Úrskurður nr. 109/2016
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 22. mars 2016 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 109/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU15020021
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Með stjórnsýslukæru, dags. 16. febrúar 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. febrúar 2015, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kærandi fái réttarstöðu flóttamanns skv. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og breytt á þann hátt að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 2. október 2014. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 15. desember 2014 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun dags. 10. febrúar 2015, synjaði Útlendingastofnun kæranda um hæli ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála við birtingu ákvörðunarinnar þann 16. febrúar 2015, ásamt því að óska eftir því að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað á meðan málið væri til kærumeðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa með bréfi kærunefndar, dags. 4. mars 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 10. mars 2015. Þann 2. desember 2015 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Talsmaður kæranda var viðstaddur.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að umsókn kæranda falli undir ákvæði a- og b-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga því kærandi sé með stöðu flóttamanns á Ítalíu og sé með dvalarleyfi þar. Hins vegar var það mat stofnunarinnar, í samræmi við 2. mgr. 46. gr. a laganna, að rétt væri að fjalla efnislega um mál hans þar sem mál eiginkonu hans hafi verið tekið til efnismeðferðar.
Í ákvörðuninni greinir að ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga frásögn kæranda í efa. Samræmi væri á milli frásagnar hans hjá lögreglu og hjá Útlendingastofnun og hún komi í grófum
dráttum heim og saman við fyrirliggjandi upplýsingar um heimaland kæranda á þeim tíma er hann flúði þaðan. Frásögn hans var því lögð til grundvallar í málinu.
Það var mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda gæfi ekki tilefni til þess að ætla að aðstæður hans væru með þeim hætti sem greini í 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga eða að þær væru slíkar sem greinir í 2. mgr. 44. gr. Þá var jafnframt niðurstaða stofnunarinnar að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti sem greini í 45. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi vísað til einangraðs tilviks sem hafi átt sér stað fyrir um áratug síðan. Frásögn kæranda beri með sér að ofbeldið hafi ekki beinst að honum eða fjölskyldu hans persónulega og að ekki hafi verið um skipulagðan verknað að ræða, heldur handahófskennt ofbeldi sem fylgdi uppþotum. Miklar breytingar hafi átt sér stað í [...] varðandi réttindi borgaranna. Um áratugur sé liðinn frá atvikunum og ekki verði séð að kærandi eða faðir hans hafi haft slíka stöðu í samfélaginu að kærandi hafi nokkra ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu yfirvalda í [...] eða annarra aðila innan ríkisins. Af sömu ástæðum verði ekki séð að hann eigi á hættu ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð snúi hann aftur til [...]. Kærandi hafi ekki gefið stofnuninni tilefni til að ætla að hann þurfi á vernd að halda.
Um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga segir í ákvörðun Útlendingastofnunar að ekki verði séð að þær aðstæður sem tilgreindar séu í ákvæðinu eigi við um kæranda. Kærandi sé ungur maður við góða heilsu og aðstæður í heimaríki hans verði ekki taldar honum óhagstæðar og hafa farið batnandi. Félagslegar aðstæður hans í heimaríki séu ekki slíkar að þær réttlæti dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f. Þá hafi kærandi ekki haldið því fram að hann hafi sérstök tengsl við Ísland fyrir utan að kona hans og barn væru hér. Væru það ekki nægjanleg tengsl í skilningi ákvæðisins. Væri það því niðurstaða stofnunarinnar að aðstæður hans í heimalandi væru ekki slíkar að þær réttlættu dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins, hvorki með vísan til mannúðarsjónarmiða né sérstakra tengsla kæranda við Ísland. Þá hafi athugun stofnunarinnar ekki leitt í ljós neitt sem bendi til þess að [...]
Þá þótti Útlendingastofnun rétt að beita frávísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga. Jafnframt frestaði kæra ekki réttaráhrifum, með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. laganna.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi kveður föður sinn hafa verið virkan í starfi tiltekinnar stjórnmálahreyfingar í [...] auk þess að hafa starfað við skipulagningu atburða á hennar vegum og hengt upp veggspjöld og aðrar upplýsingar. Hann muni ekki nafn hreyfingarinnar en hún hafi verið andsnúin yfirvöldum. Hann viti þó að [...]. [...]. Óeirðir hafi brotist út í borginni [...]. Kærandi viti ekki hvaða fólk hafi staðið að árásinni en telji að um pólitíska andstæðinga föður hans hafi verið að ræða. Í kjölfarið hafi hann flúið [...]. Fjölskyldan hafi ekki leitað ásjár lögreglu eða yfirvalda [...]. Fram kemur að [...] og hann geti ekki flutt sig um set innan landsins. Kærandi telur að yfirvöld muni beita hann ofbeldi eða reyna að myrða hann verði hann endursendur til [...]. Ástandið í landinu sé ekki gott og sami stjórnmálaflokkur sé við völd og þegar hann hefði flúið.
Kærandi kveðst telja skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga uppfyllt. Um ástæðuríkan ótta kæranda sé að ræða en samkvæmt ákvæðinu geti ofsóknir sem ættingjar flóttamanns hafi orðið fyrir gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur. Sá [...] sé enn við völd. Ekki sé hægt að útiloka að [...]. Þá telji kærandi að skilyrðið um ofsóknir sé einnig uppfyllt. Ekki sé til að dreifa skilgreiningu á hugtakinu en af 33. gr. flóttamannasamningsins megi draga þá ályktun að sé lífi eða frelsi ógnað m.a. vegna stjórnmálaskoðana séu það ofsóknir. Þar að auki telji kærandi [...]. Þyki rétt að benda á að í 2. málsl. 2. mgr. 44. gr. a laga um útlendinga segi að ekki skipti máli við matið á 1. mgr. 44. gr. hvort kærandi hafi þau einkenni eða skoðanir sem vísað sé til ef sá sem er valdur að
ofsóknum telji að svo sé. Þá geti kærandi ekki leitað til yfirvalda í [...] eftir vernd þar sem hann óttist ofsóknir þeirra í sinn garð.
Þá er talsmaður kæranda ósammála því sem fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar að um handahófskennt ofbeldi hafi verið að ræða sem hafi ekki beinst gegn kæranda og fjölskyldu hans persónulega. Hvergi hafi komið fram að uppþot hafi átt sér stað í borginni [...] áður en fjölskyldan hafi orðið fyrir árás. Kærandi hafi lýst því að [...]. Talsmaður kæranda telur það sýna fram á að atlagan að föður hans hafi ekki verið tilviljanakennd heldur fyrirfram ákveðin. Þá sé ekki hægt að útiloka að [...].
Kærandi kveðst ekki sammála því sem fram komi í ákvörðun Útlendingastofnunar um að mikil framfaraskref á sviði mannréttinda hafi verið tekin í [...] að undanförnu. Aðstæður í [...] séu raktar í greinargerð kæranda og vísað til skýrslna Amnesty International, skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins og Freedom House. Endursending kæranda til [...] brjóti gegn 45. gr. laga um útlendinga, 68. gr. stjórnarskrár, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamningsins.
Um varakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga segir í greinargerð kæranda að hann telji stöðu mannréttindamála þar í landi slæma og hafi verið það lengi og flokkist sem viðvarandi mannréttindabrot. Með hliðsjón af því uppfylli kærandi skilyrði 12. gr. f um rík mannúðarsjónarmið.
Þá kemur fram að ekki sé hægt að ætlast til þess að kærandi flytji sig um set innan [...] þar sem hann óttist ofsóknir af hendi yfirvalda þar í landi. Í þeim tilvikum sem stjórnvöld standi að baki ofsóknum geti einstaklingar ekki leitað sér raunverulegrar verndar neins staðar í landinu. Þessa reglu sé að finna í leiðbeiningum Flóttamannastofnunar og hafi hún verið staðfest af íslenskum stjórnvöldum.
Kæranda gerir athugasemdir við að í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að kærandi og fjölskylda hans [...]. Aðbúnaður og aðstæður varðandi húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu [...] séu svo slæmar að jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Vísað sé til [...] og leiðbeininga Flóttamannastofnunar. Talsmaður telji ljóst að [...] yfirvöld geti ekki tryggt fjölskyldunni þau réttindi sem nauðsynleg séu og [...] stjórnvöldum beri skylda til þess að tryggja að þau geti lifað mannsæmandi lífi, sbr. ákvæði 29. gr. tilskipunar 2011/95/EB. Gerðar eru athugasemdir við það sem komi fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að kærandi hafi búið í [...] frá því hann hafi yfirgefið [...] og þangað til hann hafi farið til Evrópu. Ekkert liggi fyrir um það í málinu. Þegar gögn málsins séu skoðuð liggi ekkert fyrir um að kærandi uppfylli skilyrði [...], sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagarammi
Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Við framlagningu umsóknar kæranda um hæli hér á landi lagði kærandi fram vegabréf og kennivottorð frá [...], [...] dvalarleyfiskort og [...] kennivottorð. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.
Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu
Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.
Kærandi eignaðist son hér á landi þann [...] með eiginkonu sinni. Þá greindi eiginkona kæranda frá því í viðtali hjá kærunefnd þann 16. desember 2015 að [...]. Það er mat kærunefndar að líta verði svo á að fjölskyldan í heild teljist í viðkvæmri stöðu.
Réttarstaða barna kæranda
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Ákvæðið sækir einkum fyrirmynd til inngangsákvæða Barnasáttmálans, einkum 3. gr. Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.
Svo sem fram er komið eignaðist kærandi son þann [...], auk þess sem eiginkona hans er barnshafandi. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd beggja foreldra sinna.
Landaupplýsingar
[...] er lýðveldi í [...] með um [...] íbúa. [...].
Kærunefnd útlendingamála hefur m.a. yfirfarið eftirfarandi skýrslur og gögn um aðstæður í [...].
Forseti [...] er [...]. Samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur skoðað [...].
Í ofangreindum gögnum kemur fram að stjórnvöld í [...] hafi ekki í öllum tilvikum viðhaldið góðri stjórn á öryggissveitum ríkisins, en af skýrslunum má ráða að misbeiting valds af hálfu lögreglunnar hafi í mörgum tilvikum beinst að einstaklingum sem hafi verið þátttakendur í mótmælum. Réttur einstaklinga til mótmæla er takmarkaður í [...] lögum og á það bæði við einstaklinga sem styðja stjórnvöld og stjórnarandstæðinga, en það er breyting frá fyrri árum. Helstu vandamál er varða mannréttindi í [...] eru meðal annars slæmar aðstæður í fangelsum ríkisins, spilling innan stjórnsýslunnar og refsileysi. Þá er takmörkun stjórnvalda á fjölmiðlafrelsi og fundafrelsi einstaklinga jafnframt vandamál. Í ofangreindri skýrslu [...] kemur fram að á árinu 2014 hafi ekki verið vitað um tilvik
þar sem einstaklingar á vegum stjórnvalda hafi framið ólöglegar eða handahófskenndar aftökur. Jafnframt voru engin dæmi um að einstaklingar á vegum stjórnvalda hafi beitt pyndingum eða annarri illri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða að [...]. Stjórnarskrá og lög ríkisins banni gerræðislegar handtökur og varðhald og hafa stjórnvöld virt þau bönn almennt. Hins vegar hafi nokkur tilvik verið tilkynnt þar sem einstaklingar sættu gerræðislegum handtökum eða einstaklingar handteknir í ólöglegum mótmælum. Þá hafi verið tilvik þar sem lögreglumenn hafi misnotað heimild til handtöku fyrir eigin ávinning. Þar að auki kemur fram að stjórnvöld í [...] hafi haft samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og önnur mannréttindasamtök m.a. við að aðstoða flóttamenn sem snúa aftur til [...] (e. returning refugees). Jafnframt starfa mannréttindsamtök í ríkinu án afskipta stjórnvalda.
Ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kæranda verði veitt hæli sem flóttamaður hér á landi.
Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir kröfu sína á því að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda í [...] vegna tengsla föður hans við [...].
Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.
Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.
Í 44. gr. a laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli slíkar ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:
Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins, sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).
Kærandi kveður sig eiga hættu á ofsóknir af hálfu yfirvalda í [...] vegna tengsla við [...]. Með vísan til gagna málsins og ofangreindra upplýsinga um aðstæður í [...] er það mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi ástæðuríkur ótti fyrir kæranda um að eiga á hættu ofsóknir af hendi yfirvalda í [...]. Kærandi vísar til eins atburðar sem orsök flótta hans frá heimaríki, en sá atburður átti sér stað fyrir um áratug. Kærandi hefur ekki leitt líkur að því að ástæða sé til að óttast að atburðir af því tagi gætu endurtekið sig eða að kærandi ætti á hættu að verða fyrir annars konar ofsóknum í heimaríki hans. Þá er það mat kærunefndar að gögn um aðstæður í [...] sem kærunefnd hefur kannað bendi ekki til þess að kærandi eigi nú á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda í [...].
Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga, fyrir veitingu stöðu flóttamanns.
Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt lögunum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.
Í ljósi alls þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45 gr. laganna.
Ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga
Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr.
ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í skýringum með lögum nr. 115/2010 sem breyttu 12. gr. f laga um útlendinga kemur fram það sjónarmið að almennt séð beri að taka sérstakt tillit til barna hvort sem þau eru fylgdarlaus eða ekki. Þá beri að líta til þess hvort framfærsla, þá sérstaklega fylgdarlausra barna, sé tryggð. Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að kærandi geti með góðu móti lifað og starfað í heimalandi sínu. Ennfremur sýna gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið að kærandi getur sótt um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar hans við eiginkonu sína í [...] þar sem hún er ríkisborgari, á grundvelli útlendingalaga í [...], og því er mögulegt að fjölskyldan geti sameinast í þar í landi. Þá hefur kærandi stöðu flóttamanns á Ítalíu en dvalarleyfi hans þar er útrunnið. Samkvæmt upplýsingum sem kærunefnd hefur undir höndum getur hann sótt um endurnýjun á dvalarleyfi sínu hjá ítölskum stjórnvöldum þar í landi. Fjölskyldan gæti því átt möguleika á fjölskyldusameiningu á Ítalíu. Kærunefnd telur, með vísan til niðurstöðu sinnar í máli eiginkonu kæranda og sonar þeirra, [...], og að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að sonur og ófætt barn þeirra fylgi móður sinni aftur til heimalands hennar. Sonur kæranda hafi verið hér á landi í fylgd með báðum foreldrum sínum og verður, ásamt ófæddu systkini sínu, í fylgd með móður sinni við endursendingu til heimalands hennar.
Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í [...] séu ekki með þeim hætti að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.
Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælismál sitt.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The Directorate of Immigration‘s decision is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Anna Valbjörg Ólafsdóttir Pétur Dam Leifsson