Ákvæði um umsáturseinelti orðið að lögum
Alþingi hefur samþykkt breytingar á almennum hegningarlögum um umsáturseinelti. Við lögin hefur því bæst við eftirfarandi grein: „Hver sem endurtekið hótar, eltir, fylgist með, setur sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti situr um annan mann og háttsemin er til þess fallin að valda hræðslu eða kvíða skal sæta sektum eða fangelsi allt að 4 árum.“
Við framlagningu málsins sagði dómsmálaráðherra: „Ég tel að með þessu nýja ákvæði stígum við mikilvægt skref til að auka réttarvernd þeirra sem verða fyrir ofbeldi. Við lítum á þá háttsemi sem hér getur átt undir með alvarlegri augum sem hafi skýrari afleiðingar. Það verða að teljast sjálfsögð mannréttindi að einstaklingum sé tryggður sá réttur í lögum að ganga um í samfélaginu óáreittir. Með ákvæðinu erum við að hnykkja á þeim rétti brotaþola að eiga rétt á friðhelgi einkalífs, eins og markmið laga um nálgunarbann er nú þegar en dómaframkvæmd hefur sýnt okkur að mikilvægt sé að skýra frekar.“