Hoppa yfir valmynd
31. mars 2022 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra afhenti Landbúnaðarverðlaunin 2022 á Búnaðarþingi

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ásamt verðlaunahöfum Landbúnaðarverðlaunanna 2022. F.v. Karólína Elísabetardóttir bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð, Kristján Oddsson frá Biobúi og Elínborg Aðils sem tók við verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar Borghildar Aðils og manns hennar Ragnars Inga Bjarnasonar.  - mynd

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, ávarpaði Búnaðarþing í dag og afhenti um leið Landbúnaðarverðlaunin 2022 til þriggja verðlaunahafa.

Í ávarpi sínu fjallaði ráðherra meðal annars um þau markmið stjórnarsáttmála að auka hlutfall hollra og næringarríkra matvæla ásamt því að auka sjálfbærni og fæðuöryggi. Einnig hvernig styrkja megi og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar.

Ráðherra gerði jafnframt fæðuöryggi í samhengi við breytta heimsmynd að umtalsefni sínu ásamt mikilvægi þess að huga að kjörum bænda.

Landbúnaðurinn er of mikilvægur til þess að vera í vörn. Hann verður að vera í sókn og hefur til þess alla burði.Til þess að meira verði framleitt þarf að vera efnahagslegur grundvöllur. Það þarf að vera afkoma, það þarf að vera hægt að lifa með reisn af því að framleiða mat. Þar eru víða sóknarfæri og búgreinarnar standa misjafnlega. Í því samfélagi jafnaðar sem við viljum skapa verða kjör bænda að standast samanburð.

Landbúnaðarverðlaunin 2022 hlutu eftirfarandi:

Bollastaðir í Blöndudal: Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason

Að búinu standa Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason. Þau eru þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður. Þar innleiða þau loftslagsvænar aðferðir sem minnka kolefnisspor búsins og eykur framleiðni og hagræðingu í búrekstrinum.

Bollastaðir hafa verið í eigu sömu fjölskyldu síðan árið 1942 en þar hefur verið stundaður sauðfjárbúskapur til fjölda ára. Segjast Borghildur og Ragnar Ingi hafa farið í verkefnið Loftslagsvænni landbúnaður þar sem þau vilji leggja sitt af mörkum til að skapa betri framtíð fyrir komandi kynslóðir með sjálfbærum landbúnaði.

Biobú

Kristján Oddsson og Dóra Ruf hafa stundað lífræna mjólkurframleiðslu á  Neðra Hálsi í Kjós frá árinu 1996. Þá hafa þau um árabil einnig rekið félagið Biobú sem framleiðir um 15 tegundir af lífrænum mjókurvörum, mjólk, skyr, rjóma og jógúrt. Fyrirtækið er í vexti og munu allt að 800 þúsund lítrar af lífrænum mjólkurvörum fara út á markaðinn á næstu misserum samkvæmt eigendum. Biobú hefur einnig verið að þreifa fyrir sér með sölu á lífrænu nautakjöti sem er nýtt á kjötmarkaðinum. Lífrænar mjólkur og kjötvörur standast vel kröfur nútímans um umhverfisvænni framleiðslu.

Kristján og Dóra segja að þau geti skilgreint sig sem örfyrirtæki, en það sem haldi því gangandi sé öflugt starfsfólk og þakklátir neytendur.

Karólína Elísabetardóttir, bóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð

Undir forystu Karólínu Elísabetardóttur, bónda í Hvammshlíð í Skagabyggð, hófst leit að erlendum rannsóknum síðastliðið vor sem sýna fram á lausnir gegn riðuveiki. Í kjölfarið var farið í rannsóknarverkefni og hafa nú fundist einstaklingar á Austurlandi sem bera arfgerðina ARR. Eru þetta gríðarlega mikilvæg tíðindi fyrir íslenska sauðfjárrækt og baráttuna við riðuveiki sem gefur góða von um að það verði hægt að útrýma sjúkdómnum í náinni framtíð.

Karólína er sauðfjárbóndi á heiðarbýlinu Hvammshlíð í Austur-Húnavatnssýslu þar sem áhersla er lögð á hraustar kindur með fjölbreytta liti og góða ull. Hún segir að riðuveikin hafi einmitt fyrst komið upp á þessu svæði fyrir 150 árum, eftir að hrútur af ensku kyni hafði verið fluttur til landsins. Þá segist hún vera „áhugavísindamaður," rithöfundur, ullarsérfræðingur og ostagerðamaður og mikill aðdáandi íslensks landbúnaðar og róttæk í því að „versla íslenskt“ hvar sem það er hægt. Einnig segist hún vera mikið náttúrubarn, sem fær sinn innblástur í daglegum fjallgöngutúrum með hundunum sínum Baugi og Kappa. 

Verðlaunagripirnir eru hannaðir af Ólínu Rögnudóttur fyrir hönnunarfyrirtækið FÓLK.

 

 

  • Matvælaráðherra afhenti Landbúnaðarverðlaunin 2022 á Búnaðarþingi - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
15. Líf á landi
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta