Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2018 Innviðaráðuneytið

Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélög skrifuðu undir nýja samstarfssamninga

Fulltrúar atvinnuþróunarfélaga og Byggðastofnunar skrifuðu undir samninga í dag. - mynd

Fulltrúar Byggðastofnunar og átta atvinnuþróunarfélaga um land allt skrifuðu í dag undir nýja samstarfssamninga til næstu fimm ára. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var viðstaddur undirritunina og sagði hann það eindreginn vilja ríkisstjórnarinnar að efla byggðamál og tryggja búsetu vítt og breitt um landið.

Samningarnir byggjast á samtali Byggðastofnunar og félaganna á síðastliðnu starfsári. Í nýjum samningum er leitast við að taka mið af breyttu starfsumhverfi félaganna en á liðnum árum hefur hlutverk atvinnuráðgjafarinnar breyst frá því að veita fyrst og fremst einyrkjum og litlum fyrirtækjum rekstrarráðgjöf í það að þjónusta einyrkja, stór og lítil fyrirtæki og sveitarfélög. Félögin hafa í vaxandi mæli tekið að sér að leiða saman aðila í fjölbreytileg verkefni. Það form sem atvinnuþróunarfélögin starfa í þarf að vera lifandi og taka breytingum í takt við þarfir hvers tíma.

Verðmæt þekking í atvinnuráðgjöf

Sigurður Ingi sagði þegar sjást í fjárlögum ársins aukin framlög til samgöngumála, heilsugæslustöðva á landsbyggðinni og til menntamála. Framundan væri gerð fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar sem yrði lögð fram í mars og þar muni einnig sjást enn betur áform ríkisstjórnarinnar um þessi mál sem önnur. Þá sagði ráðherra að meðal verkefna sem tengist sveitarstjórnar- og byggðamálum með beinum í hætti í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar væri að skilgreina hlutverk landshlutasamtaka, styrkja sóknaráætlanir, nýta námslánakerfið og önnur kerfi sem hvata til að setjast að í dreifðum byggðum, ljúka ljósleiðaravæðingu og að innanlandsflug yrði hagkvæmari kostur fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Sagði hann vert að þakka atvinnuþróunarfélögunum fyrir aðkomu þeirra að þeim þætti.

Sigurður Ingi Jóhannsson flutti ávarp við athöfnina í dag.

Ráðherra sagði atvinnuráðgjöf búa yfir verðmætri þekkingu á nærumhverfinu og myndi tengslanet um landið allt. Einnig sagði hann nú unnið að gerð byggðaáætlunar og væri sérstök áskorun að samþætta byggðamál við aðra málaflokka í öðrum.

Í ávarpi Aðalsteins Þorsteinssonar, forstjóra Byggðastofnunar, við athöfnina kom fram að sjálfstæði félaganna væri mikilvægt og að þau lytu ekki boðvaldi Byggðastofnunar eða ríkisins eða einstakra sveitarfélaga. Á hinn bóginn hljóti ríkisvaldið að gera kröfur um að tilteknum reglum og lágmarksviðmiðum sé fylgt um ráðstöfun þess fjár sem það lætur af hendi rakna til verkefna í byggðarlögunum. Í nýju samningunum er því skerpt á viðmiðum um árlega markmiðssetningu og mat á árangri af starfinu auk þess sem fjallað er um útvistun á starfi atvinnuráðgjafarinnar og fleira mætti nefna.

Fulltrúar atvinnuþróunarfélaga, Byggðastofnunar og ráðuneytisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta