Verkefni á vegum Stafræns Íslands fá sjö tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna
Verkefni á vegum Stafræns Íslands fá sjö tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna
Verkefni sem Stafrænt Ísland vinnur að svo Ísland verði leiðandi í opinberri, stafrænni þjónustu fá sjö tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna, sem Samtök vefiðnaðarins (SVEF) veita á föstudag.
Þar á meðal er Ísland.is appið tilnefnt í flokknum App ársins og Ísland.is í flokknum opinber vefur ársins. Aðsókn að bæði vefnum og appinu hefur stóraukist. Árið 2022 fékk Ísland.is yfir 10 milljón heimsóknir og þeim stofnunum sem flytja efni sitt á vefinn fjölgar stöðugt en þær verða orðnar yfir 30 talsins í lok þessa árs. Þá hafa um 85 þúsund manns sótt Ísland.is appið.
Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að Ísland verði í fremstu röð í opinberri, stafrænni þjónustu og sýna kannanir að vinnunni miðar vel áfram. Stafræn þjónusta er þegar farin að einfalda líf fólks, spara tíma á sama tíma og þjónustan batnar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:
„Þessar tilnefningar sýna glöggt að stafræn umbreyting er á góðri leið. Tilnefningarnar eru hvatning fyrir alla sem koma að verkefnum Stafræns Íslands.“
Verkefnastofa um Stafrænt Ísland er hluti af fjármála- og efnahagsráðuneytinu og er þar unnið að því að bæta stafræna þjónustu hins opinbera.
Tilnefningarnar eru:
- Ísland.is appið í flokknum App ársins
- Ísland.is í flokknum Opinber vefur ársins
- Réttarvörslugátt í flokknum Stafræn lausn ársins
- Innskráning fyrir alla í flokknum Tæknilausn ársins
- Mínar síður Ísland.is í flokknum Vefkerfi ársins
- Innskráning fyrir alla í flokknum Vefkerfi ársins
- Umsóknarkerfi Ísland.is í flokknum Vefkerfi ársins
Að þessu sinni verða verðlaun veitt í 13 flokkum en fjöldi flokkanna endurspeglar breidd þeirra verkefna sem vef- og tækniiðnaðurinn á Íslandi kemur að.
Dómnefnd veitir þar að auki verðlaun fyrir verkefni ársins, hönnun og viðmót ársins og viðurkenningu fyrir gott aðgengi á vef. Þau verðlaun eru veitt verkefnum sem dómnefnd telur hafa skarað fram úr öðrum verkefnum.
Íslensku vefverðlaunin verða veitt í 22. skipti föstudaginn 31.mars nk. Samtök vefiðnaðarins (SVEF) eru fagsamtök þeirra er starfa að vefmálum á Íslandi en það er SVEF sem stendur fyrir verðlaununum.