Arnhildur Pálmadóttir hlýtur Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs
Arnhildur Pálmadóttir hlaut í gær Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir þverfaglega nálgun og áherslu á minnkaða kolefnislosun og endurnýtingu byggingarefnis.
Þema verðlaunanna í ár var sjálfbær byggingarstarfsemi, en sérstök áhersla er lögð á aðlögunarhæfan, endurnýtandi og endurnýjandi arkitektúr.
Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að Arnhildur væri fjölhæfur sérfræðingur sem brynni fyrir breytingum í borgarskipulagi, arkitektúr og byggingariðnaði. Hún hafi í störfum sínum sem arkitekt komið að öllum stigum byggingarverkefna, þ.e. borgarskipulagi, hönnun og smíðaferli bygginga. Með fjölbreyttum áhugmálum sínum og kunnáttu stuðli hún að breytingum og finni sjálfbærar lausnir í iðnaði sem ber ábyrgð á um 40% af kolefnislosun heimsins.
Hönnunarverkefni hennar, hvort sem um sé að ræða einstaka hús eða borgarskipulag, snúist að miklu leyti um að nýta endurunnin og endurnýtt efni, minnkaða orku- og efnisnotkun, kolefnishlutlausar lausnir og ástundun sjálfbærs lífsstíls, t.d. með því að auðvelda notkun almenningssamgangna, deilihagkerfis og fleira.
Þá vinnur Arnhildur um þessar mundir að rannsóknum að því hvort stýra megi hraunrennsli í mót til þess að nota við byggingargerð. Hún mun sýna vinnu sína við þetta efni á 19. Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025, fyrst Íslendinga.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs eru veitt fyrirtæki eða samtökum á Norðurlöndum, sem hafa samþætt náttúru- og umhverfisvitund starfi sínu, eða einstaklingi sem hefur unnið mikilsvert starf í þágu náttúru og umhverfis.