Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 9/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 14. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 9/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120028

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.               Málsatvik og málsmeðferð

Þann 8. október 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. apríl 2020, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. október 2020. Þann 19. október 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU20100020, dags. 29. október 2020, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku ásamt fylgigögnum þann 14. desember 2020.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.                  Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún telur að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Krafa kæranda er jafnframt reist á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi og röngum upplýsingum. Þá reisir kærandi kröfu um endurupptöku á þeirri óskráðu meginreglu að endurupptaka sé heimil ef ákvörðunin sé haldin verulegum annmarka.

Kærandi byggir á því að b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sé afar matskennd heimild sem kærunefnd útlendingamála beri að beita af varfærni, sérstaklega í ljósi þess að skráning fjölmargra ríkja heimsins á borgurum sínum sé ekki eins áreiðanleg og í flestum ríkjum Evrópu. Kærandi telur það ósanngjarnt að gera b-lið 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að fortakslausu skilyrði og því hafi löggjafinn einmitt ákveðið að í lögum skuli finnast undantekningarheimild. Þá heimild sé að finna í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að heimilt sé að víkja frá ákvæðum 3. mgr. þegar sérstaklega standi á. Kærandi telur að draga megi þá ályktun af lögskýringargögnum að um mistök hafi verið að ræða við setningu laganna, en undantekningarregla 4. mgr. 74. gr. hafi augljóslega átt að ná til þeirra neikvæðu skilyrða sem fram komi í 3. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og þeirra jákvæðu skilyrða sem komi fram í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Kærandi vísar til 2. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að markmið laganna sé m.a. að tryggja mannúðlega meðferð í þessum málaflokki. Þá vísar kærandi jafnframt til eðli máls, hvoru tveggja sem lögskýringarsjónarmiðs og réttarheimildar í þessu samhengi. Kærandi telur að öll lögskýringarsjónarmið, þ. á m. markmiðsskýring út frá lögskýringargögnum og vilji löggjafans, eðli máls, innri samræmisskýring og tilurð lagaákvæðisins, bendi til þess að b-liður 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga feli ekki í sér fortakslaust skilyrði. Þá telur kærandi að ef 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga sé skoðuð nánar komi í ljós að heimilt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu og þar sé verið að vísa til 74. gr. laganna í heild sinni, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 55. gr. sömu laga. Í 55. gr. laga um útlendinga sé fjallað um grunnskilyrði dvalarleyfis og sé þar með víðtækasta takmörkunin sem fyrirfinnist í lögum um útlendinga. Þá vísi ákvæðið almennt til allra skilyrða sem fram komi í lögunum og þar með sé vísað til þeirra skilyrða sem talin séu upp í stafliðum 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Eitt af þeim skilyrðum sé það skilyrði sem kærandi hafi ekki verið talinn hafa uppfyllt. Kærunefnd sé því heimilt að komast að þeirri niðurstöðu að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli þeirrar opnu undantekningarheimildar sem felist í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og vísun þeirrar greinar til 55. gr. sömu laga, sem hafi að geyma almennt ákvæði um öll skilyrði laganna. Telji kærunefnd þessa lögskýringu langsótta bendir kærandi á að með þessari textaskýringu á skýrum texta laganna sé nefndinni jafnframt heimilt að túlka lögin í samræmi við vilja löggjafans þrátt fyrir mistök í lagasetningu.

Kærandi vísar til þess að henni hafi borist bréf frá systur sinni þar sem fram komi að fjölskylda hennar hafi flúið vegna ágangs þeirra sem staðið hafi fyrir mansalinu sem hún hafi orðið fyrir. Í bréfinu komi fram að hurðir og rúður hafi verið brotnar á heimili fjölskyldunnar og þess krafist að systir kæranda komi í hennar stað. Kærandi vísar til alþjóðlegrar skýrslu þar sem fram komi að vitneskja þeirra sem standi fyrir mansali um fjölskyldu umsækjanda um alþjóðlega vernd sé til þess fallin að auka líkurnar á að viðkomandi sæti ofsóknum sé þeim gert að snúa aftur til Nígeríu. Kærandi telur að um sé að ræða nýja málsástæðu sem hafi verulega þýðingu í málinu.

Kærandi hafi slitið samvistum við fyrrum sambýlismann sinn og sé nú einhleyp. Þar sem fjölskylda hennar sé á flótta þá eigi hún afar lítið bakland í heimaríki. Slík sjónarmið hafi þýðingu við mat á því hvort veita eigi kæranda dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá vísar kærandi til myndbandsupptöku sem hún hefur lagt fram, sem hún kveði að sýni móður sína lýsa þjáningum og áhyggjum af henni auk þess sem móðir hennar hvetji íslensk stjórnvöld til að hjálpa dóttur sinni.

III.                Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. desember 2018. Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 8. október 2020 og var úrskurðurinn birtur fyrir kæranda þann 12. október 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi kærunefnd að kærandi uppfyllti ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, um að ekki leiki vafi á því hver umsækjandi sé, því var ekki hægt að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga með vísan til þess tíma sem mál hennar hefði tekið.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að úrskurðað var í máli hennar. Til stuðnings beiðni um endurupptöku máls síns lagði kærandi fram bréf sem hún kveður vera frá systur sinni og yfirlýsingu þess efnis að hún hafi slitið samvistum við fyrrverandi sambýlismann sinn. Þá hefur kærandi lagt fram myndband sem hún hefur greint frá að sýni móður hennar lýsa þjáningum og áhyggjum sínum af henni auk þess sem hún hvetji stjórnvöld til að hjálpa dóttur hennar. Í bréfi sem kærandi lagði fram sem hún kveður vera skrifað af systur sinni, kemur fram að líf fjölskyldu kæranda hafi verið í hættu þar sem dyr og gluggar á húsi þeirra hefðu verið brotnir af þeim aðilum sem hafi þvingað kæranda í vændi.

Kærandi hefur greint frá því að hún hafi nú slitið samvistum við sambýlismann sinn og að fjölskylda hennar sé á flótta, því hafi hún lítið bakland í heimaríki. Vísar kærandi til þess að sú málsástæða hafi þýðingu við mat á því hvort veita eigi henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020, var byggt á því að kærandi væri í sambandi við fjölskyldu sína í heimaríki en hún hafi greint frá því í viðtali hjá kærunefnd að hún ætti móður og systur í heimaríki sem hún væri í sambandi við auk þess sem hún ætti móðurfjölskyldu í heimaríki. Var því niðurstaða kærunefndar ekki sérstaklega byggð á því að hún gæti notið stuðnings sambýlismanns síns í heimaríki heldur var byggt á því að kærandi hefði tengsl við fjölskyldu sína þar og gæti notið stuðnings hennar auk sambýlismanns hennar.

Í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020, kom fram að mansal væri refsivert samkvæmt lögum í Nígeríu og lögregluyfirvöld og stofnunin NAPTIP (e. the National Agency for the Prohibition of Trafficking in Persons and Other Related Matters) hafi almennt getu til þess að aðstoða þolendur mansals, jafnvel þótt þolendur standi enn í skuld við smyglara sinn. Þá séu til staðar innviðir í heimaríki sem sérhæfi sig í þjónustu og aðstoð við þolendur mansals. Gögn benda þá til þess að yfirvöld hafi getu til að aðstoða þolendur mansals. Það er mat kærunefndar að þær nýju upplýsingar sem koma fram í beiðni kæranda um endurupptöku breyti ekki fyrra mati kærunefndar um að kærandi eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda, bæði hjá stofnuninni NAPTIP og lögreglu, telji hún þörf á því. Þrátt fyrir að systir og móðir kæranda hafi flutt sig um set innan heimaríkis þeirra er ljóst að kærandi er í sambandi við fjölskyldu sína og geti notið stuðnings hennar við endurkomu sína til heimaríkis. Í myndbandinu sem kærandi lagði fram með beiðni um endurupptöku má sjá konu tala erlent tungumál og nefna kæranda á nafn. Að mati kærunefndar hefur myndbandið takmarkaða þýðingu í málinu, einkum í ljósi þess að um einhliða frásögn einstaklings er að ræða sem óljóst er hver er eða hvort hún hafi nokkur tengsl við kæranda. Er það því mat kærunefndar að aðstæður kæranda hafi ekki breyst verulega frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð sinn.

Líkt og kom fram í úrskurði kærunefndar frá 8. október 2020 hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn við meðferð málsins sem sýna fram á hver hún sé, þrátt fyrir að hafa verið leiðbeint um það af hálfu kærunefndar. Engin skilríki eða önnur gögn liggja fyrir hjá kærunefnd sem eru til þess fallin að varpa ljósi á hver kærandi sé. Kærunefnd hefur áður í úrskurðum sínum fjallað um málsástæður sambærilegar málsástæðu kæranda er varðar undanþáguheimildina í 4. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, m.a. í úrskurði í máli nr. KNU19100068 frá 8. apríl 2020. Texti laganna er skýr um það að undanþáguheimildin nær eingöngu til 3. mgr. og engin heimild er til að veita undanþágu frá skilyrðum 2. mgr. 74. gr. laganna. Verður því ekki fallist á að úrskurður kærunefndar hafi byggt á röngum upplýsingum um málsatvik.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 8. október 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að hvorki skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga né óskráðra meginreglna um endurupptöku séu uppfylltar. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Sindri M. Stephensen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta