Umboðsmaður Alþingis skilar áliti vegna frestunar hvalveiða
Umboðsmaður Alþingis hefur lokið athugun sinni vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun upphafs hvalveiða síðastliðið sumar og látið í ljós álit sitt vegna málsins.
Í álitinu kemur m.a. fram að reglugerð um frestun upphafs hvalveiða hafi ekki átt sér nægilega skýra stoð í lögum um hvalveiðar og að eins og atvikum var háttað hafi útgáfa og undirbúningur reglugerðarinnar ekki samrýmst kröfum um meðalhóf. Umboðsmaður beinir ekki sérstökum tilmælum til ráðuneytisins um úrbætur. Hann beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hafa þau sjónarmið sem fram koma í álitinu í huga til framtíðar.
Umboðsmaður fellst á skýringar ráðuneytisins um að heimilt sé að líta til dýravelferðarsjónarmiða við setningu reglugerða á grundvelli laga um hvalveiðar. Hann bendir þó á að þegar lög um hvalveiðar voru sett árið 1949 hafi meginmarkmið þeirra verið verndun og viðhald hvalastofnsins. Þrátt fyrir aukna áherslu á velferð dýra, m.a. á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins, hafi lögunum hins vegar ekki verið breytt til samræmis við það.
Umboðsmaður óskaði í júlí sl. eftir upplýsingum, skýringum og gögnum vegna reglugerðar um tímabundna frestun á upphafi hvalveiða. Reglugerðin var sett í kjölfar birtingar eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðar á langreyðum árið 2022 og álits fagráðs um velferð dýra.
Ný reglugerð tók gildi 1. september sl. sem var ætlað að bæta umgjörð veiða á langreyðum. Með henni var m.a. brugðist við fyrrgreindum skýrslum Matvælastofnunar og fagráðs um velferð dýra auk skýrslu starfshóps um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðarnar sem var birt í lok ágúst sl.
Í ráðuneytinu stendur nú yfir endurskoðun á reglugerðum um hvalveiðar. Tekið verður mið af ábendingum umboðsmanns í þeirri vinnu.
Hér má finna gögn sem málið varða og voru send á milli embættisins og ráðuneytisins vegna fyrrgreindrar fyrirspurnar:
- Fyrirspurnarbréf umboðsmanns Alþingis til matvælaráðuneytisins 24. júlí 2023
- Skýringar matvælaráðuneytisins til umboðsmanns 21. ágúst 2023
- Viðbótarerindi matvælaráðuneytisins til umboðsmanns 3. október 2023
- Álit umboðsmanns Alþingis, sent 5. janúar 2024
Til glöggvunar má hér sjá tímalínu um atburðarás málsins frá því í júní árið 2024 og til dagsins í dag.
- 8. maí 2023 - Eftirlitsskýrsla MAST birt og í kjölfarið óskað eftir áliti fagráðs um velferð dýra
- 19. júní 2023 - Álit fagráðs um velferð dýra, dags. 16. júní 2023, berst ráðuneytinu
- 20. júní 2023 - Drög að reglugerð um frestun upphafs veiða kynnt í ríkisstjórn og birt síðar þann dag.
- 7. júlí 2023 - Hvalur hf. kvartar til umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðar um frestun upphafs veiða.
- 24. júlí 2023 - Umboðsmaður Alþingis óskar eftir skýringum matvælaráðuneytisins í tilefni af kvörtun Hvals hf.
- 21. ágúst 2023 - Skýringar matvælaráðuneytisins afhentar umboðsmanni Alþingis
- 28. ágúst 2023 - Starfshópur um mat á leiðum til að fækka frávikum við veiðar á langreyðum skilar skýrslu til matvælaráðherra
- 31. ágúst 2023 - Reglugerð um veiðar á langreyðum sett
- 3. október 2023 – Viðbótargögn afhent umboðsmanni Alþingis
- 5. janúar 2024 – Álit umboðsmanns Alþingis