Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2011 Dómsmálaráðuneytið

Foreldrar nái sátt um forsjá og umgengni

Sáttamiðlun sem lausn í forsjár- og umgengnisdeilum var meðal umræðuefna á fundi sem haldinn var í innanríkisráðuneytinu í dag að frumkvæði innanríkisráðherra. Til fundarins voru boðaðir sýslumenn og fulltrúar þeirra en markmiðið var að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á barnalögum og reynslu sýslumanna af því að fást við umgengnis- og forsjármál.

Frá fundi um sáttamiðlun og forsjármál barna.
Frá fundi um sáttamiðlun og forsjármál barna.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hóf fundinn á því að gera grein fyrir áherslubreytingum sínum varðandi barnalagafrumvarpið og þeirri ákvörðun að leggja ekki til að svo stöddu að veita dómurum heimild til að dæma sameiginlega forsjá og að afnema heimild til aðfarar. Er hið síðarnefnda í samræmi við umræðu á vettvangi barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og ábendinga samtaka og stofnana sem fjalla um réttindi barna á Íslandi.

Hrefna Friðriksdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands og formaður nefndar sem samdi frumvarpið, sagði frá helstu þáttum frumvarpsins og þeim áherslubreytingum sem þar er að finna. Meðal annars vakti Hrefna athygli á þeirri breytingu að við úrskurði og dóma í forsjár- og umgengnismálum eigi ef frumvarpið verður að lögum að taka tillit til þess hvort barn eða einhver á heimili barns hafi orðið fyrir ofbeldi eða kunni að verða fyrir ofbeldi.

Frá fundi um sáttamiðlun og forsjármál barna.Ingibjörg Bjarnardóttir, héraðsdómslögmaður og formaður Sáttar, fjallaði í framhaldinu um sáttamiðlun en frumvarpið gerir ráð fyrir því að foreldrar verði skyldaðir til leita sátta áður en krafist er úrskurðar eða mál höfðað um forsjá, umgengni eða dagsektir. Sýslumönnum ber þannig að bjóða upp á sáttameðferð.

 

Þórólfur Halldórsson, formaður Sýslumannafélags Íslands, áréttaði í sínu erindi mikilvægi þess að hugað verði vandlega að því að sýslumannsembættin verði undir það búin að takast á við þessi nýju verkefni ef og þegar lögin taka gildi. Sagði hann málaflokkinn flókinn viðfangs og að málsmeðferðartími þyrfti að vera sem stystur.

Að síðustu tók Þorbjörg Inga Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður til máls og fjallaði um ofbeldi í nánum samböndum og áhrif þeirra á forsjárdeilur. Vakti hún athygli á nokkrum atriðum sem kynnu að gefa vísbendingar um að ofbeldi hefði átt sér stað milli foreldra og að því væri jafnvel viðhaldið eftir skilnað.

Í lok fundar skiptust fundarmenn á skoðunum um nýtt frumvarp og meðferð þessara mála í dag. Sammæli var um að frumvarpið væri til þess fallið að bæta meðferð þessara mála en ljóst er að verði það að lögum þarf að vanda vel til undirbúnings á þeim nýju verkefnum sem sýslumenn munu takast á við.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta