Hoppa yfir valmynd
8. mars 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ný lyfjastefna til ársins 2012 kynnt

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti í dag nýja lyfjastefnu til ársins 2012. Í lyfjastefnunni eru dregin fram þau atriði sem betur mega fara í lyfjamálum á Íslandi og sett fram áætlun um úrbætur.Þetta er í fyrsta skipti sem slík stefna til lengri tíma er sett fram hér á landi. Þá hefur ráðherra að fengnum tillögum sérstaks starfshóps fallist á að komið verði á formlegu samstarfi sjúkrastofnana sem reknar eru af ríkinu og af Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um útboð og sameiginleg innkaup á lyfjum. Á fundi ráðherra með fréttamönnum í dag kom einnig fram að í kjölfar aðgerða sem gripið hefur verið til síðustu misseri er heildsöluverð frumlyfja á Íslandi nú sambærilegt við verð sömu lyfja á Norðurlöndum. Hins vegar er heimiluð álagning apóteka töluvert hærri hér á landi auk þess sem stefna þarf að aukinni notkun ódýrari samheitalyfja og að efla samkeppni á lyfjamarkaði.

Lyfjastefna til ársins 2012

Lyfjastefnan til ársins 2012 sem Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur nú gefið út var samin af 18 manna nefnd sem ráðherra skipaði í september 2004. Nefndinni var falið að leita leiða sem tryggja örugga og skynsamlega notkun lyfja á sem hagkvæmustu verði fyrir landsmenn og hið opinbera. Fulltrúar allra þingflokka áttu sæti í nefndinni ásamt fulltrúum hagsmunaaðila, fagaðila og þeirra opinberu stofnana sem koma að lyfjamálum. Megin markmið stefnunnar er að stuðla að góðu aðgengi allra landsmanna að nauðsynlegum lyfjum, tryggja öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónustu. Ennfremur að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri notkun lyfja.

Samstarf um lyfjainnkaup heilbrigðisstofnana

Þann 4. október s.l. skipaði ráðherra starfshóp til að efla samstarf heilbrigðisstofnana um lyfjainnkaup. Meginverkefni starfshópsins var að benda á leiðir sem bætt geta fyrirkomulag lyfjainnkaupa stofnana, bætt notkun lyfja og lækkað lyfjakostnað. Niðurstaða starfshópsins er að mestar líkur til að árangur náist eru að sem flestar stofnanir hafa samstarf um lyfjainnkaup og vinni að samræmdum lyfjalistum þar sem það á við. Bent er á að sú leið hefur gefist ágætlega hjá hjúkrunarheimilum og einstökum heilbrigðisstofnunum. Ráðherra hefur fallist á þá tillögu starfshópsins að komið verði á formlegu samstarfi Landsspítala – Háskólasjúkrahúss, Landssambands sjúkrahúsa og Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu um útboð og innkaup lyfja og mun fela forsvarsmönnum þessara stofnana frekari útfærslu á slíku samstarfi.

Lyfjaverð og lyfjakostnaður

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 2004 kom fram að lyfjaverð var hærra og lyfjakostnaður meiri hér en í Danmörku og Noregi. Árið 2004 samdi ráðherra við Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS) og Actavis h.f. um að lækka lyfjaverð hér á landi í áföngum þannig að það verði sambærilegt meðalverði lyfja á Norðurlöndum á tveimur árum. Þessir samningar hafa skilað þeim árangri að heildsöluverð frumlyfja á Íslandi er nú sambærilegt við verð sömu lyfja á Norðurlöndum og hafa því samningar við FÍS gengið eftir. Samningar við Actavis h.f. hafa einnig skilað umtalsverðum árangri þó að verð einstakra lyfja frá fyrirtækinu sé hærra hér á landi en að meðaltali á Norðurlöndum. Stefnt er að því að þau lyf komi til lækkunar síðar á árinu. Þrátt fyrir að þessum árangri sé náð í lækkun heildsöluverðs er útsöluverð úr apótekum enn töluvert hærra hér en að meðaltali á Norðurlöndum sem rekja má til hærri smásöluálagningar hér á landi. Þrátt fyrir að verulegur árangur hafi náðst í lækkun á lyfjaverði, þá er enn mikill munur á heildarkostnaði lyfja á hvern landsmann sem m.a. má rekja til lítils framboðs á ódýrum samheitalyfjum.

Á síðasta ári hefur á vegum ráðuneytisins verið leitað leiða til að auðvelda innflutning ódýrra samheitalyfja og efla samkeppni á lyfjamarkaði. Í skýrslu sem Þorvaldur Ingi Jónsson, viðskipta- og stjórnunar­ráðgjafi hefur tekið saman um þetta brýna hagsmunamál er að finna fjölmargar tillögur sem ráðuneytið mun hafa til hliðsjónar við þá endurskoðun lyfjalaga sem nú stendur yfir. Lyfjastefnan og skýrslan eru aðgengileg á vef heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins.

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta