Nr. 74/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 21. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 74/2019
í stjórnsýslumálum nr. KNU18120027 og KNU18120028
Kæra [...],
[...] og barns þeirra
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 11. desember 2018 kærðu einstaklingar er kveðast heita [...], vera fæddur [...], vera ríkisborgari [...] (hér eftir M) og [...], er kveðst vera fædd [...], og vera ríkisborgari [...] (hér eftir K) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 22. nóvember 2018 um að synja kærendum og barni þeirra, [...], sem þau kveða vera fæddan [...]og sé ríkisborgari [...] (hér eftir A), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærendur krefjast þess aðallega að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kærendum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að málið verði sent aftur til Útlendingastofnunar til nýrrar meðferðar vegna brots á rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi þann 29. janúar 2018 ásamt A og eldri syni sínum sem er lögráða. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 18. október 2018 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 22. nóvember 2018, synjaði Útlendingastofnun kærendum og barni þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 11. desember 2018. Kærunefnd barst greinargerð kærenda þann 14. janúar 2019 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn þann 12. febrúar 2019. M kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. febrúar 2019.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki vegna hótana af hálfu lánveitanda M sem sé háttsettur innan öryggissveitanna í [...].
Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur séu ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli barns kærenda, kom fram að stofnunin hefði boðið foreldrum A að hann kæmi í viðtal en að M og K hefðu ekki talið þörf á því. Fram kom að umsókn barns kærenda væri grundvölluð á framburði foreldra þess og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnsins og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þess, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, útlendingalaga og barnaverndarlaga, að barni kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis. Barni kærenda var vísað frá landinu.
Kærendum var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kærendum jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kærenda
Í greinargerð kærenda kemur fram að rekja megi flótta þeirra frá [...] í [...] til líflátshótana sem M og fjölskylda hans hafi fengið vegna hárrar peningaskuldar hans. M hafi greint frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að viðskiptafélagi hans hafi verið myrtur í heimaríki og að M óttist að eins muni fara fyrir honum. Ekki sé lengur hægt að leysa vandamálið með peningum eða aðstoð lögreglu þar sem sá einstaklingur sem hann skuldi peninga, maður að nafni [...], sé háttsettur innan [...]. Telur M ljóst að nái [...] til hans verði hann drepinn þar sem hann hafi ekki fjármuni til þess að greiða [...] skuldina til baka. M og fjölskylda hans séu í lífshættu og geti lögreglan ekki veitt þeim vernd vegna tengsla [...] við lögregluna. Þá hafi M greint frá því að hafa verið meðlimur í [...], hersveitum [...], og [...] stjórnmálaflokknum en að hann sé nú stuðningsmaður [...] flokksins sem hafi verið stofnaður sem klofningur út frá [...]. Byggir M á því að þetta hafi áhrif á möguleika hans á vernd í heimaríki. Yfirvöld viti af því að hann styðji ekki lengur [...] flokkinn og hafi hann m.a. hætt að fá eftirlaun sem hann hafi fengið sem fyrrum hermaður. Eftir birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar hafi M greint talsmanni sínum frá því að hann væri meira en bara óháður stuðningsmaður [...] flokksins en hann hafi ekki þorað að greina frá því í viðtali hjá stofnuninni. Hafi M nú lagt fram skjal sem staðfesti að hann sé meðlimur flokksins og virkur í starfsemi hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi K greint frá því að ástæða flótta fjölskyldunnar hafi verið vegna hættu sem þau voru í vegna vandamála M og þær hótanir sem þau hafi fengið. Hafi öryggissveitin jafnframt komið á heimili þeirra eitt kvöldið er hún og yngsti sonur hennar hafi verið heima en þau hafi náð að flýja til nágranna fjölskyldunnar. K óttist að þau hefðu verið drepin hefðu þau ekki náð að koma sér í skjól þetta kvöld. Hún lifi í gríðarlegum ótta og kveði fjölskylduna ekki geta fengið vernd frá lögreglu þar sem þau séu ekki með stuðning frá yfirvöldum.
Kærendur byggja á því að þau séu flóttamenn samkvæmt skilgreiningu 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð er m.a. greint frá aðstæðum á [...] í [...]. Kemur þar m.a. fram að [...] sé sjálfstjórnarhérað og að stjórnvöld þar séu kjörin með lýðræðislegum hætti. Í gegnum tíðina hafi ríkt spenna á milli [...] og stjórnvalda í [...] og að deilur hafi staðið um hvaða svæði tilheyri [...] sem hafi leitt til átaka. Í lok árs 2017 hafi yfir 100 þúsund manns flúið heimilis sín vegna átakanna. Þá ríki mikil spenna á milli helstu stjórnmálaflokka í [...]. Samkvæmt alþjóðlegum skýrslum skorti löggæslu á mörgum stöðum á [...] í [...] og að almenningur veigri sér við að leita til lögreglu eða dómstóla. Þá velti aðgengi að réttarkerfinu t.d. á því hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé um að ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri og tengslum viðkomandi. Þannig sé mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, fyrir einstaklinga að leita réttar síns á eigin spýtur. Kærendur byggja á því að þau geti ekki treyst á aðstoð lögreglu, hersveita eða öryggissveita þar sem sá aðili sem þau óttist sé háttsettur í öryggissveitunum. M hafi hins vegar engin slík tengsl sjálfur og geti ekki treyst á vernd annarra, m.a. þar sem hann sé virkur í flokksstarfi [...] flokksins.
Af hálfu M er því einnig haldið fram að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana þar sem hann styðji [...] flokkinn. Stjórnvöld í heimaríki M séu meðvituð um stuðning hans við flokkinn og hafi hann m.a. sést opinberlega á viðburðum á þeirra vegum og tjáð skoðun sína á Facebook reikningi sínum. M hafi lengi vel fengið greiðslur sem fyrrum meðlimur hersveita [...] en að þær hafi verið stöðvaðar eftir að hann hafi gengið til liðs við [...] flokkinn. Þessi staða M geri það að verkum að möguleikar hans á vernd séu enn minni enda ráði flokkurinn ekki yfir neinum hersveitum eða öryggissveitum líkt og hinir flokkarnir. Þar sem fyrrnefndur [...] hafi tengsl við lögregluna í [...] þar sem mikil spilling ríki sé möguleiki M og fjölskyldu hans á vernd enginn. Í leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mat á þörf [...] flóttamanna komi m.a. fram að pólitískir andstæðingar [...] ríkisstjórnarinnar séu reglulega handteknir á grundvelli afar óljósra ásakana um hryðjuverk eða tengsl við fyrrum stjórnvöld. Líti flóttamannastofnun svo á að þeir einstaklingar sem séu taldir vera andsnúnir [...] yfirvöldum séu líklegir til að þurfa á alþjóðlegri vernd að halda vegna ætlaðra stjórnmálaskoðana sinna. Sama gildi um einstaklinga sem geti verið taldir andsnúnir [...] yfirvöldum sem fari með stjórn í [...]. Enn fremur byggi ótti M við ofsóknir á samansafni athafna skv. 1. mgr. 38. gr. laga um útendinga og er vísað til ástæðuríks ótta hans við að vera tekinn af lífi af [...], til stjórnmálaskoðana hans og slæms öryggisástands í landinu. Þá byggja kærendur eins og áður greinir á því, með vísan til framangreindra aðstæðna M, að þau geti ekki leitað verndar hjá yfirvöldum. Gríðarleg spilling fyrirfinnist í [...] og þeir sem hafi ekki réttu samböndin við stjórnvöld njóti ekki verndar, en kærendur hafi engin tengsl við stjórnvöld.
Verði ekki fallist á aðalkröfu krefjast kærendur þess til vara að þeim verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem M eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð vegna þeirrar háu fjárhæðar sem hann skuldi [...]. [...] hafi ekki þorað að gera M neitt eða láta til skarar skríða meðan fyrrum viðskiptafélagi M hafi verið á lífi þar sem hann hafi verið háttsettur í hersveitum. Varakrafa kærenda er jafnframt reist á því að ástandið í heimaríki þeirra sé óstöðugt og að ótímabært sé að líta svo á að stríðsástandi í landinu sé lokið eða að landið sé í öruggu bataferli. Hafi flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum til [...] vegna þeirra vopnuðu átaka sem hafi átt sér stað og eigi sér enn stað í landinu. Til þrautavara fara kærendur fram á að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, en til stuðnings kröfunni er vísað til almennra aðstæðna í heimaríki þeirra, ungs aldurs A og heilsufars K, sem hafi verið hjá sálfræðingi hér á landi vegna vanlíðunar. Þá hafi Útlendingastofnun ekki tekið sérstakt tillit til A í ákvörðun hans, en börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í ljósi bágrar efnahagsstöðu fjölskyldu hans megi telja ólíklegt að tryggt sé að hann fái grundvallarnauðsynjar og að hægt sé að búa honum öruggt heimili. Í greinargerð segir einnig að A hafi orðið fyrir miklum áföllum og alvarlegu ofbeldi af hálfu smyglara.
Kærendur gera margvíslegar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum þeirra. Er m.a. gerð athugasemd við staðhæfingu Útlendingastofnunar um að heimildir beri almennt með sér að svæði undir stjórn [...] stjórnvalda séu örugg. Telja kærendur að þótt ástandið sé ögn skárra í [...] en í [...] þýði það ekki að fólk á flótta geti gengið að aðstoð eða vernd vísri. [...] sé ekki öruggt fyrir hvern sem er, t.a.m. ekki einstaklinga sem séu að flýja háttsetta aðila með tengsl við stjórnvöld líkt og kærendur. Vísa kærendur næst til þess að Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar að [...] og öðrum minnihlutahópum á svæðinu standi til boða vernd [...], hersveita [...]. Fram kemur að stjórnmálaflokkarnir [...] og [...] ráði yfir valdamiklum hersveitum og öryggissveit. Þetta eigi hins vegar ekki við um [...] flokkinn og geti meðlimir hans því ekki treyst á vernd þeirra.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli M segi að heimildir beri með sér að meðlimir [...] flokksins geti almennt nýtt sér vernd [...] flokksins og að þannig sé ekki fallist á að stjórnvöld í heimaborg kærenda hafi ekki viljað veita M vernd sökum þess að hann styðji flokkinn. Kærendur mótmæla framangreindri staðhæfingu stofnunarinnar og segja útilokað fyrir M að fá vernd frá [...] flokknum. Í þeirri heimild sem vísað sé til í ákvörðun Útlendingastofnunar segi að meðlimir [...] flokksins sem óttist ofsóknir eða verði fyrir alvarlegum skaða af hálfu [...] geti almennt leitað eftir aðstoð frá [...]. M og fjölskylda hans eigi ekki á hættu að verða fyrir skaða af hálfu [...] heldur af hálfu valdamikils einstaklings innan öryggissveita. Aðstoð frá [...] eigi því ekki við í tilviki kærenda. Þá hafi M yfirgefið [...] flokkinn árið 2009 og hafi flokksmenn hans brugðist illa við því. [...] flokkurinn hafi beðið afhroð í síðustu kosningum og hafi ekki stuðning öryggissveita eða hersveita. Staða hans sé því mjög veik. Telja kærendur að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka þennan þátt málsins frekar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá telja kærendur að Útlendingastofnun hafi rökstutt illa það mat stofnunarinnar að þau geti leitað aðstoðar lögreglu, enda sé sá aðili sem þau óttist meðlimur öryggissveitanna og aðstöðumunur á honum og kærendum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli M hafi komið fram að hann hafi ekki lagt fram nein gögn þess efnis að [...] sé háttsettur í öryggissveitunum. M hafi nú lagt fram bréfsefni þar sem undirskrift [...] komi fram og að hann sé yfirmaður öryggissveitanna [...] á ákveðnu svæði. Telja kærendur nú sannað að sá aðili sem M standi í skuld við sé háttsettur meðlimur öryggissveitanna.
Jafnframt mótmæla kærendur því að ekki sé fjallað sérstaklega um A, sem sé barn, og hans aðstæður í heimaríki í ákvörðunum stofnunarinnar. Í ákvörðun í máli hans sé það ekki rökstutt á nokkurn hátt hvernig það sé honum fyrir bestu að snúa aftur til heimaríkis. Útlendingastofnun hafi lagt til grundvallar að A standi til boða nauðsynleg menntun í heimaríki og að fjölskyldan geti búið í [...] í öryggi en að það sé ekki rökstutt með nokkrum hætti. Mótmæla kærendur því að Útlendingastofnun afgreiði umsókn A þannig að fyrst séu mál foreldra hans afgreidd, þeim synjað um vernd og í framhaldinu sé það mat stofnunarinnar að það sé honum fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til [...], án þess að nokkur rökstuðningur fylgi.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.AuðkenniÍ ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað ljósrit af [...] vegabréfum sínum. Var það mat Útlendingastofnunar að kærendur hefðu ekki sannað hver þau væru með fullnægjandi hætti og leysti stofnunin úr auðkenni þeirra á grundvelli mats á trúverðugleika. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að við rannsókn málanna hefði ekkert komið fram sem gæfi tilefni til að draga þjóðerni þeirra í efa. Þá kom fram að M og K töluðu [...]. Lagði stofnunin því til grundvallar að kærendur væru frá [...]. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að hnekkja framangreindu mati og verður því byggt á því í málinu að kærendur séu frá [...]. Að öðru leyti sé auðkenni þeirra óljóst.
Réttarstaða barns kærenda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir er í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur. Leyst er úr máli eldri lögráða sonar kæranda í sérstökum úrskurði.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
[...]
Samkvæmt framangreindum gögnum er [...] lýðræðisríki með rúmlega [...] íbúa. [...] Í framangreindum gögnum kemur þá fram að flestir [...] búi í norðurhluta landsins. [...]. Löggæsla sé mun markvissari í [...], sé það landsvæði borið saman við suður og mið-[...]. Stofnanir eins og lögregla, saksóknari, dómstólar og fangelsi séu til staðar á svæðinu og heyri þær undir [...]. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé [...] einnig með öryggissveit sem nefnist [...]. Hersveitir [...] hersins, [...], tryggi að sjálfsstjórnarhéruð [...] séu tiltölulega örugg miðað við önnur svæði í [...]. Her [...] og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn [...] og annarra tengdra samtaka.
Af framangreindum gögnum má ráða að á undanförnum árum og áratugum hafi verið spenna milli [...] Í skýrslu utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna frá árinu 2018 kemur fram að fundafrelsi sé tryggt í stjórnarskrá [...] og sé almennt virt af stjórnvöldum. Af skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá ágúst 2017 má ráða að stjórnarandstæðingar hafi í einhverjum tilvikum verið handteknir, beittir ofbeldi eða jafnvel drepnir en ekkert bendi til þess að slík háttsemi sé kerfisbundin. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að [...] flokkurinn sé þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn í [...] og flokkurinn eigi m.a. fulltrúa á [...] þinginu og í ríkisstjórn [...]. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að meðlimir [...] flokksins séu almennt í hættu sökum flokkshollustu sinnar.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Krafa kærenda um að þeim verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er einkum reist á því að M hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana. Þá byggja kærendur á því að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna samansafns athafna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, þ.e. vegna ótta M við að verða tekinn af lífi af manni að nafni [...] vegna skuldar við hann, vegna stjórnmálaskoðana M og slæms öryggisástands í [...]. Eins og nánar er rakið hér að framan kveður M að hann og viðskiptafélagi hans, [...], hafi tekið lán hjá [...] í kjölfar fjárhagsörðugleika í viðskiptum þeirra, en M kveður [...] vera háttsettan í öryggissveitinni [...] í heimabæ kærenda. M og [...] hafi hins vegar ekki haft tök á því að greiða skuldina til baka og eftir að [...] hafi látið lífið hafi [...] haft í hótunum við M. Að sögn kærenda hafi liðsmenn öryggissveitarinnar komið á heimili fjölskyldunnar þegar K og A hafi verið heima. Þau hafi hins vegar séð öryggissveitirnar nálgast og flúið til nágranna. Öryggissveitin hafi bankað á hurðina en þegar enginn hafi svarað hafi sveitin brotist inn. Byggja kærendur á því að þau geti ekki leitað verndar yfirvalda vegna hótana [...] í garð M vegna stöðu [...] í [...] og stjórnmálaskoðana M.
Hvað varðar ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana M byggja kærendur á því að stjórnarandstæðingar eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda í [...]. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun kvaðst M vera fæddur og uppalinn í [...] í [...]. Kvaðst M hafa verið í [...], í [...] flokknum, árin 1985 til 1987. Aðspurður hvort hann væri ennþá í [...] flokknum svaraði M því til að þegar [...] flokkurinn hafi verið stofnaður sem klofningur frá [...] hafi hann og vinur hans fylgt yfir í [...] flokkinn. Þá kvaðst M hafa stutt flokkinn en ekki hafa verið meðlimur. Kvað M að allir í [...] vissu af því að hann styddi [...] flokkinn, þ.m.t. fyrrnefndur [...], enda hafi t.d. sést til M á viðburðum fyrir flokkinn. Ári eftir að [...] flokkurinn hafi verið stofnaður hafi M hætt að fá eftirlaun sín sem hann hafi fengið sem fyrrum hermaður [...].
Við meðferð málsins lagði M fram myndir sem hann hafði birt á Facebook reikningi sínum sem hann kveður sýna fram á andstöðu hans við stjórnvöld í [...] og stuðning við [...] stjórnmálaflokkinn. Í greinargerð kærenda segir að eftir birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar hafi M greint talsmanni sínum frá því að hann væri meira en bara óháður stuðningsmaður [...] flokksins, en að hann hafi ekki þorað að greina frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði M fram bréf sem hann kveður vera frá [...] flokknum í [...], dags. 18. desember 2018, og bréf frá [...] flokknum í Noregi, dags. 6. janúar 2019. Í bréfinu segir að M hafi verið stuðningsmaður og virkur í starfsemi [...] flokksins. M hafi lagt á flótta frá heimaríki fyrir um ári síðan vegna óstöðugleika í stjórnmálum landsins. Þá sé M einn af mörgum sem séu virkir í starfi flokksins sem sé ógnað og að líf hans sé í hættu. Kemur einnig fram í bréfinu að M eigi í ágreiningi við háttsettan mann sem tilheyri öðrum stjórnarflokki [...].
M kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 7. febrúar 2019. Í viðtalinu var M spurður um framburð í viðtali hjá Útlendingastofnun þar sem hann kvaðst aðeins vera stuðningsmaður [...] en ekki virkur meðlimur í flokknum. Kvað M ástæðuna vera þá að hann hafi verið hræddur um frekari vandræði í heimaríki hefði hann upplýst um þátttöku sína í starfi flokksins. Kom fram í máli M að [...] myndi drepa hann ef hann kæmist að því að hann væri í flokknum enda væri flokkurinn ógn við mafíuna í [...]. Í viðtalinu greindi M frá því að árið 2011 hafi fjöldi stuðningsmanna [...] flokksins komið saman á götum úti í [...]. Stjórnvöld í [...] á þeim tíma hafi viljað sýna hverjir færu með völdin og hafi lögregla handtekið marga stuðningsmenn flokksins, þ. á m. M, sem hafi sætt varðhaldi í tvær vikur. M hefur ekki borið fyrir sig að hafa orðið fyrir áreiti að öðru leyti vegna stjórnmálaskoðana. Aðspurður um þátttöku sína í [...] kvaðst M hafa verið meðlimur í flokknum og reynt að fá fólk í flokkinn.
Að mati kærunefndar hefur M ekki fært viðhlítandi skýringar á breyttum framburði að því er varðar aðild hans að [...] flokknum. Í viðtali við M hjá Útlendingastofnun greindi hann ítrekað frá því að hann væri aðeins stuðningsmaður [...] flokksins en ekki meðlimur flokksins. Þá kom fram hjá M að „allir“ í [...], þ. á m. [...], vissu af stuðningi hans við [...] flokkinn, enda hefði M tekið þátt í viðburðum á vegum flokksins. Í viðtali hjá kærunefnd greindi M hins vegar frá því að [...] myndi drepa hann kæmist sá síðarnefndi að því að hann væri meðlimur í [...] flokknum og að aðild M að flokknum væri afsökun fyrir [...] til að drepa hann. Gætir því misræmis í framburði M að þessu leyti. Að mati kærunefndar er frásögn kæranda af því að hann sé virkur meðlimur í [...] flokknum ekki trúverðug og að framangreind skjöl séu ekki þess eðlis að þau færi sönnur á staðhæfingu hans um slíka stjórnmálaþátttöku. Með hliðsjón af framburði M og þeim gögnum sem hann hefur lagt fram verður engu að síður lagt til grundvallar að hann sé stuðningsmaður [...] flokksins og hafi tekið þátt í viðburðum á vegum flokksins í heimaríki.
Gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í [...] gefa til kynna að stjórnarandstæðingar hafi í einhverjum tilvikum verið handteknir, beittir ofbeldi eða jafnvel drepnir en ekkert bendi til þess að slík háttsemi sé kerfisbundin. Af gögnunum má ráða að [...] flokkurinn sé þriðji stærsti stjórnmálaflokkurinn í [...] og flokkurinn eigi m.a. fulltrúa á [...] þinginu og í ríkisstjórn [...]. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að stuðningsmenn [...] flokksins eigi almennt á hættu ofsóknir vegna stuðnings við flokkinn. Að mati kærunefndar benda gögn málsins og framburður M ekki til þess að hann eigi á hættu ofsóknir á grundvelli stjórnmálaskoðana í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis.
Kemur þá til skoðunar hvort kærendur hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna samansafns þeirra athafna sem áður er lýst, þ.e. ótta þeirra við [...], stjórnmálaskoðana M og slæms öryggisástands í [...].
Í viðtali hjá kærunefnd var M beðinn um að gera nánari grein fyrir framangreindri skuld við [...]. Í svörum M kom fram að skjal hafi verið útbúið vegna lánsins, að fjárhæð [...], sem hafi verið skráð á viðskiptafélaga hans, [...], en að M hafi undirritað skjalið sem vottur. Aðspurður hvort hann gæti lagt skjalið fram kvað M að hann væri ekki með skjalið, en það hafi verið á heimili [...] sem hafi látið lífið í október 2017. Greindi M frá því að húsnæði í eigu hans og [...] hafi verið veðsett til [...] og skráð á nafn hans, en þar hafi m.a. verið rekin plastframleiðsla og verslun. Kærandi kvað verðmæti hinnar veðsettu eignar hafa verið um [...] og samkvæmt samningi þeirra yrði [...] eigandi eignarinnar ef skuldin yrði ekki greidd innan árs. [...] hafi á endanum tekið yfir fasteignina en sagt hana verðlausa og einnig krafist þess að fá peningana endurgreidda. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hins vegar hafa veðsett plastfyrirtæki sem hafi verið um [...] virði og að [...] fengi fyrirtækið til eignar ef skuldin yrði ekki greidd innan sex mánaða. Að mati kærunefndar er því nokkurt misræmi á milli þess sem M sagði hjá kærunefnd og þess sem hafði komið fram áður hjá Útlendingastofnun um upphaf þessarar skuldar. Það er mat kærunefndar að þetta misræmi dragi nokkuð úr trúverðugleika frásagnar kæranda um samband hans við umræddan [...].
Í viðtalinu kom fram hjá M að [...] hafi hótað því að drepa hann og taka fjölskyldu hans í gíslingu greiddi hann ekki skuldina. Kvaðst M hafa íhugað að leita til lögreglu en ekki gert vegna ítaka [...] þar. Í viðtalinu kvaðst M ekki vilja segja of mikið um [...] af ótta við hann.
Af hálfu M hafa verið lögð fram ýmis gögn er lúta að viðskiptum hans í heimaríki, þ. á m. meðlimakort M fyrir félag viðskiptafólks í [...], leyfi til handa M til að reka fasteignasölu og kaupsamningar á fasteignum sem sýna fram á viðskiptatengsl M. Með hliðsjón af þeim gögnum og framburði M hjá kærunefnd verður lagt til grundvallar að M hafi stundað viðskipti og atvinnurekstur í heimaríki. Fyrir kærunefnd hefur M jafnframt lagt fram bréf, dags. 16. janúar 2011, sem hann kveður vera undirritað af [...] og sýni fram á að hann sé liðsforingi innan ákveðinnar stöðvar [...] í [...]. Þá hefur M einnig lagt fram ljósmyndir af manni sem hann kveður vera [...]. Á hinn bóginn bera engin gögn sem M hefur lagt fram varðandi viðskipti sín og atvinnurekstur með sér tengsl milli M og umrædds [...] og hefur M ekki lagt fram nein gögn sem renna stoðum undir frásögn hans af skuld hans eða viðskiptafélaga hans við hann eða hótunum [...] í garð hans. Í ljósi skorts á gögnum og með hliðsjón af því misræmi sem var á frásögn M um viðskipti hans við [...] verður við úrlausn málsins því ekki byggt á að M eigi á hættu á ofbeldi eða meðferð af hálfu [...] sem gæti fallið undir 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá verður ekki talið að málsástæða kærenda að því er varðar almennt öryggisástand í [...] hafi vægi við mat á því hvort hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Að framangreindu virtu verður ekki talið að M hafi með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Krafa K og A um alþjóðlega vernd er byggð á sömu málsástæðum og varða M. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu verður ekki talið að K og A eigi hættu á ofbeldi eða illa meðferð af hálfu framangreindra einstaklinga eða afskipta yfirvalda vegna slíkra tengsla. Þá telur kærunefnd ekkert benda til annars en að A muni njóti stuðnings og verndar fjölskyldu sinnar snúi þau aftur til heimaríkis. Verður því ekki talið að þau hafi sýnt fram á að hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna þeirra atriða sem tilgreind eru í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eða að þau hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna samansafns athafna.
Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barns kærenda, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska.
Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kærenda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærendur séu í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærendur verði þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kærenda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Kærendur byggja varakröfu um að þeim verði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því að raunhæf ástæða sé til að ætla að M verði fyrir pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð vegna peningaskuldar við [...]. Með vísan til þess sem fram hefur komið um aðstæður M að þessu leyti og niðurstöðu kærunefndar í því sambandi verður ekki talið að raunhæf ástæða sé til að ætla að M eigi á hættu að sæta meðferð í heimaríki sem lýst er í 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.
Varakrafa kærenda er jafnframt reist á því að ástandið í heimaríki þeirra sé óstöðugt og að ekki sé unnt að líta svo á að stríðsástandi þar sé lokið. Eins og að framan greinir benda skýrslur og gögn sem kærunefnd hefur farið yfir eindregið til þess að svæði [...] sé talið öruggt og að lögregla og öryggissveitir [...] séu öflugar og vel búnar. Þá sé heimabær kærenda, [...], langt inni í landi [...] þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum. Að teknu tilliti til gagna málsins og heimilda bendir ekkert til þess að kærendur sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í [...], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur þangað eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefndin að aðstæður kærenda og barns þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærendur og barn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og barn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Kærendur styðja þrautavarakröfu um að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða m.a. við þau rök að ástandið í heimaríki þeirra sé óstöðugt. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Með vísan til fyrri umfjöllunar um öryggisástandið í [...] verður ekki talið að almennar aðstæður þar í landi séu þess eðlis að kærendur teljist hafa ríka þörf á vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Af hálfu kærenda er jafnframt byggt á því að K hafi verið hjá sálfræðingi hér á landi vegna vanlíðunar og að A sé ungur að aldri. Þá hafi A orðið fyrir miklum áföllum og alvarlegu ofbeldi af hálfu smyglara eftir að kærendur hafi lagt á flótta frá heimaríki.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Af þeim gögnum sem liggja fyrir um heilsufar K má ráða að hún hafi m.a. glímt við brjóstsviða og svefnörðugleika. Þá hafi hún greint frá andlegri vanlíðan vegna aðstæðna kærenda og flótta þeirra hingað til lands, en þau hafi orðið fyrir barsmíðum af hálfu smyglara. Í heilsufarsgögnum vegna A kemur fram að hann hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna umræddra barsmíða og sofið illa til að byrja með. Hann virðist þó hafa jafnað sig, sofi vel og hafi ekki breyst í hegðun. Að því er varðar heilsufar M bera gögn málsins með sér að hann hafi glímt við [...] og sé með háan blóðþrýsting. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heilbrigðiskerfið í [...] benda til þess að kærendur geti fengið aðstoð þar vegna heilsufarsvandamála sinna. Vegna aðstæðna A að öðru leyti bera gögn um [...] með sér að hann hafi aðgang að skólakerfinu þar og þá liggur fyrir í gögnum málsins frásögn A um að hann eigi góða vini í heimaríki. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að framfærsla hans hafi verið tryggð í heimaríki.
Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barns þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og barn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barns þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kærendum og barni þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barns þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barns þeirra þangað.
Athugasemdir kærenda við ákvörðun Útlendingastofnunar
Af hálfu kærenda er því haldið fram að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Byggja kærendur á því að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað almennar aðstæður í [...] með fullnægjandi hætti eða möguleika M á að leita verndar vegna ótta hans við ofsóknir vegna stjórnamálaskoðana. Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði ógild og að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal Útlendingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Við töku ákvörðunar í málum kærenda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við rekstur málsins auk þeirra gagna sem kærendur lögðu fram og skýrslna sem vísað var til í greinargerð kærenda. Kærunefndin fær ekki séð að skort hafi á rannsókn máls kærenda hjá Útlendingastofnun og fellst því ekki á það með kærendum að stofnunin hafi brugðist rannsóknarskyldu sinni samkvæmt stjórnsýslulögum og lögum um útlendinga. Þá er að mati kærunefndar ekki tilefni til að gera athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar að því er varðar ákvörðun í máli A.
Frávísun og frestur til að yfirgefa landið
Kærendur komu hingað til lands 29. janúar 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag ásamt barni sínu. Eins og að framan greinir hefur umsókn þeirra og barns þeirra um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn þeirra um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kærendum og barni þeirra því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.
Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið.
Athygli kærenda er vakin á því að ef þau yfirgefa ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa þeim. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra.
Athygli er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barns þeirra eru staðfestar. Lagt er fyrir kærendur og barn þeirra að hverfa af landi brott. Kærendum og barni þeirra er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.
The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their child are affirmed. The appellants and their child are requested to leave the country. The appellants and their child have 30 days to leave the country voluntarily.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Anna Tryggvadóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir