Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný námstækifæri í framhaldsskólum fyrir ungt fólk án atvinnu

Félags- og tryggingamálaráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti hafa gert með sér samkomulag um þróun nýrra námstækifæra á framhaldsskólastigi fyrir ungt fólk í atvinnuleit. Undirbúningur að verkefninu hófst í nóvember síðastliðnum og er hluti af viðamiklu átaki félags- og tryggingamálaráðuneytisins til að sporna við atvinnuleysi ungs fólks og afleiðingum þess. Áætlað er að um 200 ungmenni geti nýtt sér þessi nýju námstækifæri á næstu mánuðum en að þau verði alls um 450 á árinu 2010. 

Með samkomulaginu er Vinnumálastofnun heimilað að semja við framhaldsskóla um námsvist fyrir unga atvinnuleitendur á aldrinum 18–24 ára sem eru án atvinnu og tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Miðað er við að samningur um námsvist gildi eina námsönn í senn og verði þá endurmetinn hjá hverjum og einum. Samningur um námsvist telst vera vinnumarkaðsúrræði og munu þeir sem nýta sér þessa leið halda rétti sínum til atvinnuleysisbóta.

Námsleiðir sniðnar að þörfum hvers og eins

Samkvæmt samkomulagi ráðuneytanna verður námsplássum í framhaldsskólum fjölgað frá því sem nú er. Vitað er að í hópi þeirra ungmenna sem munu nýta sér þessi tækifæri eru margir sem áður hafa reynt fyrir sér í framhaldsskóla en horfið frá námi af ýmsum ástæðum. Þess vegna er lögð áhersla á að sníða námsframboð og námsfyrirkomulag að þörfum nýrra nemenda sem fá skólavist á grundvelli samkomulagsins. Meðal annars verður skilgreint styttra nám sem hægt verður að ljúka formlega með framhaldsskólaprófi.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið annast samskipti við framhaldsskóla um uppbyggingu og skipulag nýrra námsbrauta til framhaldsskólaprófs og munu nokkrir skólar bjóða upp á slíkt nám fyrir ungt fólk án atvinnu strax í febrúar.

Stórátak gegn atvinnuleysi ungs fólks

Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett það markmið að aldrei skuli líða meira en þrír mánuðir frá því að einstaklingur verður atvinnulaus þar til honum er boðið starf, námstækifæri, starfsþjálfun eða þátttaka í öðrum verðugum verkefnum. Áætlað er þessu markmiði verði náð gagnvart fólki sem er yngra en 25 ára fyrir 1. apríl 2010 og fyrir 1. júlí 2010 gagnvart þeim sem eru eldri en 25 ára.

Vinnumálastofnun stýrir verkefninu en er í samstarfi við fjölmarga aðila um framkvæmd þess, svo sem framhaldsskóla, símennuntarmiðstöðvar, stéttarfélög, fyrirtæki stofnanir og frjáls félagasamtök. Gerð hefur verið áætlun um sköpun nýrra tækifæra fyrir ungt fólk án atvinnu sem miðast við að árið 2010 verði komið á fót um 2.400 mismunandi úrræðum til starfa, menntunar eða annars konar virkni.

Vegna stóraukinna verkefna er Vinnumálastofnun þessa dagana að ganga frá ráðningum tíu nýrra starfsmanna til að sinna náms- og starfsráðgjöf við fólk í atvinnuleit.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta