Nr. 52/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 25. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 52/2023
í stjórnsýslumálum nr. KNU22120051 og KNU22120052
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 13. desember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Íraks (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. desember 2022, um að taka ekki til meðferðar umsókn hans, dags. 5. nóvember 2022, um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Ráða má af kæru að kærandi krefjist þess að umsókn hans um alþjóðlega vernd frá 5. nóvember 2022 verði tekin til meðferðar hér á landi. Þá krefst kærandi frestunar á framkvæmd úrskurðar kærunefndar nr. 257/2022 frá 30. júní 2022.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 18. janúar 2022. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum 31. janúar 2022 kom í ljós að fingraför hans höfðu m.a. verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Frakklandi. Hinn 9. febrúar 2022 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá frönskum yfirvöldum, dags. 22. febrúar 2022, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. 15. mars 2022, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 30. maí 2022 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 31. maí 2022 og kærði kærandi ákvörðunina 1. júní 2022 til kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði sínum, dags. 30. júní 2022, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar. Hinn 5. nóvember 2022 lagði kærandi að nýju fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi. Með tölvubréfi, dags. 2. desember 2022, vísaði Útlendingastofnun umsókn kæranda frá á þeim grundvelli að fyrra máli hans væri ekki lokið þar sem flutningur til Frakklands hefði ekki farið fram. Hinn 13. desember 2022 kærði kærandi þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála og þann sama dag óskaði kærandi einnig eftir frestun á framkvæmd fyrri ákvörðunar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki farið úr landi eftir að ákvörðun og úrskurður hafi verið birtur honum og máli hans teljist því ekki lokið þar sem flutningur hafi ekki farið fram.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í kæru sinni vísar kærandi til þess að samkvæmt gögnum frá Útlendingastofnun hafi lögreglan á Suðurnesjum staðfest að hann hafi ferðast frá Íslandi til Frakklands 10. október 2022 með unnustu sinni sem sé íslenskur ríkisborgari. Jafnvel þó kærandi hafi ferðast undir öðru auðkenni geti Útlendingastofnun ekki verið í vafa um að þarna hafi kærandi verið á ferð. Þá hafi íslensk stjórnvöld lagt hald á grunnfölsuð skilríki kæranda. Kærandi hafi farið sjálfviljugur til Frakklands 10. október 2022. Meðfylgjandi kæru hafi kærandi sent tvö brottfararspjöld og þrjár ljósmyndir sem annað hvort séu augljóslega teknar í Frakklandi eða séu með GPS-upplýsingum.
Kærandi telji að íslensk stjórnvöld verði að leggja til grundvallar að hann hafi yfirgefið Ísland og snúið aftur til Frakklands í kjölfar úrskurðar kærunefndar útlendingamála. Kærandi telji, með vísan til 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og úrskurðar kærunefndar í máli hans, að honum hafi ekki borið að bíða eftir fylgd stoðdeildar né að leyfa stoðdeild að hafa eftirlit með ferðalagi sínu. Kærandi telji að málsmeðferð fyrri umsóknar hans hafi lokið þegar hann hafi snúið sjálfviljugur aftur til Frakklands 10. október 2022. Því sé synjun Útlendingastofnunar á því að taka nýja umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til málsmeðferðar ólögleg og vítaverð þar sem hann hafi m.a. ekki fengið leiðbeiningar um kæruheimild.
Í beiðni kæranda um frestun á framkvæmd úrskurðar kærunefndar nr. 257/2022 kemur fram að ljóst sé að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp. Kærandi hafi þegar orðið við og uppfyllt það sem þar komi fram með því að hafa snúið sjálfviljugur aftur til Frakklands. Stoðdeild ríkislögreglustjóra hafi þegar sett sig í samband við kæranda varðandi flutning til Frakklands.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Beiðni kæranda um að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til meðferðar
Líkt og að framan greinir kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 30. júní 2022 þar sem ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um efnismeðferð var staðfest og ákvörðun tekin um að kærandi skyldi fluttur til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Að sögn kæranda hafi hann farið sjálfviljugur til Frakklands 10. október 2022 á fölsuðum skilríkjum. Kærandi hafi aftur komið til Íslands og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd að nýju 5. nóvember 2022.
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að taka umsókn um alþjóðlega vernd ekki til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland Dyflinnarreglugerðina, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.
Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröðun, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Hinn 22. febrúar 2022 samþykktu frönsk stjórnvöld að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Byggði samþykki Frakklands á b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Í svari Frakklands kemur einnig fram að flutningur viðkomandi aðila skuli fara fram á ákveðnum tímum og allar nauðsynlegar upplýsingar þurfi að berast frönskum yfirvöldum fyrir fyrirhugaðan flutning. Þá kemur fram að frönsk yfirvöld samþykki ekki flutning viðkomandi aðila án þeirra aðkomu og umsækjandinn verði að tilkynna sig til útlendingayfirvalda við komuna til landsins. Sé frönskum yfirvöldum ekki tilkynnt um flutning viðkomandi umsækjanda innan tímamarka Dyflinnarreglugerðarinnar geti landamæralögreglan neitað viðkomandi inngöngu í landið.
Kærandi hefur haldið því fram að málsmeðferð umsóknar hans um alþjóðlega vernd hér á landi hafi lokið þegar hann hafi sjálfviljugur farið til Frakklands á fölsuðum skilríkjum 10. október 2022. Kærandi telji að með vísan til 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og úrskurðar kærunefndar í máli hans hafi honum ekki borið að bíða eftir fylgd stoðdeildar né að leyfa stoðdeild að hafa eftirlit með ferðalagi sínu. Í tölvubréfi frá lögmanni kæranda, dags. 11. janúar 2022, kemur fram að í úrskurði kærunefndar nr. 257/2022 í máli kæranda hafi honum einungis verið vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Þá vísar hann til þess að mikilvægt sé að stjórnvöld setji ekki frekari kröfur á einstaklinga en lög og úrskurðir mæli fyrir um.
Í 1. mgr. 26. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar kemur fram að þegar aðildarríki sem beiðni er beint til samþykkir að taka í umsjá eða taka aftur við umsækjanda eða öðrum einstaklingi, eins og um getur í c- eða d-lið 1. mgr. 18. gr., skuli aðildarríkið sem leggur fram beiðnina tilkynna hlutaðeigandi einstaklingi um ákvörðun þess efnis að hann verði fluttur til aðildarríkisins sem ber ábyrgð og, ef við á, ákvörðunina um að taka ekki umsókn hans um alþjóðlega vernd til meðferðar. Ef lögfræðingur eða annar ráðgjafi kemur fram fyrir hönd hlutaðeigandi einstaklings geta aðildarríkin kosið að tilkynna slíkum lögfræðingi eða ráðgjafa um ákvörðunina í stað hlutaðeigandi einstaklings og, eftir atvikum, skýra hlutaðeigandi einstaklingi frá ákvörðuninni.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. maí 2022, kemur fram að umsækjandi skuli fluttur til Frakklands og að lögregla framkvæmi flutning. Í úrskurði kærunefndar nr. 257/2022 í máli kæranda er jafnframt kveðið á um að kærandi skuli fluttur til Frakklands. Það kom því skýrt fram bæði í ákvörðun Útlendingastofnunar og úrskurði nefndarinnar að kærandi skyldi fluttur til Frakklands. Þá var kæranda tilkynnt, í símtali við lögreglu 6. desember 2022, eftir ósk hans um að fara sjálfviljugur til Frakklands, að mæta á Keflavíkurflugvöll 9. desember 2022 þar sem lögregla biði hans. Þá yrði vegabréf kæranda lagt í hendur flugstjórans á meðan á fluginu stæði og að flugstjórinn myndi afhenda frönskum lögreglumönnum vegabréfið þegar þeir tækju á móti kæranda á flugvellinum í Frakklandi.
Verður ekki annað ráðið af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og reglugerðar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 1560/2003 en að það sé fyrst og fremst á ábyrgð þess ríkis sem óskar flutnings að sjá til þess að flutningurinn fari fram í samræmi við ákvæði sinna laga og Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærunefnd telur ljóst af ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar að flutningur umsækjenda til þess ríkis sem ber ábyrgð á umsókn hans um alþjóðlega vernd sé hluti málsmeðferðarinnar. Í málinu liggur fyrir að flutningur kæranda til Frakklands í samráði við frönsk stjórnvöld líkt og kveðið er á um í Dyflinnarreglugerðinni hefur ekki farið fram og því líta íslensk stjórnvöld svo á að máli kæranda sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd hér á landi 18. janúar 2022 sé ekki lokið og muni ekki ljúka fyrr en flutningur kæranda til Frakklands samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar hefur farið fram. Af þeim sökum verður að líta svo á að hafi kærandi farið af landi brott á fölsuðum skilríkjum hafi flutningur hans til Frakklands ekki farið fram heldur fremur að kærandi hafi með því látið sig hverfa (e. abscond) í skilningi 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.
Tilgangur og markmið Dyflinnarsamstarfsins er m.a. að tryggja skjóta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd, að umsókn um alþjóðlega vernd berist til yfirvalda þess ríkis sem ber ábyrgð á meðferð hennar og að tryggja að viðkomandi leggi ekki fram umsókn um alþjóðlega vernd í mörgum aðildarríkjum með það að markmiði að lengja dvöl sína á svæðinu. Í þessu máli liggur fyrir frásögn kæranda um að hann hafi ferðast til Frakklands á fölsuðu skilríki. Jafnframt liggja fyrir upplýsingar frá lögreglu um þau skipti sem umrætt skilríki var notað til ferða milli Íslands og Frakklands. Rétt er að árétta að ekki er hægt að staðfesta að kærandi hafi verið sá sem ferðaðist á umræddu skilríki en í a.m.k. eitt skipti virðist kærandi hafa mætt til viðtals hjá Útlendingastofnun á þeim tíma sem umrætt skilríki var notað til ferðar til Frakklands. Þá liggur fyrir samkvæmt upplýsingum frá talsmanni kæranda að hann hafi ekki gefið sig fram við frönsk stjórnvöld. Þrátt fyrir að frásögn kæranda væri lögð til grundvallar er ljóst að ábyrgð Frakklands á málsmeðferð umsóknar hans er enn til staðar og að flutningur hans til Frakklands hefur ekki farið fram í samræmi við ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar eða fyrri niðurstöður stjórnvalda. Ljóst er að bæði niðurstaða Útlendingastofnunar og kærunefndar kváðu skýrt á um að kærandi skyldi fluttur af lögreglu til Frakklands og að kærandi setti sig í samband við lögreglu og óskaði eftir að fara án fylgdar til Frakklands. Við það tilefni var hann upplýstur um það með hvaða hætti það skyldi gert. Þá mátti kæranda vera fullljóst að hann hafði ekki heimild til þess að ferðast á fölsuðu skilríki og að tilgangur flutnings hans til Frakklands væri að frönsk stjórnvöld tækju við honum og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Verður því ekki fallist á að kærandi hafi verið í einhvers konar góðri trú um að hann hafi fullnægt ákvörðun íslenskra stjórnvalda með meintri ferð sinni til Frakklands og að hann geti nú lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd. Sem fyrr segir er það niðurstaða nefndarinnar að líta beri svo á að kærandi hafi verið horfinn í skilningi 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og að sú niðurstaða sé í samræmi við tilgang og markmið Dyflinnarreglugerðarinnar..
Með tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að fyrri umsókn kæranda sé ekki lokið og að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar um frávísun umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd, dags. 5. nóvember 2022.
Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016
Í 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum en ekki við komu til landsins. Þá hefur í úrskurðum kærunefndar verið lagt til grundvallar að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 18. janúar 2022 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 18. janúar 2023. Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.
Samkvæmt dagbókarfærslum úr lögreglukerfi ríkislögreglustjóra var kærandi skráður horfinn 22. september 2022. Samkvæmt færslum, dags. 9. nóvember 2022, hafi kærandi mætt í Bæjarhraun 18 og beðið um skilríki sín. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal 30. nóvember 2022. Í viðtalinu hafi honum verið tjáð að hann þyrfti að fara til Frakklands vegna synjunar á umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærandi hafi greint frá því að vilja fara einsamall til Frakklands og honum hafi verið tjáð að reynt yrði að verða við því. Stefnt yrði að því að kaupa flug fyrir hann 9. desember 2022. Hinn 6. desember 2022 hafi starfsmenn stoðdeildar haft samband við kæranda og tjáð honum að búið væri að kaupa flugmiða fyrir hann til Frakklands og hann færi einn í flugið líkt og hann hafi óskað eftir. Vegabréf hans og skilríki yrðu hjá flugstjóranum á meðan á fluginu stæði og flugstjórinn myndi svo afhenda þau frönskum lögreglumönnum þegar þeir tækju á móti kæranda á flugvellinum. Kærandi hafi greint frá því að ætla koma sér sjálfur á flugvöllinn og hitta lögreglumenn stoðdeildar fyrir utan flugstöðina kl. 05:40 föstudaginn 9. desember 2022. Hinn 7. desember 2022 hafi kærandi haft samband við starfsmann stoðdeildar og greint frá því að hafa rætt við lögfræðing og hann ætli ekki að fara til Frakklands. Honum hafi verið tjáð að búið væri að kaupa flug og starfsmenn stoðdeildar myndu hitta hann fyrir utan flugstöðina á umsömdum tíma. Hinn 9. desember 2022 klukkan 05:42 hafi starfsmenn stoðdeildar reynt að ná sambandi við kæranda en án árangurs. Skilaboð hafi verið send í símanúmer kæranda um að starfsmenn stoðdeildar væru komnir á flugvöllinn. Kærandi hafi ekki svarað og flugmiði hans hafi því verið afbókaður. Hinn 9. desember 2022 hafi kærandi sent skilaboð til starfsmanns stoðdeildar um að hann hefði sofnað og ekki sofið vel. Hann hafi verið búinn að láta þá vita að hann ætlaði ekki að mæta. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun, dags. 20. desember 2022, hafi kærandi verið skráður horfinn 9. desember 2022.
Líkt og að framan greinir lagði kærandi fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 18. janúar 2022 sem samkvæmt framangreindu mati kærunefndar er enn í gildi. Þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hugðist flytja kæranda til Frakklands 9. desember 2022 var umræddur 12 mánaða frestur sem áskilinn er í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki liðinn. Kærandi mætti ekki á umsömdum tíma í bókað flug til Frakklands og var eftir það skráður horfinn. Að mati kærunefndar er því ljóst að kærandi hafi tafið mál sitt og komið í veg fyrir að flutningur færi fram innan tilskilins frests, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Með hliðsjón af framangreindu telur kærunefnd að kærandi hafi tafið afgreiðslu umsóknar hans og það hafi verið á hans ábyrgð, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Af framangreindu leiðir að skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er ekki uppfyllt.
Beiðni kæranda um frestun á framkvæmd
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 30. júní 2022. Líkt og fjallað hefur verið um hér að framan hefur kærandi ekki verið fluttur til viðtökuríkis og er máli hans því ekki lokið. Er það mat kærunefndar að aðstæður kæranda hafi ekki breyst og því ekki talin ástæða til að fjalla frekar um beiðni kæranda um frestun framkvæmdar á úrskurði kærunefndar, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og er þeirri beiðni jafnframt hafnað.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Beiðni kæranda um frestun á framkvæmd er hafnað.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellants‘ request to suspend the implementation of the decision of Immigration Appelas Board is denied.
Þorsteinn Gunnarsson
Bjarnveig Eiríksdóttir Sandra Hlíf Ocares