Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2018 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Framsýnn Fossvogsskóli flaggar Grænfánanum

Fossvogsskóli í Reykjavík hlaut í dag Grænfánann, alþjóðlega umhverfisviðurkenningu sem Landvernd veitir, fyrir þátttöku í verkefninu Skólar á grænni grein. Fossvogsskóli hefur flaggað Grænfánanum samfellt í 17 ár, frá 2001 þegar verkefnið hóf göngu sína hér á landi. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra afhenti skólanum fánann sem flaggað var með gleði í rigningunni í morgun.

„Við vitum að öflug þátttaka skóla í Grænfánaverkefninu hefur góð og jákvæð áhrif á umhverfisvitund nemenda og stuðlar að góðri og heildstæðri umhverfisfræðslu þeirra. Það gefur skólafólki ótal skemmtileg tækifæri til þess að flétta sjálfbærni inn í skólastarfið. Nemendur eru gerðir að virkum þátttakendum í því stóra verkefni okkar að vernda umhverfið og umgangast það af virðingu,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni. „Fossvogsskóli hefur lagt alúð í umhverfismál í yfir þrjá áratugi. Þetta sýnir hversu framsýnn og leiðandi skólinn hefur verið og heldur áfram að vera á þessu sviði. Ég óska skólanum hjartanlega til hamingju með þennan áfanga og þakka einnig Landvernd sem staðið hefur myndarlega og á markvissan hátt að innleiðingu og framkvæmd Grænfánaverkefnisins.“

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum fylgja sjö skrefum og þegar þeim er náð fá þeir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár á eftir og sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Markmið verkefnisins er að:
• Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
• Efla samfélagskennd innan skólans.
• Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
• Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
• Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.
• Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.
• Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.

Grænfánaverkefnið er rekið í rúmlega 50 löndum víðsvegar um heim með þátttöku yfir 11 milljón nemenda og er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi.

Sjá nánar á heimasíðu Grænfánans

 


  • Framsýnn Fossvogsskóli flaggar Grænfánanum  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Framsýnn Fossvogsskóli flaggar Grænfánanum  - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta