lögum. Þessi breyting mun að svo stöddu ekki hafa áhrif á lánveitingar sjóðsins þar sem þær miðast nú við 80% samkvæmt reglugerð. Þetta tekur hins vegar fyrir að lánshlutfallið verði aukið með reglugerðarbreytingu heldur mun það krefjast lagabreytingar verði frumvarpið samþykkt.
- Íbúðalánasjóði verður óheimilt að veita lán til kaupa á íbúðarhúsnæði þegar hámarksfjárhæð ÍLS-veðbréfa er lægri en 40% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Samkvæmt því mun sjóðurinn ekki veita lán til eigna þar sem fasteignamat er yfir 50 milljónir króna. Með þessu er komið til móts við athugasemdir um að lánveitingar til kaupa á mjög verðmætu húsnæði rúmist ekki innan félagslegra markmiða sjóðsins.
- Lánveitingar til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka vegna byggingar eða kaupa á leiguíbúðum verða skilyrtar því að félögin séu ekki rekin í hagnaðarskyni og hafi það sem langtímamarkmið að byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri leiguhúsnæðis. Þessar kröfur eru taldar samræmast reglum Eftirlitsstofnunar EFTA um ríkisaðstoð og geta miðað að því að auka framboð af leiguhúsnæði á viðráðanlegum kjörum. Með þessu móti verða lánveitingar vegna leiguíbúða og félagslegar lánveitingar færðar í einn flokk.
- Loks er samkvæmt frumvarpinu miðað við að eitt af verkefnum Íbúðalánasjóðs verði að eiga og reka leigufélag með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði en að rekstur þess verði aðskilinn hefðbundnum rekstri sjóðsins.