Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 122/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 122/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23020020 og KNU23020021

Kæra [...] og [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 7. febrúar 2023 kærðu [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir M) og [...], fd. [...], ríkisborgari Filippseyja (hér eftir K), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 30. janúar 2023 og 3. febrúar 2023, um að synja þeim um framlengingu á vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru verður ráðið að kærendur krefjist þess að fallist verði á beiðni þeirra um framlengingu á vegabréfsáritun til Íslands.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 með síðari breytingum, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins var kærendum veitt vegabréfsáritun til Íslands í 35 daga á tímabilinu 7. janúar 2023 til 25. febrúar 2023. Kærendur komu inn á Schengen-svæðið 8. janúar 2023. Hinn 20. janúar 2023 lögðu kærendur fram umsóknir um framlengingu á vegabréfsáritunum sínum hjá Útlendingastofnun. Hinn 30. janúar 2023 synjaði Útlendingastofnun beiðni K um framlengingu á vegabréfsáritun til Íslands og 3. febrúar synjaði stofnunin beiðni M sama efnis. Hinn 7. febrúar 2023 kærðu kærendur framangreindar ákvarðanir Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála. Meðfylgjandi kæru voru ýmis fylgigögn.  

III.    Málsástæður og rök kæranda

Kærendur byggja kæru sína m.a. á heilbrigðisgögnum sem ekki lágu fyrir við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun. Hinn 16. janúar 2023 hafi kærendur leitað til læknis en þau séu bæði með háþrýsting. Hinn 26. janúar 2023 hafi þau að nýju leitað til læknis, blóðþrýstingur K hafi þá verið orðinn eðlilegur en blóðþrýstingur M verið upp og niður. Samkvæmt ráðleggingum læknis hafi M leitað á heilsugæslu til frekari rannsókna 30. janúar 2023. Hinn 2. febrúar 2023 hafi M farið í frekari rannsóknir á heilsugæslu og þá eigi hann eftir að fara í enn fleiri rannsóknir. Þegar rannsóknum á heilsu hans sé lokið hér á landi fari kærendur aftur til heimaríkis. 

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022 með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Filippseyja þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Samkvæmt gögnum málsins fengu kærendur útgefna vegabréfsáritun hingað til lands í 35 daga á tímabilinu 7. janúar 2023 til 25. febrúar 2023. Með beiðni, dags. 20. janúar 2023, óskuðu kærendur eftir því við Útlendingastofnun að vegabréfsáritanir þeirra yrðu framlengdar. Á meðan þau hafi dvalið hér á landi hafi veðrið verið slæmt og þau hafi því ekki náð að skoða þá staði á landinu sem fyrirhugað hafi verið að skoða. Þau vilji dvelja lengur hér á landi í þeim tilgangi að ferðast um landið og skoða áhugaverða staði. Um leið og því sé lokið muni þau snúa aftur heim.

Í 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir segir að heimilt sé að framlengja gildistíma útgefinnar vegabréfsáritunar og/eða lengd dvalartíma sem hún heimilar hafi handhafi hennar fært sönnur á óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem komi í veg fyrir að hann geti farið af yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en gildistími vegabréfsáritunarinnar eða dvalartíminn sem hún heimili rennur út. Í 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir segir svo að heimilt sé að framlengja gildistíma útgefinnar vegabréfsáritunar og/eða lengd dvalartíma sem hún heimilar hafi handhafi hennar fært sönnur á mikilvægar persónulegar aðstæður sem réttlæta framlengingu á gildistíma eða dvalartíma.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda kemur fram að tilgangur með umsóknum þeirra um framlengingu á vegabréfsáritunum sé að framlengja dvöl þeirra hér á landi sem ferðamenn. Kærendur hafi því ekki fært sönnur á því að til staðar séu óviðráðanlegar aðstæður eða mannúðarástæður sem komi í veg fyrir að þau geti yfirgefið landið og Schengen-svæðið áður en gildistími vegabréfsáritananna rennur út, sbr. 1. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Þá taldi Útlendingastofnun að aðstæður kærenda hafi ekki náð þeim alvarleikaþröskuldi að teljast mannúðarástæður og þá hafi þau ekki fært rök fyrir því að til staðar væru óviðráðanlegar aðstæður sem gerði þeim ókleift að yfirgefa landið. Þá taldi stofnunin að það að kærendum hafi ekki verið fært að ferðast utan Reykjavíkur vegna veðurs fæli ekki í sér mikilvægar persónulegar aðstæður sem réttlætt gæti framlengingu á gildistíma vegabréfsáritana þeirra, sbr. 2. mgr. 34. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Í kærum kærenda til kærunefndar, dags. 7. febrúar 2023, kemur fram að vegna heilsufarsástæðna óski þau eftir framlengingu á vegabréfsáritunum til Íslands. Þau hafi bæði farið í heilsufarsskoðun 16. janúar 2023 vegna háþrýstings. Blóðþrýstingur K sé orðinn eðlilegur en M sé í frekari rannsóknum hér á landi. Með kærum kærenda fylgdu læknisvottorð frá heilsugæslunni Urðarhvarfi, dags. 3. febrúar 2023, þar sem fram kemur að M sé í virkri meðferð á heilsugæslu vegna veikinda og þarfnist viðeigandi eftirfylgni og K þarfnist viðeigandi eftirfylgni á heilsugæslu vegna veikinda. Í vottorðunum er þó ekki gerð nánari grein fyrir veikindum kærenda, hvers konar eftirfylgni þau þurfi eða hvað felist í umræddri meðferð M. Þá fylgja einnig móttökukvittanir frá læknavaktinni Háaleitisbraut, dags. 16. janúar 2023 og 26. janúar 2023 og beiðni um rannsókn hjá Sameind rannsóknarstofu fyrir M, dags. 3. febrúar 2023.   

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Í ljósi þess að nú liggja fyrir ný gögn í máli kærenda sem áhrif geta haft á niðurstöðu málsins er það mat kærunefndar að nauðsynlegt sé að mál kærenda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun þar sem lagt sé mat á þau nýju gögn sem nú hafa verið lögð fram. Þá vísar kærunefnd til þess að hvergi í gögnum málsins eða hinni kærðu ákvörðun er að finna upplýsingar um þær kröfur sem kærendur gera um lengd framlengingar vegabréfsáritana þeirra en slíkt þarf að liggja fyrir svo hægt sé að taka ákvarðanir um beiðnir þeirra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda til meðferðar á ný.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Þorsteinn Gunnarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta