Hoppa yfir valmynd
3. mars 2015 Utanríkisráðuneytið

Viðauki um orkutengda þjónustu í TiSA-viðræðum

Ísland og Noregur hafa birt opinberlega drög að viðauka um orkutengda þjónustu sem ríkin lögðu fram sameiginlega í TiSA-samningaviðræðunum um aukið frelsi í þjónustuviðskiptum.

Orkutengd þjónusta er skilgreind í tillögu Íslands og Noregs sem sérhæfð þjónusta við fyrirtæki sem starfa m.a. á sviði orkuframleiðslu og dreifingu orku. Hér er því átt við þau fyrirtæki, verktaka og undirverktaka, sem veita orkufyrirtækjunum, t.d. virkjunum og dreifingaraðilum, þjónustu en sjá ekki sjálf um slíka grunnþætti í orkuframleiðslu. Því er skýrt tekið fram í viðaukanum að eignarhald á auðlindum og stjórn orkuauðlinda er fyrir utan gildissviðs tillögunnar. Ekki er ljóst á þessu stigi viðræðnanna hvort viðaukinn verði hluti endanlegs samnings.

Á allra síðustu árum hefur verkefnum íslenskra fyrirtækja á sviði endurnýjanlegra orkugjafa fjölgað mikið og vaxandi hluti tekna þeirra koma frá erlendum verkefnum víðsvegar að úr heiminum. Hér má nefna sem dæmi íslenskar verkfræði- og arkítektastofur sem sjá m.a. um að kanna möguleika á nýtingu jarðhita, hönnun virkjana og fleira.

Íslensk fyrirtæki eru leiðandi í þekkingu á orkuvinnslu úr jarðvarma. Á allra síðustu árum hefur verkefnum íslenskra fyrirtækja á sviði endurnýjanlegra orkugjafa fjölgað mikið og vaxandi hluti tekna þeirra koma frá erlendum verkefnum víðsvegar að úr heiminum.

Samstarf Íslands og Alþjóðabankans um að hraða jarðhitanýtingu í Austur Afríku hefur leitt til þess að bankinn hefur stofnað sjóð sem nemi allt að 65 milljörðum króna og á að nýtast þróunarlöndum til að standa straum af jarðhitaborunum, sem er sá þáttur jarðhitanýtingar sem er áhættusamastur og erfiðastur við að eiga fyrir einstök ríki. Þetta hefur einnig orðið til þess að svæðabundnir þróunarbankar fyrir Afríku, Asíu og Mið- og Suður-Ameríku hafa sett nýtingu jarðhita í forgrunn hvað varðar styrkveitingar og fyrirgreiðslu. Sú þróun sem hér er lýst á eftir að leiða til enn frekari fjölgunar jarðhitaverkefna á heimsvísu.

Utanríkisráðuneytið leitast við að gera það efni sem þegar hefur verið birt af hálfu Íslands í tengslum við viðræðurnar aðgengilegra og notendavænna. Á uppfærðri upplýsingasíðu um TiSA samningaviðræðurnar og stöðu þeirra á heimasíðu ráðuneytisins er  m.a. finna upphafstilboð Íslands í viðræðunum, auk frásagna af samningalotum og upplýsingafundum hér heima fyrir. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta