Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 45/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 45/2020

Föstudaginn 24. apríl 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. desember 2019, um að synja umsókn hennar um fæðingarstyrk.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 28. nóvember 2019, sótti kærandi um fæðingarstyrk í sex mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2020. Með ákvörðun, dags. 18. desember 2019, var umsókn kæranda synjað þar sem skilyrði um lögheimili á Íslandi væri ekki uppfyllt, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 22. janúar 2020. Með bréfi, dags. 23. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 29. janúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. janúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið í tölvupóstsamskiptum við Fæðingarorlofssjóð í ágúst 2019 varðandi rétt hennar til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna þess að hún hafi verið í fjarnámi á Íslandi síðastliðin þrjú ár og búsett erlendis. Eins og fram komi í fylgiskjölum hafi kærandi veitt upplýsingar um búsetu og að hún væri ekki í nógu mörgum einingum ári fyrir fæðingu barns og ætti því ekki rétt á fæðingarstyrk/orlofi fyrir námsmenn. Kærandi hafi einnig útskýrt að maðurinn hennar væri í fullu námi og vinnu þar sem þau væru búsett. Kærandi hafi talið að hún ætti þá frekar rétt á styrk fyrir þá sem væru í 25% starfi eða minna. Hún hafi fengið staðfestingu á því í tölvupósti að hún ætti rétt á þeim styrk sem hafi verið léttir. Stuttu síðar hafi kærandi ætlað að sækja um styrkinn og fengið ættingja til þess að kanna hvort umsóknin væri rétt. Sá hafi haft samband við Fæðingarorlofssjóð símleiðis og útskýrt mál kæranda, að hún byggi erlendis, og fengið sömu svör, að hún ætti rétt á styrk fyrir þá sem væru í 25% starfi eða minna. Síðar hafi kærandi fengið tölvupóst frá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs um að það gæti mögulega verið um misskilning að ræða, hvort hún verði ekki örugglega búsett á Íslandi við fæðingu barnsins. Því hafi kærandi svarað neitandi, enda hafi hún verið búin að taka það fram í fyrri samskiptum að hún væri búsett erlendis. Þá hafi kærandi fengið þær upplýsingar að hún yrði að hafa lögheimili á Íslandi til þess að eiga rétt á þessum litla styrk sem myndi bjarga þeim þennan tíma sem hún væri í orlofi. Kærandi hafi verið í samskiptum við þennan starfsmann, sbr. meðfylgjandi gögn, og hún átti sig ekki á þessum ótrúlegu vinnubrögðum. Hún hafi haft samband með miklum fyrirvara til þess að ganga úr skugga um að þau ættu rétt á þessum styrk og farið í gegnum meðgönguna í þeirri trú, en svo fengið að vita að vegna misskilnings fái þau ekki neitt. Það að hafa verið í námi síðustu ár og útskrifast frá Háskóla Íslands skipti engu máli, það sé sorglegt, svekkjandi og gríðarlega kvíðavaldandi.

Kærandi bendir á að henni hafi verið ráðlagt að flytja lögheimili sitt til Íslands rétt fyrir fæðingu, þrátt fyrir að hún komi ekki til með að búa á Íslandi. Það sé fráleitt að Fæðingarorlofssjóður ráðleggi henni að fara einhverja svindlleið í gegnum þeirra eigið kerfi sem sé augljóslega gallað. Kærandi geti ekki flutt lögheimili sitt og verið áfram búsett erlendis. Það komi ekki til greina og muni bara koma sér illa fyrir hana. Einnig hafi kærandi skoðað rétt sinn í búsetulandinu. Þar séu reglurnar skýrar, hún megi ekki vera skráð í neitt nám til þess að sækja um aðstoð og það komi ekki til greina þar sem hún sé að reyna að halda áfram með mastersnám sitt í fjarnámi við Háskóla Íslands. Kærandi eigi því engra annarra kosta völ en að kæra synjunina sem hún hafi fengið frá Fæðingarorlofssjóði í desember á grundvelli þess að hún hafi sett fram allar upplýsingar um sín mál í byrjun og fengið jákvæð svör um styrk fyrir þá sem séu í 25% starfi eða minna. Starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs hafi gert misstök en ekki hún. Einnig vegna þess að Fæðingarorlofssjóður hafi ráðlagt henni að fara á bak við sitt eigið kerfi sem sé fáránlegt og fái kæranda til þess að hugsa hversu margir, sem ekki eigi rétt á styrk eða orlofi, hafi getað nýtt sér einhverja svindlleið til þess að komast í gegnum þetta greinilega undarlega kerfi.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem fram komi að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé mælt fyrir um undanþágu frá 12 mánaða lögheimilisskilyrði 3. mgr. en þar segi að hafi foreldri haft lögheimili hér á landi í að minnsta kosti einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt sé, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar þegar metið sé hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði samkvæmt 3. mgr., enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hafi liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis hafi verið lokið. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur samkvæmt 23. gr.

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli hvorki lögheimilisskilyrði 3. mgr. né undanþáguákvæði 4. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 og þegar af þeim völdum eigi hún ekki rétt til greiðslu fæðingarstyrks, sbr. upplýsingar frá Þjóðskrá Íslands um að kærandi hafi lögheimili í B og frá kæranda um að hún verði ekki með lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Eftir standi að kærandi sé ósátt með þær upplýsingar sem hún hafi fengið í tölvupóstsamskiptum við Fæðingarorlofssjóð á tímabilinu 27. júlí til 16. september 2019. Í fyrri hluta þeirra samskipta, sem hafi staðið yfir frá 27. júlí til 23. ágúst, hafi ekki verið tekið fram að kærandi þyrfti að eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og sé það miður. Í samskiptum við kæranda frá 9. til 16. september 2019 komi það aftur á móti skýrt fram sem og leiðbeiningar um þá undanþáguheimild sem leiði af 4. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000. Í tölvupósti kæranda frá 16. september 2019 tiltaki hún hvaða afleiðingar það myndi hafa í för með sér fyrir hana og hennar fjölskyldu ef lögheimilið yrði flutt til Íslands og því hafi hún ákveðið að flytja ekki.

Þrátt fyrir að ekki hafi komið fram í tölvupóstsamskiptum við kæranda á tímabilinu 27. júlí til 23. ágúst að skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks væri lögheimili hér á landi við fæðingu barns verði ekki séð að sá skortur á leiðbeiningum hafi haft afleiðingar í för með sér fyrir réttindi kæranda til fæðingarstyrks. Þegar á því tímamarki hafi kærandi verið með lögheimili í B og haft frá X samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Á því tímamarki hafi verið innan við sex mánuðir í væntanlegan fæðingardag barns og því ljóst að kærandi myndi þá þegar ekki uppfylla skilyrði 3. mgr. 18. gr. laganna um 12 mánaða lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Því hefði undanþáguheimild 4. mgr. 18. gr. laganna alltaf þurft að koma til og flutningur á lögheimili til landsins svo að kærandi gæti öðlast rétt til fæðingarstyrks. Kæranda hafi verið leiðbeint um það í síðasta lagi 16. september 2019 en þá hafi enn verið fjórir mánuðir eftir af þeim innan við sex mánuðum sem hún hafi haft þann 27. júlí til að bregðast við og flytja lögheimili sitt til landsins, vildi hún öðlast rétt til fæðingarstyrks sem eins og áður segi hún hafi ákveðið að gera ekki.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi eigi ekki rétt á fæðingarstyrk, sbr. bréf til hennar, dags. 18. desember 2019, og að skortur á leiðbeiningum um lögheimilisskilyrði á tímabilinu 27. júlí til 23. ágúst hafi ekki haft afleiðingar í för með sér varðandi réttindi hennar til fæðingarstyrks.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk þar sem skilyrði um lögheimili á Íslandi væri ekki uppfyllt, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir í 1. mgr. að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að lögin taki einnig til réttinda foreldra utan vinnumarkaðar og í námi til fæðingarstyrks.

Í 18. gr. laga nr. 95/2000 er fjallað um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Þar segir í 3. mgr. að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Í 4. mgr. 18. gr. laganna er mælt fyrir um undanþágu frá 12 mánaða lögheimilisskilyrði 3. mgr. en þar segir að hafi foreldri haft lögheimili hér á landi í að minnsta kosti einhvern tíma í síðasta mánuði fyrir fæðingardag barns skuli Vinnumálastofnun, að því marki sem nauðsynlegt er, taka tillit til búsetutímabila foreldris í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, Norðurlandasamningnum um almannatryggingar, stofnanasamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða samningi milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar þegar metið er hvort foreldri fullnægi lögheimilisskilyrði samkvæmt 3. mgr., enda hafi foreldri verið tryggt á sama tíma í því ríki og ekki hafi liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili samkvæmt lögum þess ríkis hafi verið lokið. Foreldri skuli láta tilskilin vottorð um búsetutímabil og tryggingatímabil í öðru ríki í samræmi við ákvæði samninganna fylgja með umsókn um greiðslur samkvæmt 23. gr.

Óumdeilt er að kærandi uppfyllir hvorki lögheimilisskilyrði 3. mgr. né undanþáguákvæði 4. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi fengið staðfestingu frá starfsmanni Fæðingarorlofssjóðs þess efnis að hún ætti rétt á styrknum og lagt fram tölvupóstsamskipti sín við sjóðinn. Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs er fallist á að kæranda hafi verið veittar ófullnægjandi upplýsingar þegar hún hafi fyrst haft samband við sjóðinn. Síðar hafi réttar upplýsingar verið veittar og kæranda greint frá undanþáguákvæði 4. mgr. 18. gr. laganna. Þá hafi skortur á leiðbeiningum ekki haft afleiðingar í för með sér varðandi réttindi kæranda til fæðingarstyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 95/2000 er hlutverk úrskurðarnefndarinnar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Ágreiningur um hugsanlegan rétt foreldris sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna rangrar upplýsingagjafar ræðst af almennum reglum skaðabótaréttarins og fellur því ekki undir valdsvið nefndarinnar að úrskurða um slíkan ágreining.

Með vísan til þess að kærandi uppfyllir ekki lögheimilisskilyrði 18. gr. laga nr. 95/2000 er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri synjun Fæðingarorlofssjóðs á umsókn hennar um fæðingarstyrk.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. desember 2019, um að synja umsókn A, um fæðingarstyrk, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta