Utanríkisráðherra á fundi útflutnings- og markaðsráðs
Ástandið í Úkraínu og mikilvægi friðar og alþjóðalaga voru helstu umfjöllunarefni í ávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á fundi útflutnings- og markaðsráðs í dag. Fundurinn fór fram í húsakynnum Íslandsstofu í Grósku.
„Þeir atburðir sem við horfum upp á í dag sýna okkur glöggt hvernig öryggishagsmunir okkar samtvinnast grundvallarhagsmunum Íslands á sviði viðskipta- og efnahagsmála,“ sagði hún meðal annars og bætti við: „Áherslur Íslands í utanríkismálum, þar með taldir viðskiptahagsmunir, hvíla á þeirri grundvallarstoð að regluverk alþjóðalaga sé virt. Þeir samningar sem við gerum til að leggja grunn að utanríkisviðskiptum hvíla á regluverki alþjóðalaga. Það sama er að segja um eitt fjöreggið okkar, efnahagslögsögu Íslands.“
Hún sagði ómögulegt að vita hvort eða hvaða áhrif þvingunaraðgerðir eða viðbúnar gagnaðgerðir kæmu til með að hafa á íslenska viðskiptahagsmuni. Það væri hins vegar ljóst að slíkur kostnaður væri smáræði í samanburði við mikilvægi þess að standa vörð um lýðræði og mannréttindi. „Það verður ekki settur verðmiði á öryggi, frelsi og réttlæti,“ sagði hún.
Utanríkisráðherra sagði einnig atburðina vera ákveðna brýningu um mikilvægi kjarnamarkaða íslenskra aðila í lýðræðis og bandalagsríkjum sem ekki væru háðir duttlungum valdhafa og þar sem réttarríki væri til staðar.
Þórdís Kolbrún nefndi að í útflutningsstefnu Íslands frá 2019 hafi verið sett það markmið að auka mætti útflutningstekjur á sviði hugvits, nýsköpunar og tækni um 400 milljarða króna á tíu árum. Útflutningur þessara greina mun samkvæmt spá Íslandsstofu nema 190 milljörðum króna á þessu ári í samanburði við 97 milljarða árið 2018 og nálgast þannig 100 milljarða aukningu.
Að sögn Þórdísar Kolbrúnar sýnir þessi staðreynd hversu miklir vaxtamöguleikar liggja í greinum sem byggjast á hugarafli, og eru sjálfbærar og umhverfisvænar. Þar að auki sé öflugt umhverfi nýsköpunar sveiflujafnandi í hagkerfinu.
Ráðherra sagði eitt af meginhlutverkum utanríkisþjónustunnar vera að greiða fyrir viðskiptum og skapa íslensku atvinnulífi sem hagstæðastar aðstæður í alþjóðaviðskiptum. Raunar væri það lögbundið hlutverk utanríkisþjónustunnar. „Eins og ég hef áður sagt þá stendur metnaður minn sem utanríkisráðherra til þess að beina kröftum mínum að viðskiptatengdum málum. Þetta á ekki síst við utanríkisviðskiptaumhverfi nýsköpunarfyrirtækja,“ sagði hún.