Fundaði með menningarmálaráðherra Svartfjallalands
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra fundaði með Maša Vlaović, menningarmálaráðherra Svartfjallalands, sem stödd er á landinu í augnablikinu. Færði hún menningarmálaráðherranum bókina Hávamál.
Menningarráðherrarnir ræddu meðal annars um að styrkja menningartengsl Íslands og Svartfjallalands og aukna samvinnu þjóðanna á sviði menningarmála. Lögð verður sérstök áhersla á samstarfsverkefni sem menningarráðuneyti og stofnanir tveggja landa munu útfæra á næstu misserum.
Á fundinum var meðal annars farið yfir mikilvægi þess að byggja upp innviði og hlúa að menningu og skapandi geira beggja þjóða. Maša Vlaović er í Íslandsheimsókn á vegum Listasafns Reykjavíkur en tilgangur heimsóknarinnar er meðal annars að miðla reynslu og koma á samstarfi á milli Listasafns Reykjavíkur og nýstofnaðs Samtímalistasafns Svartfjallalands.