Nr. 297/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 10. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 297/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20040010
Beiðni […] um endurupptöku
I. Málsatvik
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála dags. 18. júlí 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2019, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júlí 2019. Þann 14. apríl 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku á framangreindum úrskurði kærunefndar og barst greinargerð sama dag ásamt fylgigögnum.
Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans er reist á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kærenda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á því að úrskurður kærunefndar í máli hans hafi verið byggður á röngum og ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi byggir á því að sú forsenda, sem kærunefnd og Útlendingastofnun hafi byggt niðurstöðu sína á, um að kærandi sé ríkisborgari Eþíópíu, sé röng. Kærandi hafi nú lagt fram vegabréf sem sómölsk yfirvöld hafi gefið út fyrir kæranda sem staðfesti auðkenni hans. Þetta vegabréf sýni fram á að fyrri ákvarðanir hafi byggt á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kærandi hafi alla tíð mótmælt því að hann sé eþíópískur ríkisborgari.
Kærandi byggir einnig á því að í ákvörðun Útlendingastofnun, sem staðfest hafi verið með úrskurði kærunefndar, komi fram að umsækjanda skuli vísað úr landinu eins fljótt og verða megi, til heimalands síns eða annars lands þar sem umsækjandi hafi löglega heimild til dvalar. Þrátt fyrir þetta hafi kæranda ekki verið vísað frá landinu. Íslenskum stjórnvöldum hafi ekki tekist að fá eþíópísk yfirvöld til að taka við kæranda enda sé kærandi ekki ríkisborgari þess lands. Þá hafi íslenskum stjórnvöldum ekki tekist að hafa upp á öðru landi þar sem kærandi hafi löglega heimild til dvalar. Á meðan dvelji kærandi við slæmar aðstæður með öðrum hælisleitendum við aðstæður sem vart séu hugsaðar til langtímadvalar. Kærandi hafi ekki leyfi til að stunda atvinnu hér á landi eða njóta annarra mannréttina sem hljótist af löglegri dvöl í landi.
Þá kveðst kærandi hafa verið í stöðugum tengslum við fjölskyldu manns, sem hann kveður vera bróður sinn hér á landi. Sá maður hafi hlotið alþjóðlega vernd hér á landi sem flóttamaður frá Sómalíu og sé í dag íslenskur ríkisborgari. Byggir kærandi á því að Útlendingastofnun véfengi ekki að þeir séu bræður, enda hafi þeir boðist til að fara í DNA próf. Stofnunin hafi ekki gert grein fyrir því hvernig á því standi að hún líti á sem svo að bróðir hans sé frá Sómalíu en kærandi frá Eþíópíu.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Um endurupptöku stjórnsýslumáls
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Kærunefnd kvað upp úrskurð í máli kæranda þann 18. júlí 2019. Með úrskurðinum komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti hvorki skilyrði 1. né 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því eigi hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi byggir beiðni um endurupptöku einkum á því að niðurstaða í máli hans hafi byggst á röngum upplýsingum um þjóðerni hans. Hjá Útlendingastofnun hafi verið byggt á því, þvert á andmæli kæranda, að hann væri ríkisborgari Eþíópíu. Kærandi hafi hins vegar haldið fram að hann sé frá Sómalíu. Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram vegabréf sem kærandi kveður að sómölsk yfirvöld hafi gefið út. Þá lagði hann fram kennivottorð frá Sómalíu. Við meðferð málsins óskaði kærunefnd eftir því að lögreglan á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á umræddum gögnum. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, dags. 21. maí sl., eru engin merki um fölsun að finna í gögnunum. Kærunefnd telur því rétt að skoða nánar gildi framlagningar vegabréfsins með tilliti til fyrri úrskurða kærunefndar í málum kæranda.
Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað heimildir um skilríki, útgefin af yfirvöldum í Sómalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Somalia: Identification documents, including national identity cards, passports, driver´s licences, and any other document required to access government services; information on the issuing agencies and the requirements to obtain documents (2013-July 2015) (Immigration and Refugee Board of Canada, 17. mars 2016);
- Somalia 2019 Human Rights Report (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
- Somalia – Folkbokföring, medborgarskap och identitetshandlingar (Lifos, 9. apríl 2019);
- The Swedish Migration Agency´s assessment of identity documents (Migrationsverket, https://www.migrationsverket.se/Privatpersoner/Bli-svensk-medborgare/Medborgarskap-for-vuxna/Styrkt-identitet/Migrationsverkets-bedomning-av-identitetsdokument.html sótt 2. september 2020) og
- Temanotat – Somalia, Identitetsdokumenter, sivilregistering og offentlig forvaltning (Landinfo, 6. mars 2020).
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda, dags. 17. apríl 2019, kom fram að við leit í Eurodac gagnagrunni þann 7. júlí 2017 hafi komið í ljós kærandi hefði áður sótt um alþjóðlega vernd í Danmörku og verið skráður þar undir nafninu […], fd. […], ríkisborgari Eþíópíu. Í úrskurði kærunefndar, dags. 18. júlí 2019, kom fram að kærandi hafi lagt fram ökuskírteini, fæðingarvottorð og kennivottorð. Hafi gögnin verið send til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum og var niðurstaðan að framlagt ökuskírteini væri falsað og að misræmi í stimplum á framlögðu fæðingar- og kennivottorði væri slíkt að fyrirvara þyrfti að setja á gildi þeirra. Í úrskurði kærunefndar kom fram að frásögn kæranda hafi tekið talsverðum breytingum eftir því sem liðið hafi á meðferð máls hans hjá íslenskum stjórnvöldum. Verulegt misræmi hafi verið í henni og hún stangast á við gögn sem Útlendingastofnun hafi aflað m.a. frá dönskum stjórnvöldum. Í úrskurðinum kemur fram að Útlendingastofnun hafi framkvæmt ýmis próf, svo sem aldursgreiningu og tungumála- og staðháttapróf. Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið leyst úr auðkenni hans á grundvelli trúverðugleikamats, og að stofnunin hafi lagt til grundvallar að kærandi væri frá Eþíópíu. Að mati kærunefndar hafi ekki verið talið tilefni til að draga í efa mat stofnunarinnar á þjóðerni kæranda og lagt til grundvallar að hann væri eþíópískur ríkisborgari.
Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram vegabréf og kenniskírteini, útgefin í Sómalíu. Kærunefnd óskaði eftir að fá vegabréfið og skilríkið afhent og sendi þau til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Með tölvupósti, dags. 4. maí 2020, óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum frá talsmanni kæranda. Óskað var eftir upplýsingum hvar vegabréfið hafi verið gefið út, hvernig kærandi hafi fengið það í hendur og hvers vegna kærandi hafi ekki lagt það fram fyrr. Í svari frá talsmanni kæranda, þann 11. maí s.á., kemur fram að kærandi hafi fljótlega eftir að kærunefnd hafi kveðið upp úrskurð sinn, dags. 18. júlí 2019, athugað möguleika á að fá útgefið vegabréf frá sómölskum yfirvöldum þrátt fyrir að hann væri staddur á Íslandi. Eftir nokkurn tíma, og eftir að hafa staðfest auðkenni kæranda með milligöngu leiðtoga ættbálka hans, hafi sómölsk yfirvöld fallist á að gefa út vegabréf fyrir kæranda. Vegabréfið hafi verið útgefið í Mogadishu í Sómalíu og sent til ættingja hans í Kenía sem hafi áframsent það til kæranda hér á landi. Samkvæmt upplýsingum úr framlögðu vegabréfi var það útgefið 30. nóvember 2019. Þann 25. maí 2020 bárust upplýsingar frá lögreglunni á Suðurnesjum um vegabréf og kenniskírteini kæranda. Í rannsóknarskýrslu, dags. 21. maí sl. kemur fram að enga fölsun sé að sjá í gögnunum, hvorki í vegabréfinu né kenniskírteininu. Í skýrslunni kemur fram að mörg öryggisatriði hafi verið skoðuð og sannreynd. Með tölvupósti, dags. 5. júní 2020, óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá kæranda um hvaða gögn hann hafi lagt fram í tengslum við umsókn um umrætt vegabréf. Í svari, dags. 9. júní 2020, kemur fram að samskipti kæranda við sómölsk yfirvöld og leiðtoga ættbálks hans hafi farið fram í gegnum fjarfundarbúnað og engin skrifleg gögn hafi verið lögð fram af hálfu kæranda.
Við meðferð máls kæranda hefur kærunefnd skoðað skýrslur um útgáfu vegabréfa og skilríkja í Sómalíu. Í skýrslu frá kanadíska innflytjenda- og flóttamannaráðinu (e. Immigration and Refugee Board of Canada) koma fram upplýsingar um að sækja þurfi um vegabréf í Sómalíu í eigin persónu. Í skýrslunni kemur auk þess fram að vegabréf sem sagt er að sé útgefið af sómölskum yfirvöldum séu ekki talin áreiðanleg og því sé ekki hægt að nota þau til að koma til Kanada. Þá viðurkenni ríkisstjórn Kanada ekki sómölsk vegabréf þar sem engir trúverðugir eða sannanlegir skráningaraðilar séu til útgáfu aðalskjala, s.s. fæðingarvottorða eða skrá yfir staðfestingu á ríkisborgararétti. Í ofangreindri skýrslu Lifos segir að umsækjendur um vegabréf í Sómalíu þurfi að fara í viðtal og leggja fram gögn, auk þess sem fingrafar sé tekið. Þá segir að í ljósi þeirrar spillingar sem ríki í tengslum við útgáfu skjala sem séu grundvöllur vegabréfa sé ekki talið unnt að treysta skjölum sem þaðan komi. Á heimasíðu sænska innflytjendayfirvalda (s. Migrationsverket) kemur fram að sómölsk vegabréf sem gefin séu út eftir janúar 1991 uppfylli ekki öryggiskröfur. Sómalíu hafi skort lögbær yfirvöld síðan í janúar 1991 til að gefa út löggild skjöl. Þá sé einnig þekkt að mikil viðskipti séu með sómölsk vegabréf og aðrar tegundir skjala. Önnur persónuskilríki sem gefin séu út í Sómalíu uppfylli heldur ekki öryggiskröfur sænskra innflytjendayfirvalda. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um ástand mannréttindamála í Sómalíu árið 2019 kemur fram að vegna svika (e. fraud) viðurkenni mörg ríki ekki vegabréf útgefin af sómölskum yfirvöldum. Í skýrslu Landinfo frá árinu 2020 kemur fram að yfirvöld í Sómalíu hafi hafið endurreisn stjórnsýslunnar frá árinu 2012. Þá hafi einhver ríki sambandsins komið á fót staðbundnum borgaraskrám og hafið útgáfu persónuskilríkja. Þar sem engin þjóðskrá eða miðlæg íbúaskrá sé til staðar sé ekki um samræmda starfshætti þessara stofnana að ræða og mismununandi geti verið á hverju slíkar skráningar byggist. Þá dragi skortur á viðeigandi skrásetningarbúnaði, víðtæk spilling og frændhygli ennfremur úr trúverðugleika og gildi almannaskráningar og útgefinna persónuskilríkja. Í skýrslu Landinfo kemur fram að þau gögn sem umsækjendur um sómölsk vegabréf þurfa að leggja fram séu; umsókn, passamyndir, sakavottorð (frá umsækjendum staðsettum í Sómalíu og aðrir séu teknir í viðtal í sendiráðum af aðilum með heimild frá öryggisþjónustu Sómalíu (e. National Intelligence and Security Agency, NISA), staðfesting á fæðingu/fæðingarvottorð (krafa um að slíkt stafi frá sómölskum stjórnvöldum), kenniskírteini eða staðfesting á ríkisfangi frá stjórnvöldum í Sómalíu eða næsta sómalska sendiráði. Þá eru teknar myndir og fingraför af viðkomandi, hann þarf að gefa undirskrift og greiða umsóknargjald. Umsækjandi þarf að koma sjálfur á staðinn annaðhvort til viðeigandi stjórnvalda í Sómalíu eða sendiráðs Sómalíu.
Eins og fram er komið hefur kærandi, frá komu hingað til lands, m.a. lagt fram fölsuð og ótraust skilríki. Á skilríkjunum, sem lágu fyrir við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar í máli kæranda, var kærandi skráður með fæðingardaginn […]. Við framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd í Danmörku kvaðst kærandi vera fæddur […], bera annað nafn en fram kemur á þeim gögnum sem hann hefur nú lagt fram, og vera ríkisborgari Eþíópíu. Samkvæmt framlögðu vegabréfi er kærandi skráður með fæðingardaginn […]. Þær heimildir sem kærunefnd hefur kynnt sér bera eins og áður greinir með sér að útgáfa vegabréfa í Mogadishu sé háð því að umsækjandi leggi fram umsókn um vegabréf í eigin persónu. Þá séu miklir fyrirvarar settir við vegabréf frá landinu í ljósi spillingar og svikastarfsemi í tengslum við útgáfu skilríkja og auðkennisskjala. Kærandi kveðst hafa sótt um vegabréfið hér á landi og án þess að hafa lagt fram nokkur gögn. Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndar að framlagt vegabréf og kennivottorð sýni ekki fram á að kærandi sé ríkisborgari Sómalíu.
Kærandi hefur jafnframt borið fyrir sig að hann eigi bróður hér á landi og að sá aðili hafi fengið alþjóðlega vernd sem flóttamaður frá Sómalíu. Kærunefnd óskaði eftir gögnum frá Útlendingastofnun varðandi ætlaðan bróður kæranda. Í svari stofnunarinnar, þann 1. september 2020 kemur fram að sá aðili hafi fengið vernd á grundvelli fjölskyldusameiningar við þáverandi eiginkonu sína, sbr. 4. mgr. 46. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Á þessum tíma hafi ekki verið gerð sérstök könnun á ríkisfangi umsækjanda né eiginkonu hans. Að því virtu verður ekki talið að frásögn kæranda af því að umræddur maður sé bróðir hans leiði til þess að fallist verði á að kærandi sé ríkisborgari Sómalíu.
Með hliðsjón af öllu framangreindu, viðtölum við kæranda hjá kærunefnd og Útlendingastofnun, því trúverðugleikamati sem fram fór á fyrri stigum málsmeðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd er talið að frásögn kæranda um að hann komi frá Sómalíu og sé sómalskur ríkisborgari sé ótrúverðug og að framlagt vegabréf breyti engu hvað það mat varðar. Er því lagt til grundvallar að kærandi sé eþíópískur ríkisborgari líkt og gert var í úrskurði kærunefndar í máli kæranda frá 18. júlí 2019.
Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 18. júlí 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.
Úrskurðarorð
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine the case is denied.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir