Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ráðherra leggur fram breytingar á samkeppnislögum

Ríkisstjórnin afgreiddi á fundi sínum í gær frumvarp ferðamála-, iðnaðar -, og nýsköpunarráðherra um breytingu á samkeppnislögum. Frumvarpið felur í sér afmarkaðar breytingar á nokkrum ákvæðum samkeppnislaga sem hafa það markmið að einfalda og framkvæmd þeirra og auka skilvirkni í þágu atvinnulífsins og Samkeppniseftirlitsins í samræmi við þróun atvinnulífsins á sl. árum. Frumvarpið er einnig liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og tekið hefur verið mið af tillögum í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið.

„Öflugt samkeppnisumhverfi er mjög þýðingarmikið fyrir okkur sem samfélag. Samkeppnisreglur og eftirlit með þeim eru nauðsynleg umgjörð og mikilvægt er að sú umgjörð sé reglulega tekin til endurskoðunar. Sú endurskoðun var tímabær og krafðist mikillar vinnu. Frumvarpið einfaldar framkvæmd og eykur skilvirkni, sem skiptir atvinnulífið og ekki síður neytendur í landinu miklu máli,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra.

Þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru meðal annars þær að heimild Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar án brots verði felld brott, komið verði á sjálfsmati fyrirtækja á því hvort skilyrði séu uppfyllt fyrir undanþágum frá bannákvæðum laganna, veltumörk tilkynningaskyldra samruna verði hækkuð um 50% og málsmeðferð samrunamála bætt. Þá verði fellt brott það skilyrði að úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála þurfi að liggja fyrir áður en heimilt verði að höfða dómsmál til ógildingar á ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins. Með þeirri breytingu geta aðilar máls sjálfir metið hvort þeir kæri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar eða höfði mál fyrir dómstólum. Breytingin felur í sér möguleika á að málsmeðferð þeirra mála þar sem leitað er beint til dómstóla verði styttri en verið hefur.

Þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna hafa frumvarpið nú til umfjöllunar og þegar samþykki þeirra liggur fyrir mun því verða dreift á Alþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta