Hoppa yfir valmynd
27. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 26/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                             

Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 26/2012:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 7. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þeirri ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 7. nóvember 2011 að synja því að taka til meðferðar beiðni kærenda um endurútreikning lána áhvílandi á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Kæran var upphaflega ranglega send til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, en hún var framsend til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu þá ákvörðun Íbúðalánasjóðs að taka ekki við beiðni þeirra um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, áhvílandi á fasteigninni að C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Í gögnum málsins kemur fram að Arion banki á kröfu á aftari veðrétt á fasteign kærenda en Íbúðalánasjóður, og sendi sjóðurinn málið því til Arion banka til afgreiðslu, í samræmi við 6. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 28. febrúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum.

 

III. Sjónarmið kærenda

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. febrúar 2012, segja kærendur að þau hafi sótt um 110% leiðréttingu á íbúðaláni hjá Íbúðalánasjóði vegna fasteignar þeirra að C. Samkvæmt útreikningum Íbúðalánasjóðs sé veðsetning umfram 110% 7.063.843 kr. og frádráttur vegna annarra eigna 859.944 kr., en þar sem aftasti veðréttur sé hjá Arion banka sé umsókn þeirra synjað. Skuldin hjá Arion banka sé 1.460.663 kr.

Krafa kærenda sé sú að lánið verði leiðrétt um 6.140.056 kr. Lánið hafi hækkað langt umfram allar spár og áætlanir þeirra þegar þau hafi keypt fasteignina, lánin séu orðin það há að ef þau vildu selja húsið til að losa um skuldirnar væri það ekki hægt vegna yfirveðsetningar. Til að það sé einhver von til þess að þau geti haldið áfram að greiða af lánunum verði það að lækka.

 

IV. Sjónarmið kærða

Af hálfu Íbúðalánasjóðs kemur fram að málinu hafi verið synjað að svo stöddu hjá Íbúðalánasjóði og sent Arion banka í samræmi við 6. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem Arion banki eigi kröfu á aftari veðrétti. Þegar svar berist frá bankanum muni Íbúðalánasjóður afgreiða málið.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Af hálfu Íbúðalánasjóðs kemur fram að afgreiðslu máls þessa hafi verið synjað að svo stöddu og sent Arion banka þar sem bankinn eigi kröfu á aftari veðrétti. Þegar svar berist frá bankanum muni Íbúðalánasjóður afgreiða málið. Samkvæmt 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, getur málsaðili skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem falið hefur verið verkefni húsnæðisnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi barst vitneskja um ákvörðun.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið hefur ekki verið tekin kæranleg ákvörðun í máli þessu í skilningi tilvitnaðrar 42. gr. laga um húsnæðismál. Málinu er því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Máli A og B er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta