Nr. 242/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 30. júní 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 242/2022
í stjórnsýslumálum nr. KNU22060010 og KNU22050049
Beiðni […] um endurupptöku og frestun réttaráhrifa
I. Málsatvik og málsmeðferð
Hinn 19. maí 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2022, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fædd […], og vera ríkisborgari Nígeríu, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 23. maí 2022. Hinn 30. maí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Hinn 7. júní 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum.
Kærandi krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hún fari með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá byggir kærandi endurupptökubeiðni sína á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún telur að atvik hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.
Í greinargerð kæranda kemur fram að frá þeim tíma er kærunefnd útlendingamála hafi staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar hafi orðið verulegar breytingar á atvikum sem ákvörðunin hafi byggt á sem kærandi telji að leiða skuli til endurupptöku í máli hennar. Útlendingastofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi hvorki hljóta alþjóðlega vernd hér á landi sem flóttamaður samkvæmt 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga né heldur að skilyrði til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. sömu laga væru uppfyllt. Þá niðurstöðu hafi kærunefnd útlendingamála staðfest. Niðurstaðan byggi m.a. á því að kærandi eigi þess kost að snúa aftur til heimaríkis og að aðstæður hennar þar uppfylli ekki skilyrði laga um útlendinga til að kærandi teljist flóttamaður og skuli hljóta alþjóðlega vernd hér á landi. Hinn 31. maí 2022 hafi forsætisráðherra Íslands lýst því yfir að ekki væri verið að senda fólk til Nígeríu. Að sama skapi hafi hún sagt í svari við fyrirspurn um hvort fyrirhugaðar brottvísanir yrðu stöðvaðar að það yrði metið út frá aðstæðum hvers og eins. Samkvæmt framangreindu telur kærandi að breyting hafi orðið frá því að ákvörðun kærunefndar hafi verið tekin í máli hennar hinn 19. maí 2022 sem leiða skuli til þess að hún verði ekki send aftur til heimaríkis. Byggir kærandi á því að í framangreindum ummælum felist staðfesting á því að aðstæður í Nígeríu séu slíkar að stjórnvöldum sé ótækt að vísa umsækjendum um alþjóðlega vernd þangað án þess að gerast brotleg gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um útlendinga og alþjóðlegum samningum. Þá staðfesti framangreint að stjórnvöld muni ekki vísa kæranda til Nígeríu vegna aðstæðna þar. Með vísan til framangreinds telur kærandi að grundvallarbreyting hafi orðið á atvikum sem liggi að baki ákvörðun í máli kæranda og er því þess krafist að mál hennar verði tekið til meðferðar á ný á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Kærandi gerir í greinargerð sinni jafnframt kröfu um frestun réttaráhrifa endanlegrar ákvörðunar á stjórnsýslustigi í máli hennar á meðan hún beri málið undir dómstóla. Kærandi geti ekki unað ákvörðun stjórnvalda og telji hana byggja á röngum forsendum. Meðal þess megi nefna staðhæfingu kærunefndar um að kærandi eigi stuðningsnet í Nígeríu, en það sé í andstöðu við framburð hennar. Þá telji kærandi að þau úrræði sem kærunefnd kveður vera til staðar í Nígeríu dugi skammt þegar fjármagnið þar að baki sé takmarkað og að raunveruleg vernd þolanda mansals sé ekki virk. Í besta falli biði kæranda fátækt, engin menntun og atvinna og óviðunandi lífsskilyrði færi hún aftur til Nígeríu. Kærandi telur að þar sem ítölsk stjórnvöld hafi viðurkennt stöðu hennar sem flóttamaður sé búið að taka afstöðu til aðstæðna hennar í heimaríki og staðfesta að hún uppfylli skilyrði alþjóðlegrar verndar samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um flóttafólk. Kærandi byggir á því að gagnstæð niðurstaða íslenskra stjórnvalda þurfi að vera skilmerkilega rökstudd um það hvers vegna stjórnvöld telji að aðstæður hennar í Nígeríu séu betri í dag en þegar flóttamannsstaða hennar hafi verið viðurkennd á Ítalíu árið 2019. Ekki sé að sjá að tekin sé afstaða til þessa í ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði kærunefndar. Kærandi telur að skortur á framangreindri umfjöllun megi rekja til þess að þetta hafi ekki verið rannsakað sérstaklega og þannig hafi málið ekki verið nægilega upplýst þegar ákvörðun hafi verið tekin í því. Af því leiði að brotið hafi verið gegn rannsóknarskyldu stjórnvalda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga.
Í gögnum sem kærandi hafi lagt fram hjá kærunefnd liggi fyrri að sendinefnd Nígeríu í Dyflinni heimsæki Ísland með óreglulegum hætti þar sem nígerískum ríkisborgurum bjóðist að sanna á sér deili og hljóta í kjölfarið gild persónuskilríki. Kærandi telur að í ljósi þess tíma sem mál hennar hafi dregist vegna seinagangs íslenskra stjórnvalda beri að gefa henni tækifæri á að afla sér auðkenna sem myndu leiða til þess að hún uppfylli skilyrði til að hljóta dvalarleyfi af mannúðarástæðum samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi krefjist því að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í máli hennar verði frestað þannig að hún eigi kost á að bera mál sitt undir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
- Beiðni um endurupptöku
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 19. maí 2022, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi byggir á því að forsætisráðherra Íslands hafi lýst því yfir hinn 31. maí 2022 að ekki sé verið að senda fólk til Nígeríu. Því til stuðnings lagði kærandi fram skjáskot af fréttagrein á vefsíðu Morgunblaðsins með fyrirsögninni: „Senda fólk ekki til Nígeríu og Ungverjalands“. Telur kærandi með vísan til fréttagreinarinnar að breyting hafi orðið á atvikum málsins frá því að ákvörðun kærunefndar hafi verið tekin.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga er kærunefnd sjálfstæð stjórnsýslunefnd og sem slík er hún ekki bundin af orðum embættismanna í almennri opinberri umræðu. Ljóst er að framangreind orð forsætisráðherra eru hvorki réttarheimild sem kærunefnd getur byggt niðurstöðu sína á né yfirlýsing um stefnubreytingu íslenskra stjórnvalda heldur fremur almennt svar við fyrirspurn blaðamanns. Tafir á endursendingu fólks til Nígeríu hefur ekki áhrif á efnislega niðurstöðu kærunefndar í málum er varða nígeríska ríkisborgara enda byggjast slíkar ákvarðanir á lögum um útlendinga. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 19. maí 2022 var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
- Krafa um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar útlendingamála samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga
Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum kæranda af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi kæranda óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi kæranda að dómstólum, hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega eða hvort þörf sé á sérstakri varúð, m.a. með tilliti til hagsmuna barna. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.
Í beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa kemur fram að sendinefnd frá nígeríska sendiráðinu í Dyflinni heimsæki Ísland með óreglulegum hætti þar sem nígerískum ríkisborgurum bjóðist að sanna á sér deili og hljóta í kjölfarið gild persónuskilríki. Kærandi krefjist því þess að fá að vera hér á landi þangað til tækifæri gefist til að afla sér persónuskilríkja. Máli sínu til stuðnings hefur kærandi lagt fram afrit af tölvubréfum milli sín og nígeríska sendiráðsins í Dyflinni. Í tölvubréfunum kemur fram að aðilar á vegum sendiráðsins hafi ferðast til Íslands til að veita nígerískum ríkisborgurum hér á landi nígerísk vegabréf. Almennt sé nígerískum ríkisborgurum hér á landi tilkynnt um heimsóknina og þeim leiðbeint um að sækja um vegabréf. Þá telur kærandi að sönnunarmat og niðurstaða kærunefndar í máli hennar varðandi fjölskyldutengsl hennar í heimaríki og þau úrræði sem í boði séu fyrir þolendur mansals byggi á röngum forsendum.
Í umræddum tölvubréfum frá nígeríska sendiráðinu í Dyflinni kemur ekki fram staðfesting á því hvenær starfsmenn nígeríska sendiráðsins hyggist ferðast til Íslands til að veita nígerískum ríkisborgurum tækifæri á að öðlast vegabréf. Líkt og að framan greinir er heimild kærunefndar til að fresta réttaráhrifum úrskurðar nefndarinnar bundin því skilyrði að aðili máls fari með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Af þeim sökum verður réttaráhrifum úrskurðar kæranda ekki frestað á þeim forsendum að veita þurfi kæranda tækifæri til að öðlast skilríki frá nígerískum yfirvöldum. Kærunefnd horfir einkum til þess að kæranda stendur annars vegar til boða að öðlast vegabréf í heimaríki sínu og hins vegar í sendiráðum Nígeríu á Ítalíu þar sem hún nýtur alþjóðlegrar verndar og heimildar til dvalar. Jafnframt eigi kærandi kost á að ferðast hingað til lands frá Ítalíu á grundvelli ferðafrelsis EES til að vera viðstödd réttarhöld í máli sínu hér á landi. Þá er kæranda leiðbeint um að takist henni að afla vegabréfs eða annarra skilríkja sem til þess eru fallin að sanna auðkenni hennar með fullnægjandi hætti getur hún lagt fram beiðni um endurupptöku að nýju hjá kærunefnd.
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 19. maí 2022, var tekin afstaða til málsástæðna kæranda varðandi umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og komist að niðurstöðu um að synja umsókn hennar. Kærunefnd ítrekar það sem kemur fram í úrskurði í máli kæranda að athugun nefndarinnar hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að ætla að aðstæður í heimaríki séu þess eðlis að endursending kæranda þangað sé í andstöðu við 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur að gögn sem kærandi lagði fram með beiðni um frestun réttaráhrifa séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að þau breyti niðurstöðu nefndarinnar varðandi þetta mat. Í samræmi við framangreint er það jafnframt mat kærunefndar að kærandi eigi ekki á hættu að verða fyrir óafturkræfum skaða snúi hún aftur til heimaríkis.
Tiltölulega skammur tími er liðinn síðan nefndin úrskurðaði í máli kæranda. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að aðstæður kæranda eða aðstæður í ríkinu, sem vísa á kæranda til, hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málinu á þann hátt að nefndin telji að það gæti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Í því sambandi er tekið fram að nefndin hefur kynnt sér þau gögn sem fylgdu beiðni um frestun réttaráhrifa. Eftir skoðun á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa telur kærunefnd að athugasemdir sem þar koma fram varðandi málsmeðferð og efnislegt mat kærunefndar í málinu séu ekki þess eðlis að ástæða sé til að ætla að niðurstaða kærunefndar í málinu sé haldin annmarka sem leitt gæti til ógildingar úrskurðarins.
Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að ekki sé ástæða til að fallast á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa úrskurðar kærunefndar í máli hennar.
Kærunefnd leggur áherslu á að mál þetta snýst um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar í því skyni að bera mál undir dómstóla, en ekki hvort skilyrði frestunar framkvæmdar með vísan til lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi, m.a. í ljósi Covid-19 faraldursins. Kæranda er leiðbeint um að berist henni boð um flutning til heimaríkis eða annars ríkis þar sem hún hefur rétt til dvalar er henni heimilt að vekja athygli kærunefndar á því en kærunefnd getur þá ákveðið að fresta framkvæmd úrskurðar, sbr. framangreint ákvæði, séu skilyrði til þess uppfyllt.
Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra ástæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.
Samantekt
Samkvæmt framansögðu eru hvorki forsendur til að endurupptaka mál kæranda á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né fresta réttaráhrifum samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa er hafnað.
The appellant’s request to re-examine the case is denied.
The appellant’s request for suspension of legal effects is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir