Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Óskað eftir tilnefningum til nýsköpunarverðlauna í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018

Nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu 2018 verða afhent á ráðstefnu um nýsköpun föstudaginn 8. júní 2018. Yfirskrift verðlaunanna í ár er „Betri opinber þjónusta með öflugu samstarfi og nýtingu stafrænna lausna“ en verðlaunin og ráðstefnan eru samvinnuverkefni fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Frestur til að skila tilnefningum til nýsköpunarverðlaunanna er til 4. maí 2018. Með nýsköpunarverkefni er átt við nýjungar eða verulegar breytingar sem opinber aðili hefur innleitt og geta falist í nýrri eða verulega breyttri þjónustu, ferlum, skipulagi, vöru eða samskiptaleiðum. Verkefnið er því nýtt fyrir viðkomandi vinnustað og skapar virði í formi aukinna gæða, skilvirkni, starfsánægju eða aukinnar þátttöku almennings.

Sveitarfélög og stofnanir geta tilnefnt eitt eða fleiri verkefni til nýsköpunarverðlaunanna. Tilnefndum verkefnum þarf að hafa verið hrint í framkvæmd á sl. þrem árum (undirbúningur getur hafa staðið lengur) og greinanlegur árangur þarf að hafa náðst. Tilnefningum skal skilað í umsóknakerfi Rannís. Allar innsendar tilnefningar verða birtar á vef Stjórnarráðsins.

Í tilnefningarforminu er m.a. gert ráð fyrir að eftirfarandi komi fram:

  • Stutt lýsing á verkefninu
  • Hver var hvatinn að verkefninu
  • Hvaðan kom hugmyndin að verkefninu
  • Lýsing á þróunar- og innleiðingarferli
  • Hver var ávinningur verkefnisins fyrir almenning/notendur og stofnunina/sveitarfélagið
  • Hvernig var ávinningur metinn?
  • Hver var lærdómurinn af verkefninu
  • Hvort verkefnið geti nýst öðrum stofnunum/sveitarfélögum

Sérstaklega er hvatt til þesss að stofnanir og sveitarfélög tilnefni verkefni sem byggja á nýjum samstarfsleiðum eða nýtingu einhvers konar stafrænna lausna. Allar tegundir verkefna eru þó gjaldgengar.

Dómnefnd fer yfir innsend verkefni og metur þau út frá eftirfarandi þáttum:

  • Nýsköpunargildi verkefnis
  • Þróun og framkvæmd
  • Virði fyrir almenning/notendur
  • Virði fyrir stofnun/sveitarfélag
  • Notagildi verkefnisins fyrir aðrar stofnanir/sveitarfélög
  • Rekstrarlegur ávinningur verkefnisins

Vakni spurningar má hafa samband við Mjöll Waldorff hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, [email protected].


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta